29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (1438)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég geri ráð fyrir því, að þessi till. verði athuguð í n., og vildi ég óska eftir því, að hv. n. talaði við landssímastjóra um þetta mál. Hann er kunnugur vélunum þarna og auk þess í stjórn síldarbræðslu ríkisins. Tel ég víst, að hv. n. geti fengið ýmsar gagnlegar upplýsingar hjá honum.

Hv. flm. sagði, að alltaf væri hægt að fá skip til þess að taka olíuna. Þetta tel ég vafasamt, og það er ennfremur mjög vont að vita það fyrirfram, hvenær skipið skuli fengið. Þó er þetta atriði ekki svo mjög fráfælandi. Það er alveg rétt, að síldarbræðsla dr. Pauls liggur mjög vel til sameiginlegs rekstrar við síldarbræðslu ríkisins. En hægt er að taka tillit til aðstöðunnar yfirleitt, ef samið væri við aðra. Það er einnig rétt, að rekstrarkostnaður yrði vafalaust minni, ef þessi verksmiðja yrði leigð, en ef tekin væri verksmiðja á öðrum stað. Samt álít ég, að rétt sé að tiltaka ekki þessa ákveðnu verksmiðju í till., því að það gefur stj. frjálsari hendur um samninga.

En eftir því sem fagmenn segja, þá er sérstök þörf á því að athuga, hvort til séu varahlutir í vélar verksmiðjunnar. Ef slíkir varahlutir eru ekki til á staðnum getur tekið langan tíma að ná í þá, og varaði framkvæmdarstjóri ríkisbræðslunnar sérstaklega við þessu atriði, af því að hann hélt, að varahlutir í vélarnar í verksmiðju dr. Pauls mundu ekki vera fyrir hendi.