05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (1363)

87. mál, bættar samgöngur við Austfirði

Hannes Jónsson:

Með því að brtt. hv. 1. þm. Eyf. var tekin aftur, er að mestu horfin ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs. Í till. þeirri, sem hér liggur fyrir, er engin heimild um aukna fjárveitingu til strandferðanna, enda þess ekki þörf, þar sem fjárveitingin til strandferðanna í fjárl. er aðeins áætlunarupphæð. Er því aðeins hér um að ræða framkvæmdaatriði fyrir stjórnina. Með þessu er ég þó alls ekki að hvetja stj. til þess að fara fram úr þeirri áætluðu upphæð. Þvert á móti væri æskilegast, að hún eyddi sem minnstu, jafnframt því þó að gæta þess að gera öllum landshlutum sem jafnasta aðstöðu til þess að njóta samgangnanna.

Flutningaþörfin er yfirleitt geysilega mikil hér við land. Það eru ekki einungis vöruflutningar, heldur einnig mannflutningar. Og allir þessir flutningar þurfa að komast í það horf, að eigi valdi baga. Í þessu efni vildum við Norðlendingar létta undir með Austfirðingum, með því að láta falla niður nokkrar ferðir Esju um hásumarið, til þess að hún gæti farið hraðferðir til Austurlands. Við skildum þörf Austfirðinga á slíkum ferðum og vildum taka á okkur nokkur óþægindi þeirra vegna. Og við gátum því fremur afsalað okkur sumum hringferðum Esju yfir sumarið, þar sem við teljum, að okkar fólksflutningum geti orðið betur borgið á annan hátt á þeim tíma árs. Við viljum efla samgöngur á landi og teljum það heppilegustu leiðina til þess að fullnægja fólksflutningaþörf Norðlendinga yfir sumarið. Á þessu hafa Austfirðingarnir góðan skilning. Hv. 1. þm. S.-M. er okkur sammála um það, að efla beri meira samgöngurnar á landi fyrir Norðurland, en aftur á móti samgöngurnar á sjó til Austfjarða. Það hefir því sennilega verið í ógáti gert, en ekki af því hv. þm. meinti neitt með því, þegar hann flutti hér till. um að lækka framlagið til Holtavörðuheiðarvegarins. Fyrirgef ég honum það fúslega fyrir mitt leyti, þar sem hann hefir sennilega ekki munað eftir þessu samkomulagi okkar og því, að við Norðlendingar ætluðum að láta taka Esju af okkur yfir sumartímann til þess að fullnægja flutningaþörf þeirra Austfirðinganna.

Þegar horfið var að því ráði að kaupa nýtt strandferðaskip — sem raunar var nú gamalt, en gott fyrir því —, var vitanlega meiningin að láta þau bæði ganga. Það var auðvitað ekki verið að hugsa um að eiga skip til þess að láta það liggja uppi til augnayndis fyrir Reykvíkinga, heldur átti með því að fullnægja þörfum landsmanna. Og ég vil taka undir það með hv. þm. N.-Þ., að Súðin er að mörgu leyti hentugasta skipið, sem við höfum til þess að annast flutninga fyrir Norður- og Austurland, sérstaklega yfir haustmánuðina. Þess vegna vænti ég þess, að hæstv. stj. geti látið einmitt Súðina fara einar tvær ferðir norður um land í sumar. Það eru fleiri en Austfirðingar, sem hafa dálítið óþægilega aðstöðu til flutninga hér við land. Frá Reykjavík til Norðurlands lengur ekki nema eitt skip frá Eimskipafél. Ísl., einu sinni á ári, þ. e. a. s. sem kemur inn á t. d. Húnaflóa. Og Esja hefir svo takmarkað lestarúm, að hún getur ekki flutt allt, sem við þurfum að flytja af vörum þessa leið. Það er t. d. ekki svo lítið, sem flytja þarf af benzíni á hafnirnar við Húnaflóa handa bílunum, og margt fleira mætti benda á. Að þessu leyti er Esja margfalt óhentugri fyrir Norðurland heldur en Súðin.

Eins og ég tók fram áðan, liggja samgöngubætur við Norðurland að því er fólksflutninga snertir aðallega í því að bæta vegina á landi, sem við hv. 1. þm. S.-M. erum ásáttir um, að þyrftu sem allra fyrst að komast í viðunandi horf.

Ég þarf svo ekki miklu meira um þetta að segja. Utan þings hefir verið litið svo á af sumum, að með þessari till. væri verið að leggja til að fækka ferðum Súðarinnar. En svo er alls ekki. Við viljum þvert á móti leggja mikla áherzlu á, að hæstv. stj. láti Súðina fara a. m. k. tvær eða þrjár ferðir yfir sumartímann, ef hún sér nokkra möguleika á því, auk þess sem við tökum sérstaklega fram nauðsyn Norður- og Austurlands á ferðum Súðarinnar í okt. og nóv.

Okkur er þó ljóst, að það er mikill vandi fyrir hæstv. stj. að fullnægja strandferðaþörfunum og láta samt ekki kostnaðinn fara fram úr áætlun fjárl. Ef ekki er hægt að uppfylla nema aðra þá kröfu, veit ég eigi vel, hvora þeirra er nauðsynlegra að uppfylla. Sennilega mætti fara þar bil beggja, fara eitthvað fram úr áætlun fjárl., en þó ekki mikið, og reyna með því að koma strandferðunum þannig fyrir, að allir megi sæmilega við una, með hóflegum kröfum.

Mér skildist á einum hv. flm. þessarar þáltill., að Austfirðingar væru nú í rauninni ekki á svo miklu flæðiskeri staddir með samgöngur, að þeim stæðu skipaferðir til boða, þó þær væru ekki frá Eimskipafél. Ísl. Það er vitanlega stórt mál út af fyrir sig, hvort við getum komizt af án ferða útlendu skipanna hér við land og hvað er hægt að gera til þess að taka þá flutninga í okkar hendur, sem þan hafa. Það er mál, sem Alþingi getur ekki komizt hjá að taka einhverntíma afstöðu til. En í því efni gildir auðvitað alveg það sama að því er snertir Austfirðinga eins og aðra landsmenn. Það er mjög gott, ef við gætum komið samgöngum okkar á sjó í það horf, að þeir flutningar, sem nú eru í höndum útlendinga, gætu orðið gróðavegur fyrir okkur sjálfa og dregið úr hallanum, sem nú er á okkar skipaútgerð, og ef við gætum þannig komið í veg fyrir, að mikið fé fari út úr landinu fyrir skipaferðir. En meðan ekki eru gerðar verulegar ráðstafanir í þessa átt, sé ég ekkert á móti því, að útlend skip taki eins ferðir fyrir Austfirði eins og aðra hluta landsins.