11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (1423)

190. mál, byggðarleyfi

Flm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Ég vil út af andmælum hv. 2. þm. Reykv. benda honum á, að auk þess, sem áður hafa komið fram á Alþingi till. og frv. um þetta efni, þá hefir sú hugsun, sem hér er áformað að verði lögfest, verið framkvæmd án lagalegrar heimildar frá Alþingi í sumum kaupstöðum hér á landi. Það er kunnugt, að í blöðunum hafa verið birtar auglýsingar fyrir hönd bæjarfélags Reykjavíkur, sem báðir aðalflokkarnir, Sjálfst.fl. og Alþfl., hafa staðið að, þar sem skorað hefir verið á atvinnurekendur í bænum að taka ekki utanbæjarmenn í atvinnu og láta þá, sem eru búsettir í bænum, sitja fyrir vinnunni. Þannig hafa þessir aðilar tekið í sínar hendur það vald, sem löggjafarvaldið gat veitt þeim. Þetta sýnir fullkomlega, hvernig þeir hafa litið á málið og spyrnt á móti því, að haldið yrði opnum leiðum í bænum til atvinnuleitar fyrir þá, sem enga atvinnu gátu fengið annarsstaðar. Afleiðingin hlaut að verða sú, að nokkur hluti af verkafólkinu gat ekkert fengið að gera, þar sem atvinnan var af skornum skammti. Samkv. óskum þeim, sem ég ber hér fram fyrir hönd Ytri Akraneshrepps, er ekki farið fram á annað en það, sem þegar hefir verið framkvæmt í Reykjavík og Hafnarfirði, þar sem bæjarfélögin í sambandi við atvinnurekendur og verkamenn hafa komið sér saman um að sporna á móti innflutningi fólks til kaupstaðanna í atvinnuleit. Ég hefi einnig séð auglýsingar í blöðunum um samskonar aðvaranir frá Vestmannaeyjum, og sýna þær og sanna, að þörfin fyrir þessar takmarkanir er alveg sú sama í kaupstöðunum og í ýmsum sveitarfélögum, og að krafa Ytri-Akraneshrepps um að löggjafarvaldið veiti heimild til að beita þessum takmörkunum, er alveg réttmæt. Það liggur hverjum manni í augum uppi, hver voði það er fyrir þjóðfélagið, þegar fjöldi fólks safnast saman á einn eða fáa staði í von um atvinnu, en verður svo fyrir algerðum vonbrigðum og getur enga atvinnu fengið. Það verður bæði til hnekkis þeim, sem að komu, og hinum, sem fyrir voru á staðnum. Atvinnan verður þeim ófullnægjandi vegna of mikils aðstreymis manna í atvinnuleit. Þess vegna verður að fyrirbyggja þessa hættu, sem einstökum sveitarfélögum stafar af fólksstraumnum, og landinu í heild. Ég held, að andmælendur þessarar þáltill. hafi ekki athugað þetta. Það er ekkert í núverandi löggjöf, sem hindrar það, að fólkið þjappist fyrirvaralaust saman á einstökum stöðum, en hinsvegar sýna þær framkvæmdir, sem bæjarstjórnir kaupstaðanna hafa gripið til, að hér verður að hafa hönd í bagga, eins og ástandið er nú í landinu. Það eru ekki samtök atvinnurekanda, sem standa þar á bak við, heldur hagsmunir bæjar- og sveitarfélaganna sjálfra. Með þessari þáltill. er því ekki verið að stofna til þjóðarvoða, heldur þvert á móti. Þó að ég hafi minnzt á þær till., sem fram hafa komið á undanförnum þingum um þetta efni, þá felst hvorki í því né þessari till., sem fyrir liggur, nein ábending til stj. um það, hvernig hún eigi að koma þessum málum fyrir. Hún á að hafa alveg óbundnar hendur um það. Ég geri ráð fyrir, að hún athugi gaumgæfilega, hvernig þessu verður bezt fyrir komið, og setji þær skorður við heimildarákvæðum handa sveitar- og bæjarstjórnum um þessi efni, sem tryggi það, að þau verði ekki misnotuð. Það er vitanlega jafnsjálfsagt eins og hitt, að Alþingi daufheyrist ekki við því, að takmarkanir verði settar fyrir aðstreymi fólks til einstakra sveitarfélaga og kaupstaða.

Ég vænti, að hv. þdm. geti fallizt á, að þetta verði gert, og að stj. taki málið til athugunar og leggi tillögur um það fyrir næsta Alþingi. Þær yrðu svo vitanlega háðar gagnrýni þingsins eins og allt annað, sem þar er borið fram. Þá mun gefast tækifæri til þess að ræða hinar ýmsu hliðar þessa máls, þegar það liggur fyrir í frv.formi.

Ég skal geta þess út af því, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv., að fulltrúi jafnaðarmanna í hreppsnefnd Ytri-Akraneshrepps hefir litið öðruvísi á þetta mál en hv. þm. Honum er nauðsyn þessa máls jafnljós eins og mönnum úr öðrum stjórnmálaflokkum, sem hreppsnefndina skipa.