11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (1422)

190. mál, byggðarleyfi

Sveinbjörn Högnason:

Hv. flm. þessarar þáltill. sagði, að hér væri um mikið vandamál að ræða, og ég er honum sammála um það. Þetta er svo mikið alvörumál, að ég hygg, að það yrði vart lifandi í landinu, ef lög væru sett og látin koma til framkvæmda á þann hátt, sem hv. flm. ætlast til. Þá er komið vistarband á fólkið í þessu þjóðfélagi, og má fastlega búast við því, að ef eitt hreppsfélag færi að nota sér þær heimildir, sem gert er ráð fyrir að veita þeim til að takmarka innflutning utanaðkomandi fólks í sveitina eða bæinn, þá eru miklar líkur til að þau myndu öll beita sömu takmörkunar- og þvingunarráðstöfunum. — Hvaða hreppsfélag mundi veita atvinnuleysingjum viðtöku hindrunarlaust eftir að farið væri að beita þessari útilokun hér og þar á landinu? Og hvert er svo fólkinu ætlað flýja, sem leitar sér atvinnu til lífsbjargar, er sveitar- og bæjarfélög neita því um dvalarstað? Hér er einungis um vistarbandsþrælkun að ræða. Og ég undrast það, að nokkurt sveitarfélag skuli óska eftir slíku ástandi og hafa einurð í sér til að bera fram annað eins mál og þetta. Ef það væri krufið til mergjar, hvaða afleiðingar myndu af þessu hljótast, gæti það sannarlega komið hlutaðeigandi sveitarfélagi í koll. Við skulum hugsa okkur kauptún, sem hefir haft rífleg atvinnuskilyrði og þess vegna allmarga íbúa, en fyrir breytta hætti taka lífsskilyrði þorpsins allt í einu að þverra, eins og ekki er óalgengt um kauptún hér á landi. En fólkið kemst ekki burt og fær ekki að leita sér atvinnu í öðrum sveitarfélögum eða kaupstöðum. Hvernig yrði svo ástandið í þessu kauptúni, sem tapar atvinnuskilyrðunum, ef íbúar þess mættu ekki flytja burt eða leita til annara héraða? Það hljóta allir að skilja. — Ég hygg, að það sé ekki óalgengt hér á landi, að atvinnuskilyrðin aukist til muna í einn sjávarþorpi um leið eða á sama tíma og þau fara stórum þverrandi í öðru, en fólkið fylgir þeim eftir og flytur sig búferlum á milli verstöðvanna, eftir því sem bezt blæs. Ég hygg, að þetta geti komið sér vel fyrir fólkið og þjóðfélagið í heild á þessum vandræðatímum.

Hvort sem litið er á þetta mál frá sjónarmiði einstakra sveitarfélaga eða atvinnulausa fólksins í landinu, þá tel ég ekki annað sæma en að Alþingi felli þessa þáltill. nú þegar. Hér er um svo mikið alvörumál að ræða.