05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (1364)

87. mál, bættar samgöngur við Austfirði

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég þarf ekki miklu að bæta við það, sem ég hefi áður sagt. Vil þó segja fáein orð út af því, sem síðan hefir komið fram.

Það kom skýrt fram hjá hv. frsm. n., að hann gerir ekki kröfu til þess, að stj. eyði meiru til strandferða heldur en þingið hefir áætlað, en hinsvegar heyri ég það á hv. þm., að það muni verða látið óátalið, þó kostnaðurinn fari eitthvað fram úr áætlun. Það er mjög gott fyrir stj. að fá að heyra þetta. Ég skal minna á það, að á þinginu í fyrra var spursmálslaust gengið út frá því, að ekki yrði nema annað strandferðaskipið látið ganga og fjárveitingin fyrir árið 1933 var miðuð við það. Nú verður það að sýna sig, þegar kemur fram á árið, hvort nokkrar líkur eru til þess, að ríkið geti bætt við þær 225 þús. kr., sem áætlaðar voru til strandferðanna. Um það skal ég engu spá að svo stöddu. Ég endurtek aðeins það, sem ég sagði áðan, að stj. mun auðvitað reyna að hafa samgöngurnar eins góðar og mögulegt er fyrir það fé, sem hún hefir úr að spila. En það verður að athuga, að fjárl. fyrir árið 1933 eru með milljónar tekjuhalla, og þarf því ekki mikið út af að bera til þess að svo þröngt verði í búi, að ómögulegt sé að uppfylla nema allra brýnustu þarfirnar. Þetta veit ég, að hv. þm. setja sér fyrir sjónir og sjá, að ekki er hægt að lofa miklu fyrirfram um aukin framlög.

Það er rétt, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, að yfir hásumarið þarfnast Norðlendingar ekki skipaferða til mannflutninga. Það er af þeirri ástæðu, að flestir, sem ferðast vilja milli Norðurlands og Suðurlands yfir sumarið, fara landleiðina, en ekki sjóleiðina. Það hefir verið bent á það áður hér, að það er því beinlínis sparnaður að því fyrir ríkið, að aðalvegurinn milli Suður- og Norðurlands komist í sæmilegt horf sem allra fyrst. Enda hefir þingið oft sýnt góða viðleitni í þá átt. Ég mun svo reyna að festa mér í minni þær óskir, sem fram hafa komið frá ýmsum hv. þdm., og gera mitt ýtrasta til þess, að hægt verði að fullnægja þeim. En loforð get ég engin gefið um það efni.

Mér skildist á hv. þm. V.-Húnv., að hann telja e. t. v. ráðlegt að gera ráðstafanir í þá átt að banna útlendingum að hafa strandferðir hér við land. Slíkt gæti komið til mála síðar, en ekki nú, meðan við kvörtum yfir því, að við getum ekki haldið uppi þeim strandferðum, sem okkur eru nauðsynlegar. Á meðan svo standa sakir, væri það að vera sínir eigin böðlar að banna öðrum þjóðum að hafa hér slíkar ferðir. Það er fyrst þegar við höfum fjármagn til þess að reka nægilegar strandferðir sjálfir, að við getum bannað útlendingum að vera í strandferðum hér við land.