03.03.1933
Neðri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2891 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Héðinn Valdimarsson:

Ég ætla ekki að fara langt út í efni þessa máls nú, en vil aðeins benda hv. þm. G.-K. á það, að mér hefir nýskeð verið boðið upp á verzlun af bróður hans, þar sem boðið var í sannfæringu mína í sérstöku máli, og bendir það til þess, að þeir Thorsbræður séu vanir slíkum viðskiptum við einn og annan. Ég hefi aldrei sagt, að norska stjórnin hafi gert þau kaup við hv. þm. G.-K., er hann minntist á síðast í ræðu sinni; það gátu aðrir aðilar gert, sem hafa hagsmuni af þessum samningum í Noregi.

Þegar samningamennirnir, Jón Árnason og Ólafur Thors, gerðu grein fyrir samningunum á fundi utanríkismálan., þá var ekki gengið til atkv. um þá. En ég var eini maðurinn á fundinum, sem hreyfði andmælum gegn samningunum og áskildi mér fullan rétt til mótmæla síðar. Ritaði ég þegar aths. mínar á eitt eintak af samningunum, sem nú er geymt hjá sambandsstjórn Alþfl. Síðar mun hafa verið haldinn einn fundur í utanríkismálan., sem ég var ekki á, og hefi ég ekki veitt því athygli í fundabókinni, hvort þá hafi farið fram atkvgr. um norsku samningana. En við fyrsta tækifæri, sem mér gefst kostur á, lýsti ég yfir mótmælum gegn samningunum. Það er náttúrlega ómögulegt að binda hendur Alþfl. um að skýra ekki frá málavöxtum í svo viðsjárverðu máli, þó að aðrir menn, honum óviðkomandi, hafi lofað að þegja um þá. Hvað sem hv. þm. G.-K. segir um það, þá gat stj. ekki bundið nokkurn þagnarheiti um þetta mál, og því síður samningamennirnir. Það er nú öllum ljóst, þó að J. Á. og ÓTh. segi, að Norðmenn hafi óskað eftir, að samningunum væri haldið leyndum, þá kom beiðnin um það ekki frá Norðmönnum, heldur frá ÓTh. Það var hann, sem vildi leyna þeim sem lengst og fela fyrir löndum sínum, hversu illa hann stóð sig í samningum fyrir sjávarútveginn. Enda hygg ég, að það komi í ljós, að þjóðin stendur ekki á bak við hann í þessu máli.