03.03.1933
Neðri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2892 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Mér skildist hv. 2. þm. Reykv. álíta, að þó að ríkisstj. hefði gefið þagnarheit um samningana, þá væri hann ekkert við það bundinn. Hv. þm. veit, að þetta eru griðrof og svik gagnvart hinum samningsaðilanum. Þá fullyrti hv. þm., að ég og Jón Árnason hefðum óskað eftir þagnarskyldu um samningana. Hvaðan hefir hv. þm. vitneskju um slíkt? (HV: Ég veit það). Ég skora á hann að segja, hvaðan hann veit það og hvernig. (HV: Ég veit, að þm. G.-K. óskaði eftir því). Þetta er auðvitað tilhæfulaust. Eins og sést á samningsskjölunum, þá komu fram frá báðum samningsaðilum fullgildar ástæður fyrir því að halda samningunum leyndum fyrst um sinn, og hv. þm. veit, hverjar þær voru. Ég mun síðar gera öllum þm. grein fyrir þeim. Þær voru á engan hátt sprottnar af eiginhagsmunahvötum samningsaðila, heldur átti að sporna við því, að vitneskja um samningsatriðin gætu skaðað okkar þjóð út á við, í samningum við aðrar þjóðir.

Ég skal ekkert blanda mér í það, sem farið hefir á milli hv. þm. og eins af framkv.stj. Kveldúlfs í blaðadeilum nýlega, enda þótt hv. þm. hafi hlotið af því mikla mæðu. Tveir af bræðrum mínum höfðu verið dæmdir í undirrétti til að greiða lítilfjörlega sekt fyrir brot á lögum um vog og mæliker, og ég get vel skilið, að hv. 2. þm. Reykv. og flokksbræður hans séu mæddir yfir því, hvað lítið hefir orðið úr því máli.