19.04.1933
Efri deild: 51. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (1444)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Jón Baldvinsson:

Hæstv. dómsmrh. var að hælast um yfir samþykkt norsku samninganna. En mér finnst hann gera það fullsnemma, meðan hann hefir ekki ennþá séð árangurinn af þeim, sem stendur til að geti orðið eftir orðanna hljóðan í þessum samningum.

Það er hverjum einum skylt að klóra í bakkann og reyna að bjarga því, sem hægt er, þrátt fyrir mjög ósæmilega samninga stj. um hlunnindi Norðmanna hér við land. Hv. þm. er skylt að reyna að bjarga því, sem hægt er, m. a. að reyna að bjarga íslenzkum síldveiðum, sem ef til vill er hægt að einhverju með þessu, vegna þess að síldarbræðslustöð ríkisins hefir ekki getað tekið á móti allri þeirri síld, sem til hennar hefir borizt. Þetta er tilraun, þó að það sé vitanlegt, að fá síldveiðiskip muni fara á síldveiðar með það eitt fyrir augum að veiða í bræðslu. Það játa síldarútgerðarmenn, að því aðeins sé von á því, að síldveiðin beri sig, að hægt sé að selja eitthvað af veiðinni til söltunar með hærra verði en hægt er að fá fyrir hana í bræðslu. Það hefir verið á 7 til 8 kr. og upp í 10 kr. málið til söltunar, en ekki nema 3 kr. í bræðslu á síðastl. ári. Þetta er svo gífurlegur munur, að það þarf ekki að salta mikinn hluta af síldinni til þess að fá hagnað af veiðinni, ef vel gengur. En eins og nú standa sakir lítur út fyrir, að auknar síldveiðar hér við land frá Norðmanna hálfu muni ef til vill draga úr síldarsöltun. Til þess er stofnað með norsku samningunum.

En ég vil segja það í sambandi við þessa þáltill., að ég er með í höndunum frv. um heimild handa ríkisstj. til þess að taka síldarbræðslustöð á leigu, einmitt þá bræðslustöð, sem um ræðir í þáltill. Ég þykist vera sannfærður um það, að aðstaða stj. mundi verða sterkari, ef þetta væri samþ. í frv.formi og jafnframt gefin heimild fyrir ríkisstj. að taka afnotaréttinn eignarnámi, ef ekki verður samkomulag um leigu. En helzt af öllu ætti að kaupa verksmiðjuna, þótt ekki sé það formað í frv. mínu ennþá. Þess vegna ber ég fram frv. í dag um þetta tvennt. Fyrst að heimila stj. að taka þessa stöð á leigu, og í öðru lagi, ef ekki takast samningar, að hún geti tekið afnotaréttinn eignarnámi, því að ég skal ekki segja, hvernig ríkisstj. gengur að semja við dr. Paul um leigu á verksmiðjunni. Ég veit ekki nema Þjóðverjar vilji gjarnan nota verksmiðjuna sér til handa. Það er ekkert efamál, að þeir gætu fengið samskonar hlunnindi og Norðmenn til þess að reka hér síldarverksmiðjur. Ég þykist viss um það, að ef þeir fara fram á það, þá mundu þeir geta notað sér það eftir norska samningnum. Svo að hvert sem litið er, koma í ljós óheillavænlegar afleiðingar af þessum samningum, svo að hæstv. dómsmrh. ætti ekki að vera að hælast um yfir því að hafa komið þessu skaðsemdarmáli í gegn, við okkur, sem erum að reyna að draga úr þeirri hættu, sem af þeim stafar.