05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (1359)

87. mál, bættar samgöngur við Austfirði

Haraldur Guðmundsson:

Ég held, að það sé rangt hjá hæstv. forseta, að ekki sé hægt að afgr. till. eins og hún lá fyrir. Mér dettur ekki í hug að fullyrða, að það sé öruggt, ef þessar breyt. verða gerðar á strandferðunum, að sú upphæð, sem áætluð er í fjárl. til strandferðanna, hrökkvi nákvæmlega fyrir kostnaðinum við þær. En það er heldur ekki öruggt, að svo verði, þó að engin till. verði samþ. annars veit ég ekki betur en að þetta sé áætlunarupphæð, sem í mörgum tilfellum hefir farið tugi og jafnvel hundruð þúsunda fram úr áætlun, og að stj. hafi greitt það án þess að leita fyrst samþykkis Alþingis. Það er því óþarfi að fara með þessa till. eins og um sé að ræða útgjöld, sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlögum.

Út af ummælum hæstv. dómsmrh., að stj. gæti ekki sett Eimskipafél. neinar reglur um ferðir þess eða ráðið yfir því, vil ég taka það fram, að þetta er aðeins að forminu til rétt, því að stjórn „Eimskip“ hlýtur að taka tillit til óska stj., enda er mér t. d. kunnugt um, að framkvæmdastjóri þess hefir fullan hug á að gera það, sem hann getur í þessu efni.

Að því er snertir ferðir „Eimskip“ til Austfjarða, þá er þess að gæta, að þar sem það hefir tekið upp flutning á ísvörðum fiski héðan frá Faxaflóa, þá er ekki hægt að ætlast til þess, að þau skip komi til Austfjarða, sem flytja fiskinn héðan; það tefði skipin of lengi. Ég get því verið sammála hv. þm. N.-Ísf., að lítils sé að vænta um ísfisksútflutning fyrir Austfirðinga frá Eimskip. Þá sagði þessi hv. þm., að töluvert sleifarlag hefði verið á síldarútflutningnum frá Austfjörðum síðastl. haust, sem eingöngu hefði verið Austfirðingum að kenna. Ég vissi nú ekki, hvort hann átti við saltsíld eða ísaða síld. Hafi hann átt við útflutning á saltsíld, þá veður hann eintóman reyk, því eins og ég skýrði frá við fyrri umr. till. þessarar, þá var engin ferð til útlanda frá Austfjörðum eftir að síldveiði hófst, fyrr en 5. des. Var því tvisvar sinnum send síld hingað með strandferðaskipunum til þess að koma henni á erlendan markað. Þetta gekk bærilega meðan hægt var að hnýta saman ríkisskipunum og skipum Eimskipafélagsins. En ef skip Sameinaða félagsins áttu að taka við, varð að greiða 6-7 kr. fragt fyrir hverja tunnu.

Að sjálfsögðu reiddu menn sig á Lagarfoss í des., en það varð ekki til neins. Þegar hann kom, var hann alveg fullfermdur og gat því ekki tekið neitt. Varð því að fá annan Fossanna til þess að taka síldina. Hann kom nokkru fyrir jól og tók 6000 tn., en hann kom svo seint út, að síldin seldist ekki fyrir jól og varð því að bíða fram í miðjan janúar.

Þá sagði hv. þm., að það hefði verið barnaskapur af Austfirðingum að leigja ekki skip til þess að flytja út síld sína. En eins og tekið hefir verið fram, er þessi Austfjarðasíld, sem hér er um að ræða, ekki sambærileg við aðra síld; markaður fyrir hana er svo miklu þrengri. Sé hægt að senda út 1000-1200 tn. í einu, má búast við sæmilegri sölu. En að senda í einu 6000 tn. er allt of mikið. Það næði því engri átt að fara að leigja skip fyrir 10-12 hundr. tunnur. Slíkt yrði allt of dýrt. Hinsvegar skal ég játa, að ef það tækist að koma markaðnum fyrir ísaða síld, að magni til, svo upp, að milliferðaskipin önnuðu ekki flutningunum, þá væri alveg sjálfsagt að leigja sérstakt skip til þeirra. En eins og nú standa sakir, væri æskilegast, að ferðunum væri hagað svo, að hægt væri að senda út smásendingar, nokkur hundruð kassa í einu; meiri útflutningur í einu gæti orðið óheppilegur meðan markaðurinn fyrir þessa síld er svona takmarkaður og óviss.

Þá þykir mér rétt að geta þess hér, sem flestum hv. þdm. mun vitanlegt, að óánægja Austfirðinga yfir hinum mjög svo óhentugu samgöngum við útlönd er mjög almenn. Það hefir því verið vakið máls á því af erlendum skipafélögum, hvort Austfirðingar vildu ekki gera samninga við þau, sem tryggðu þeim hentuga flutninga. Um þetta hefir nokkuð verið rætt meðal Austfirðinga. Hvort úr því verður, að slíkir samningar verði teknir upp, skal ég ekkert fullyrða um að svo komnu, en verði eins greinilega gengið framhjá Austfirðingum framvegis eins og verið hefir, þá eiga þeir tæplega annars úrkosta en að bjarga sér sjálfir í sínum samgöngumálum. En það myndi ekki verða nein búbót, hvorki fyrir Eimskip eða ríkisskip, er erlent félag tæki upp hraðar og öruggar ferðir bæði til Norður- og Suðurlandsins. Annars er máli þessu mjög skammt á veg komið ennþá. En verði enn þvertekið fyrir að bæta samgöngurnar við Austurland frá því, sem nú er, þá mun eflaust verða að þessu horfið.

Út af ummælum hæstv. dómsmrh. um kostnaðinn við strandferðirnar verð ég að segja það, að ég skil ekki, hvaða búhnykkur það er að hafa Súðina liggjandi hér inni á Rvíkurhöfn nær hálft árið. Það skaðar landsmenn án efa miklu meira en nemur því litla, sem ríkissjóði sparast í útgjöldum við það að halda henni ekki alltaf úti.

Ég vænti nú, að hv. þdm. sjái nauðsyn þessa máls og samþ. till. eins og hún er. Till. hv. 1. þm. Eyf. tel ég óþarfa, því að það hefir ekki verið gert að fastbinda slíkar fjárveitingar í fjárl.