11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (1424)

190. mál, byggðarleyfi

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil benda hv. þm. Borgf. á, að það er ekki rétt, að bæjarstj. Rvíkur hafi skorað á atvinnurekendur að taka ekki utanbæjarmenn í vinnu, heldur var farið fram á, að bæjarmenn væru látnir ganga fyrir, og er það allt annað. Er og mikill munur á þessu og hinu, að vilja, að maður, sem flytur í bæinn, þurfi til þess sérstakt leyfi frá hlutaðeigandi sveitarstjórn. Ef sveitarstjórnir eiga að ákveða þetta, er hætt við, að litið verði á fleira en það, hvort maðurinn getur bjargað sér í bænum eða ekki, t. d. hvaða stjórnmálaskoðanir hann hefir. Hér er verið að gefa sveitarstjórnum þann rétt yfir mönnum, sem ekki nær nokkurri átt. Ef sveitarstjórnir ættu að geta varnað mönnum að setjast að í hlutaðeigandi byggðarlagi, myndi það þýða sama og að mönnum væri bannað að vinna annarsstaðar en þar, sem þeir ættu heima. Tökum dæmi af togaraflotanum. Ætli hv. þm. Borgf. þætti ekki hart, ef sjómenn af Akranesi kæmu til hans og segðu honum, að þeir hefðu af hans völdum verið reknir af togaraflotanum í Reykjavík?

Innan verkalýðsfélaganna hefir það komið fyrir, að menn hafa viljað koma þessu fyrir á svipaðan hátt og hv. þm. Borgf. En slíkt er ekki heppilegt. Myndu þá fljótlega koma fram kröfur frá öðrum byggðarlögum um að beita menn þar því sama. Með því væri farið að skapa sjálfstæð atvinnuríki hér á landi. Þessi till. hv. þm. Borgf. á ekki skilið að verða samþ. Það er ekki nóg að tala um það, að of mikið innstreymi sé í bæinn, því að það vita allir. En það verður að benda á aðrar leiðir til þess að bæta úr vandræðunum, sem af því stafa, heldur en að halda hverjum í svelti þar sem hann einu sinni hefir átt heimili.