19.04.1933
Efri deild: 51. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (1447)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég þarf ekki að segja nema örfá orð, því að það, sem ég sagði viðvíkjandi hv. 2. landsk. og hv. þm. Hafnf., var fyrir það eitt, að þeir höfðu verið allsterkorðir um norsku samningana, og mér fannst þeir liggja svo vel við höggi. Þeir töldu síldarútgerðina eyðilagða, þegar rætt var um samningana, og ég vildi aðeins minna þá á þetta; þar með var mínu áformi fullnægt, og skal ég ekki fara frekar út í það.

Það er gefinn hlutur, að ef þessi till. verður samþ., þá er stj. skylt að fara eftir henni, ef fært er, en það má ekki gleyma því, að mikil áhætta fylgir þessum rekstri, því að þótt ekki liti illa út í fyrstu, þegar síldveiði byrjar, þá getur það alltaf breytzt, en því verður þingið að vera við búið, að tap geti af hlotizt. En ef fyrirsjáanlegt er tap á þessu, þá býst ég við, að stj. hiki við að leggja út í þetta fyrirtæki, en nú bendir ekkert til þess, og þess vegna býst ég við, að verksmiðjan verði tekin á leigu, svo framarlega sem um leiguna geta tekizt sæmilegir samningar. Það var fjarstæða hjá hv. þm. Hafnf., að þessi þáltill. væri grýla í mínum augum, en það, að þessu er samfara talsverð áhætta á tímum eins og þessum, gefur tilefni til þess að athuga rækilega, út í hvað mikla áhættu maður getur lagt.

Það er svo í gildandi lögum um rekstur síldarbræðslustöðvarinnar á Siglufirði, að gert er ráð fyrir því, að síldareigendur fái ákveðinn hluta útborgaðan af því, sem inn kemur fyrir síldina, eftir að frá eru dregin gjöld til ýmissa sjóða. Þetta fyrirkomulag verður ekki hægt að hafa í framtíðinni, og það varð að hverfa frá því á síðastl. sumri, af því að sjómenn og útgerðarmenn kváðust ekki geta beðið eftir peningunum. Verður því að kaupa síldina föstu verði, ella verður óánægja og lítil eða engin útgerð. Það er að vísu nokkur áhætta, sem þessu er samfara, en hún er nokkur hvort sem er.