02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

66. mál, lögreglumenn

Jón Baldvinsson:

Það er auðséð, að stjórninni tókst illa með þetta frv. í upphafi, því það hefir ekki farið svo gegnum neina umr. í þinginu, að því hafi ekki verið eitthvað breytt. (Dómsmrh.: Jú, l. umr. í báðum deildum). Ekki þær umr., sem venja er að breyta frumvörpum; það sýnir, að illa hefir verið gengið frá frv. í upphafi, og ég ímynda mér, að það þurfi að ganga gegnum einhvern hreinsunareld til þess að það verði hæfilegt. Náttúrlega er mikið dregið úr frv. eins og það var upphaflega, þar sem ríkisstj. var gefin heimild til að skipa ótakmarkaða lögreglu, og einkum eftir að Ed. samþ. brtt. hv. 1. landsk. um borgaralega skyldu til þess að fara í lögregluna.

Hv. Nd. hefir nú sniðið verstu vankantana af frv. þó það sé vitanlega alveg óhæft enn. Það er meinlaust, þó samþ. væri heimildin í 1. gr. til bæjarstjórna um að auka lögreglu bæjanna, því það er sennilegt, að sú heimild sé víða til í reglugerðum, en eins og þessu er fyrir komið í frv., hlýtur að lenda í deilum milli bæjarstjórna og ríkisstj. ef hún skipar bæjarfélögunum að kosta svo eða svo mikla lögreglu þvert á móti vilja sínum. Fyrirkomulagið hefði átt að vera þannig, að bæirnir fengju að ráða fjölda lögreglunnar. Bæirnir vita sjálfir bezt, hvað þörfinni líður innan sinna vébanda, þeir eiga ekki að þurfa að dansa eftir skipunum frá hlutdrægri ríkisstj., sem ætlar að nota lögregluna jafnvel til að verja vald sitt eða taka sér vald eða hindra löglega valdatöku.

Í 5. gr. eru mjög skaðleg ákvæði um það, að skipshafnir varðskipanna teljist til lögreglunnar. Nú er það vitanlegt, að þetta frv. fjallar allt um, eins og hæstv. dómsmrh. mundi orða það, að halda uppi lögum og friði í landinu, en sem í rauninni þýðir að framfylgja vilja dómsmrh. á hverjum tíma. Þessir menn eiga að starfa á landi, og þegar þeir verða allir heimtaðir í land, þá er það enginn smáræðisfjöldi, sem bætist við ríkislögregluna. En það versta er, að vel getur verið, að þetta gangi út yfir strandgæzluna. Það getur vel verið, að dómsmrh., ef honum býður svo við að horfa, skikki varðskipin til að liggja hér á höfninni langa tíma, þó ekkert sé um að vera og afsaki sig með því, að hann búist við einhverju. Þá getur það komið sér vel fyrir þá, sem kannske standa ekki fjarri stjórninni, að landhelgisgæzlan sé felld niður. Ég þekki það, hvað hæstv. dómsmrh. segir um skipshafnir varðskipanna, hann segir, að þeir séu lögreglumenn, sem vinni á sjó, en eftir frv. er þeim ætlað að vinna á landi, og þá eru þeir algerlega fluttir út fyrir starfssvið sitt. Hæstv. dómsmrh. hefir því engin frambærileg rök fyrir þessu ákvæði, og ég er að spara honum að flytja aftur þær rökfærslur um þessi ákvæði, sem ég heyrði hann flytja í hv. Nd. í gær, með því að svara þeim eins og ég hefi nú gert.

Ég ætla að afhenda hæstv. forseta brtt. við 3. málsgr. 5. gr. um það, að núverandi starfsmenn varðskipanna séu ekki skyldugir til að ganga undir þau ákvæði að verða lögreglumenn fremur en tollverðirnir. Ég veit, að það er gegn vilja meiri hl. skipshafna varðskipanna, þau ákvæði, er knýja þessa menn í ríkislögregluna, og ef þeir vildu svo ekki hlíta þessum ákvæðum þegar þau væru orðin að lögum, þá er auðvitað, hvert svarið verður, og það er, að þeir megi gera svo vel og taka poka sinn og fara í land. Það verður svar ráðh. Þess vegna vil ég, að frv. veiti undanþágu frá lögreglustarfinu þeim mönnum á varðskipunum, sem ekki vilja taka þátt í starfinu. M. ö. o., ég vil að af skipsmönnum varðskipanna og tollvörðum verði ekki teknir í lögregluna aðrir en sjálfboðaliðar.

Þá er náttúrlega 6. gr. gersamlega óhæf líka, það að gefa ráðh. vald til að auka lögregluliðið óbundið að öðru en því, er snertir fjárframlag úr ríkissjóði. Ég álít því, að 6. gr. eigi að falla alveg niður og mun flytja brtt. um það.

Ég vænti svo, að hv. d. taki vel þessum brtt. mínum og fylgi stefnu hv. Nd. með því að halda áfram að taka út úr frv. ýmsar mestu fjarstæðurnar. Í hv. Nd. var tekið út það ákvæði, að lögreglan ætti að skipta sér af vinnudeilum og ýmislegt fleira, m. a. ákvæðið um borgaralega skyldu til þess að gegna lögreglustörfum. Þó hæstv. ráðh. telji þetta ekki mikilvægar breyt., þá tel ég, að hann hafi beðið stóran ósigur í þessu máli. Ég legg svo till. mína í hendur hæstv. forseta og vænti að hann fái fyrir hana afbrigði, svo hún komist til atkv.