08.05.1933
Efri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (1449)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Frsm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Það hefir staðið nokkuð á því, að n. skilaði þessari till. frá sér aftur. Eins og menn muna, bar hv. 2. landsk. fram frv. þess efnis, að heimila ríkisstj. að taka eignarnámi afnotarétt á síldarbræðslustöð dr. Pauls. Nú hefir sjútvn. fengið vitneskju um það, að þessi síldarbræðslustöð dr.

Pauls muni fást keypt fyrir skaplegt verð eða tækifærisverð. Telur því n. rétt að gefa stj. heimild til að kaupa stöðina, ef slíks er kostur með hagkvæmum kjörum, eins og n. hefir fregnað, að nú sé.

Sjútvn. virðist, að ef stöðin fæst keypt og verður rekin í sambandi við síldarverksmiðju ríkisins, þá muni útkoma ríkisbræðslunnar geta orðið betri, vegna minni stofnkostnaðar, ef stöðin verður keypt ódýrt, samanborið við afköst verksmiðjanna. N. var sammála um að veita stj. þessa heimild, í trausti þess þó, að henni takist að komast að hagkvæmum kaupum og gangi eigi að öðru en því, sem hún telur hagkvæmt.

Viðvíkjandi frv. hv. 2. landsk. get ég sagt, að n. sá ekki, að ráðlegt væri að samþ. það. Hún taldi, að ef til þess kæmi að semja um leigu á síldarbræðslustöðinni, þá væri ekki líklegt, að lakari leigukjör fengjust með frjálsum samningi heldur en ef eignarnámi á afnotum stöðvarinnar væri beitt. Og eins og nú horfir, þá er ekki líklegt, að um leigu þurfi að tala, því n. gerir ráð fyrir því, að samningar um kaup á stöðinni takist.