25.04.1933
Neðri deild: 57. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (1406)

165. mál, slysatryggingalög

Fim. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Ég ber þessa þáltill. fram eftir óskum, sem komu fram á þingmálafundi í kjördæmi mínu, á Akranesi. Ástæðan til þess, að hér er farið fram á lítilsháttar breyt. á slysatryggingal. er sú, að þótt hefir koma fram í framkvæmd l. allmikið ósamræmi um greiðslu á tryggingum, eftir því hvort menn þeir, sem tryggðir eru, vinna á sjó eða landi. Þeir, sem sjó stunda, fá ekki greidda dagpeninga úr slysatryggingunni fyrr en eftir 6 vikur frá því slysið varð, en þeir, sem vinna í landi, fá dagpeninga greidda eftir 10 daga. Í sjómannal. er gert ráð fyrir, að maður, sem lögskráður er á skip, haldi fullu kaupi í 6 vikur, þótt hann slasist eða meiðist, og við það er greiðsla dagpeninga til sjómanna miðuð. En svo háttar útgerð t. d. á Akranesi, að allir hásetar eru ráðnir upp á hlut, og njóta þeir því einskis styrks fyrstu 6 vikurnar, sem þeir eru frá verki vegna slysa. Ennfremur háttar svo til á Akranesi, að helmingur þeirra manna, sem ráðnir eru á bátana, stunda sjó, en hinn helmingurinn vinnur í landi, við beitingu, aðgerð o. s. frv. En allir eru þessir menn lögskráðir á bátinn og teljast sjómenn. Þetta er gert af því, að þegar sjómenn veikjast, hlaupa landmenn í skörðin. Í slysatryggingal. er kveðið fast á um það, að enginn megi fara á sjó nema hann sé lögskráður á bátinn. Sé út af þessu brugðið, verður útgerðin að borga allar skaðabætur, ef slys vill til.

Það hefir þótt allmikið ósamræmi í því, að þessir landmenn, sem skráðir eru á bátana, skuli standa miklu verr að vígi en aðrir, sem ekki eru lögskráðir á skip, en vinna líka vinnu. Í þessari till. minni er því beint til stj., hvort ekki sé hægt að afnema þetta ósamræmi, svo að báðir þessir aðilar hafi jafnan rétt og komi undir ákvæði slysatryggingal. eftir 10 daga frá því að slys verður. Í þessari till. felst ekkert um að breyta því takmarki, heldur aðeins reynt að jafna það ósamræmi, sem ég nú hefi bent á. Ég hefi líka heyrt á hv. 1. þm. N.-M., að það væru fleiri atriði í þessu, sem reynslan sýnir, að þörf væri að taka til athugunar, svo að það gæti algerlega farið saman.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta; ég tel þess ekki þörf, en vænti, að hv. d. samþykki þetta frv. og að hæstv. stjórn fari eftir tilmælum þess.