19.04.1933
Efri deild: 51. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (1445)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Ég vil þakka hv. n. fyrir góðar undirtektir í þessu máli. Hún hefir fullan skilning á því, að full þörf sé að hjálpa þessum atvinnuvegi, þegar þar að kemur, og ég vona, að hæstv. dómsmrh. hafi ekki bitið sig svo fast í þessa norsku samninga eða kjöttollsmálið, að hann sé farinn að fá óvild til síldarútvegsins. (Dómsmrh.: Óvild?) Já. Ég er ekki í vafa um það, að hæstv. ráðh. gerir hvað sem hann getur til þess að hjálpa síldarútgerðinni. En það á ekki eingöngu að líta á það í þessu tilfelli, hvað það kostar ríkissjóðinn í bili að reka þessa verksmiðju, heldur á einnig að taka tillit til þess, hvað landsbúum kemur vel og hvað þeir geta með auknum sköttum og ýmsum öðrum gjöldum greitt í ríkissjóðinn, ef útvegurinn blómgast frekar fyrir þetta. Þetta atriði verður líka að taka til greina, þegar farið er að semja um þessa leigu.

En þessi þáltill., og eins þrátt fyrir þessar breyt. frá n., verður aldrei nema heimild, og setti ég það í vald ríkisstj. meðfram með það fyrir augum, að hún gæti komizt að sem hagfelldustum samningum við það félag, sem hún þyrfti að semja við. Þess vegna skil ég ekki, hver grýla þessi þáltill. hefir verið í augum hæstv. dómsmrh. frá því fyrsta.

Ég þarf ekki að taka það fram, að þrátt fyrir það, að norsku samningarnir voru samþ., þá búast þeir, sem samþykktu þá, og eins þeir, sem voru á móti þeim, við því og vænta þess, þrátt fyrir allt, að það setji ekki síldarútveginn eða atvinnu landsmanna í kaldakol. En hitt er annað mál, að ef ekkert er reynt til þess að hjálpa upp á síldarútveginn, þá er stefnt í þá átt. Ég vona þess vegna, fyrir þessa góðu áheyrn, sem þessi till. mín fékk hjá hv. n., að það verði einnig í framkvæmdinni hjá hæstv. ríkisstjórn.