11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (1427)

190. mál, byggðarleyfi

Bernharð Stefánsson:

Hv. 2. þm. Rang. talaði um það, að ef þessi till. næði fram að ganga, yrði ólifandi í þessu landi. Býst ég þó ekki við, að þetta myndi ná til þeirrar stéttar, sem hann telst til. Myndi eflaust verða leyft, að prestar flyttust milli brauða. En ég get þó að nokkru leyti tekið mér hans orð í munn, því í sumum sveitum er ólifandi, ekki vegna neinna þeirra hafta, sem till. fjallar um, heldur sökum sveitarþyngsla. Nú er svo komið, að nær ólifandi er í sumum sveitarfélögum vegna skattþyngsla. Er það óþolandi, að sveitarfélög skuli vera skyldug til að ala önn fyrir mönnum, sem hafa verið þar ein 2 ár, en mega þó ekki hafa nokkurn ákvörðunarrétt um það, hverjir megi flytja þangað. Má búast við því, að sumum kunni að þykja ákvæði þessarar till. nokkuð hörð, en þau miða í þá átt, að sveitarfélög fái ákvörðunarrétt um þetta. En einstök sveitarfélög verða þó að geta fundið einhver ráð til að verjast gjaldþroti. Ég minnist á þetta hér af því, að ég er víst sá fyrsti, sem hefi borið þetta mál fram á Alþingi. Þó vil ég fúslega játa, að það kunna að vera til aðrar ráðstafanir af löggjafarvaldsins hálfu til að bæta úr þessu en þær, sem þessi till. fer fram á, ráðstafanir, sem yrðu vinsælli en þessi, því að ekki er hægt að neita því, að með þessu er gengið nærri persónufrelsi manna. Ætti mönnum að fara að verða það ljóst, að það er ekki heppileg leið til frambúðar að leggja fátækraframfærsluna á einstök sveitarfélög, heldur er það alþjóðarmál. Er ég sannfærður um, að krafan um einhverskonar byggðarleyfi verður uppi meðan svo er, að fæðingarhreppur á að nokkru leyti að ráða því, hvar maður á sveitarframfærslu. Ráðið er ekki að segja, eins og hv. 2. þm. Rang., að ólíft verði í landinu, ef þessi till. verður samþ., heldur verður að finna einhverja leið til úrlausnar. Ég mun, eins og nú stendur á, greiða þessari till. atkv. mitt, en ég viðurkenni um leið, að ef fátækral. væru komin í réttlátt horf, þá gerðist þess ekki þörf.

Hv. þm. Borgf. ber nú þetta mál fram af atvinnulegum ástæðum, en ekki vegna fátækramálanna. En ég lít á þetta fyrst og fremst í sambandi við fátækral. landsins. Held ég, að því hafi ekki verið nægur gaumur gefinn hingað til, hvað lagt er á sum sveitarfélög þessa lands í fátækraframfærslu. Þegar fólk, sem ekki getur séð fyrir sér sjálft, leitar í eitthvert sveitarfélag meira en eðlilegt er, þá verður það óþolandi byrði. Held ég, að það verði ekki nema þarfleg vakning fyrir landsstj., ef till. verður samþ.