29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (1434)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson) [óyfirl.]:

Eins og hv. dm. sjá, er farið fram á það í þessari till., að Alþ. heimili ríkisstj. að taka á leigu yfir næsta síldveiðitímabil síldarbræðslustöð dr. Pauls á Siglufirði, ef samkomulag næst við eigendur hennar um leiguskilmála, og að starfrækja verksmiðjuna í sambandi við síldarbræðslustöð ríkisins. Í grg. till. er lítillega minnzt á þörfina, sem fyrir þessu er. Það hefir oft verið svo á síðustu árum, að erfitt hefir verið að koma síld í bræðslu, af því hve aflann hefir borið ört að. Sérstaklega munu hafa verið brögð að þessu síðastl. sumar, enda var sú stöð, sem hér nm ræðir, ekki starfrækt þá, aðallega vegna þess, að hana vantaði geymi fyrir síldarolíu, en það er nú talið nauðsynlegt, því að gamla aðferðin, að geyma síldarolíuna í tunnum, er miklu dýrari. Þessi verksmiðja hefir geymsluþrær fyrir rösklega 12000 mál og getur brætt 1200 mál á sólarhring. Ég hefi heyrt það af manni, sem er þaulkunnugur verksmiðjunni, að vélar allar séu þar af beztu gerð og mjög fullkomnar, og að verksmiðjan hafi keypt 80-100 þús. mál á sumri, þegar hún hefir verið starfrækt. En svo vel vill til, að síldarbræðslustöð dr. Pauls og síldarbræðslustöð ríkisins liggja hlið við hlið, og liggur olíugeymir síldarbræðslu ríkisins á milli verksmiðjanna. Ég hefi átt tal við forstjóra ríkisverksmiðjunnar, og telur hann, að kostnaður við að leggja leiðslur frá verksmiðju dr. Pauls í þennan geymi muni verða mjög lítill. Hann er því mjög fylgjandi, að till. þessi nái fram að ganga. T. d. telur hann það afarmikinn kost, að þessar tvær verksmiðjur geta unnið í sameiningu og afgr. skip til skiptis, eftir því sem hentast þætti. — Ekki mun það valda neinum erfiðleikum að fá fljótlega leigutilboð um þennan stað, þar sem umboðsmaður verksmiðjunnar er hér í Reykjavík; það mun vera Bernharð Petersen. — Gera má ráð fyrir, að eitthvað þurfi að bæta upp á verksmiðjuna, þar sem hún var ekki starfrækt síðastl. sumar, en stj. væri alveg trúandi fyrir því að sjá um, að verksmiðjan yrði leigð í leigufæru standi. Till. þessari eru ætlaðar 2 umr. Ég vil því leyfa mér að stinga upp á, að henni verði vísað til síðari umr. og sjútvn. að þessari umr. lokinni.