05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (1362)

87. mál, bættar samgöngur við Austfirði

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Ég hefi ekki miklu við það að bæta, sem ég hefi áður sagt. Hv. þm. Seyðf. hefir líka svarað flestu því, sem svara þurfti, og mun ég því takmarka mál mitt. Ég get að mestu leyti unað við svör hæstv. dómsmrh.; mér virtist hann yfirleitt taka vingjarnlega í till. Hann gat þess réttilega, að stj. gæti ekki haft hönd yfir Eimskipafélaginu eða því, hvernig það hagaði ferðum skipa sinna. Í till. er heldur ekki gert ráð fyrir því, en aðeins að stj. beiti áhrifum sínum við stjórn félagsins um að koma því skipulagi á strandferðir þess, að þær verði austurhluta landsins að meira liði en verið hefir.

Hv. þm. N.-Ísf. virtist helzt vilja halda því fram, að þegar væri búið að semja við „Eimskip“ um þessar ferðir. En svo er ekki. Framkvæmdarstjórinn hefir aðeins bent á, hvernig koma mætti fyrir breyt. á ferðum skipanna og nokkrum viðkomum þeirra eystra, án þess að hagga áætlun þeirra að nokkru ráði. Hér er ekki um neina samninga að ræða, heldur aðeins ráðagerð, sem jafnframt fylgdi það skilyrði, að þetta væri því aðeins mögulegt, að nægilegir flutningar fengjust í skipin. Á þetta má því ekki líta sem gerða samninga, heldur eins og möguleika til samninga.

Að því er snertir spurninguna um aukið framlag ríkissjóðs til strandferðanna, þá gerir samgmn. í till. sínum ekki ráð fyrir, að meira fé verði veitt eða þurfi á þessu ári en upphaflega var áætlað. Hinsvegar virðist mér, að ekki megi eða sé fært að hnitmiða þessa upphæð svo mjög, að ekki megi víkja lítillega frá henni eftir atvikum, ef þörf krefur. Slíkt væri allt of mikil smámunasemi og vafasöm fyrirhyggja. Nú hagar þannig til um strandferðir Esju og Súðarinnar, að þær eru aðeins ákveðnar fyrir stuttan tíma í einu, og má því breyta áætlun með stuttum fyrirvara. Það er einmitt þetta, sem fyrir samgmn. vakir, að víkja megi hringferðunum til og flýta þeim meira, svo fá megi þessar aukaferðir austur milli hringferða. Ætti það ekki að auka útgerðarkostnað ríkissjóðs, þar sem mun minni tími ætti að fara til hringferðanna, en viðkomur skipanna alls að fjölga og þá um leið að aukast tekjur þeirra.

Út af aths. þm. N.-Ísf. um framkvæmdaleysi Austfirðinga í því að notfæra sér síldveiðina undanfarið vil ég taka það fram, sem öllum má þó augljóst vera, að þar sem um jafnstopula veiði er að ræða eins og við vetrargöngur þessar í Austfjörðum, þar er þess varla að vænta á þessum krepputímum, að einstakir menn taki á sig alla áhættu við að leigja skip fyrir þessa óvissu flutninga, þegar þá líka ekkert hefir gert verið af hálfu þess opinbera til að bæta úr þörfinni, en veiðistöðvarnar eystra undanfarið settar í lamandi einangrun af samgönguleysi.

Hv. 1. þm. Eyf. hefir tekið aftur hina skrifl. brtt. sína, um að till. þessi gangi til efri deildar. Út af till. hans vil ég geta þess, að hugmynd n. var — eins og fyrr var sagt — sú, að samþykkt till. þessarar þyrfti ekki að hafa í för með sér aukin gjöld fyrir ríkissjóð, og væri því óþarft, að hún gengi í gegnum báðar deildir. Ég skal svo ekki tefja mál þetta með öllu fleiri orðum. Hér er ekki um annað að ræða en hæverskleg tilmæli til ríkisstj. um að hlutast til um, að ferðum ríkisskipanna verði hagað þannig, að þær komi að almennari notum en að undanförnu.

Að lokum vil ég taka undir það með hv. þm. N.-Þ., að sleifarlagið, sem verið hefir á strandferðunum og samgöngum við Austfirði og Norðausturlandið undanfarin ár, kemur þeim mun harðar niður á héruðunum, sem þessir landshlutar nutu um 30-40 ára skeið betri samgangna en aðrir landshlutar, þótt fyrir tilstilli útlendinga væri. Viðbrigðin hafa verið hastarleg og örlagarík, og er sízt að undra, þótt Austfjörðum hafi orðið nokkur hnekkir að því, að þeim fyrri samgöngum var á brautu kippt og með því líkt og skorið á þá lífæð viðskipta og atvinnu, sem fjöldi fólks hafði byggt á afkomu sína og atvinnu allt frá 1880.

Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég vona, að hæstv . dómsmrh. — eftir andsvörum hans að dæma — taki vingjarnlega móti till. og verði við þeim hógværlegu tilmælum, sem í henni felast.