08.04.1933
Neðri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (1375)

153. mál, innlenda lífsábyrgðarstofnun

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Þessi þáltill. er flutt af mér og hv. þm. Borgf., eins og þskj. ber með sér. Því miður eru ekki fyrir hendi gögn um það, hve margir séu líftryggðir hér á landi eða hvar. Hitt er vitanlegt, að hér starfa mörg líftryggingarfélög, og öll eru þau útlend. Mörg þeirra vinna kappsamlega að því að auka tölu líftryggðra. Okkur flm. hefir virzt, að þrátt fyrir öll þessi erlendu félög muni vera hér fyrir hendi starfsvið fyrir íslenzka líftryggingarstofnun. Það eru nú um 80 ár síðan Danir settu á stofn Statsanstalten for Livsforsikring, þ. e. innlenda, ríkistryggða lífsábyrgðarstofnun, og mun hún einnig hafa starfað hér á landi, en mér er sagt, að þetta félag muni vera frekar tregt á að taka nýjar tryggingar. Þó að við séum miklu færri og smærri en Danir, væri ekki ólíklegt, að það, sem þeir töldu nauðsynlegt h já sér fyrir 80 árum, væri orðið nauðsynlegt hér nú. Og tilgangur okkar flm. með þessari þáltill. er sá, að skora á stj. að láta undirbúa fyrir næsta þing frv. um slíka stofnun. — Að undirbúningi þess frv. yrðu auðvitað að starfa „fagmenn“ í tryggingum, og mun nú vera svo komið, að við þurfum ekki að leita út fyrir landsteinana eftir hæfum mönnum á því sviði. Íslendingar hafa nú þegar tekið í sínar hendur nokkra tryggingarstarfsemi á öðrum sviðum, þar sem er Brunabótafélag Íslands, sem stofnað er samkv. 1. frá 1907, og Sjóvátryggingafélag Íslands, sem ekki er stofnað fyrir atbeina þings og stjórnar, heldur með samtökum og frjálsum félagsskap. En að líftryggingum, og þeim öðrum tryggingargreinum, sem vant er að reka í sambandi við þær, hefir ekkert íslenzkt félag verið starfandi. Vegna fólksfæðar hér á landi er varla von til þess, að slík stofnun geti risið upp án þess að hið opinbera láti til sín taka um byrjunarframkvæmdir, og ríkið taki strax hlutdeild í stofnuninni, sérstaklega með því að ábyrgjast allar skuldbindingar félagsins.

Ég ætla ekki að fara út í það hér, hvað gera þurfi til undirbúnings í þessu máli. Það ætla ég stj. og okkar færustu mönnum í tryggingarfræði. Ég legg áherzlu á það, að þessu máli yrði svo hrundið í framkvæmd, að slík stofnun sem hér um ræðir yrði samsvarandi þeim beztu erlendu líftryggingastofnunum, sem hér starfa, og hefði á boðstólum þær aðrar tryggingar, sem talið er nauðsynlegt að reka í sambandi við líftryggingar, svo sem ellirentu og annað slíkt. Hún yrði að vera svo, að hún væri fullkomlega samkeppnisfær við þau beztu útlendu félög, sem hér starfa. Framan af gæti það vel komið til mála, að þessi íslenzka líftryggingarstofnun starfaði í einhverju sambandi við erlenda, ábyggilega stofnun af sama tægi. Okkur flm. virðist svo, sem með því að fá íslenzka, ríkistryggða lífsábyrgðarstofnun vinnist fyrst og fremst það, að þeir, sem vildu líftryggja sig hér á landi, fengju það fyllsta öryggi, sem hægt er að gefa, og í öðru lagi yrði það fé, sem greitt væri í iðgjöld, kyrrt til veltu í landinu sjálfu.

En ég skal geta þess, að sum af þeim útlendu félögum, sem hér starfa, hafa tekið upp þá venju að láta þá sjóði, sem safnazt hafa hér, að mestu leyti vera starfandi í landinu sjálfu. En þetta verður þó aldrei eins tryggt eins og hjá íslenzkri stofnun.

Ég sé ekki neina nauðsyn á því að vera að fara út í starf erlendu líftryggingarfélaganna hér, enda hefi ég ekki kynnt mér það mál neitt að ráði. Ég veit þó, að þau eru mjög misjöfn. Við sum þeirra þarf mikinn undirbúning og mikla skriffinnsku til þess að fá greiddar tryggingar við dauðsföll og þessháttar. Þetta snertir að vísu ekki mikið það mál, er hér um ræðir, en þó sýnist það eitt atriði, sem yrði gert miklu hægara fyrir með, ef stofnunin væri í landinu sjálfu, og væri einhver munur á því að þurfa ekki að fara til annara landa með það að sanna dauðsföll og slíkt. Þó að þetta sé ekki stórt atriði, má einnig á það líta í sambandi við þetta mál.

Ég vil í sambandi við þetta mál geta þess, að okkur flm. fannst, að með stofnun íslenzks lífsábyrgðarfélags væri ýtt undir menn með að líftryggja sig, en það álítum við öllum mjög nauðsynlegt. Íslenzk stofnun af þessu tægi, sem stæði fyllilega á sporði þeim beztu erlendu félögum, sem hér starfa, gæti orðið mikil lyftistöng til að ýta undir menn hér á landi að tryggja sig. Þessi stofnun þyrfti líka að hafa „invaliditetsforsikringer“, eða tryggingar gegn því, að menn verði farlama, og yfirleitt allar þær tryggingar, sem beztu lífsábyrgðarfélög hafa á boðstólum.

Verði ekki hreyft við því andmælum, óskum við flm., að þetta mál verði afgr. án n. Við sjáum ekki, að hægt sé að gera neitt frekara í þessu máli hér á þinginu en að samþ. eða fella þessa þáltill. okkar. Hér er um það að ræða, hvort d. vilji láta undirbúa þetta mál fyrir næsta þing, og má skera úr því með atkvgr. við eina umr.