25.04.1933
Neðri deild: 57. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (1408)

165. mál, slysatryggingalög

Vilmundur Jónsson:

Á sumarþinginu 1931 var því bætt inn í slysatryggingalöggjöfina eftir till. okkar Alþfl.manna, að greidd yrði læknishjálp og lyf fyrir þá, sem slasast, ef slysið er á annað borð bótaskylt. Mér er manna bezt kunnugt um, að til þess var ætlazt, að þessi kostnaður yrði allur greiddur frá því að slysið verður. En það kom í ljós við framkvæmd laganna, að þessi greiðsla var ekki talin geta komið til greina fyrr en eftir 10 daga. Þetta er mjög bagalegt og gerir ákvæðið lítilsvert og allt annað en til var ætlazt. Oftast er það svo um slys, t. d. þegar um beinbrot er að ræða, að mikillar læknishjálpar þarf við þegar frá fyrsta degi, svo að kostnaðurinn verður hvað mestur einmitt fyrstu 10 dagana eftir að slysið vill til.

Það lægi nærri að flytja frv. til breytinga á slysatryggingalögunum, en ég mun verða að láta nægja að flytja vatill. við þessa þáltill. á þá leið, að læknishjálp og lyf verði greidd þegar frá byrjun, er um slys er að ræða. Leyfi ég mér að æskja þess, að hæstv. forseti beri það undir atkv., hvort þessi skrifl. brtt. mín megi koma fram.