15.05.1933
Efri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (1501)

193. mál, fóðurrannsóknir

Flm. (Jón Jónsson):

Eins og menn muna hefir Alþingi áður haft til meðferðar frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að banna innflutning á útlendu kjarnfóðri. Aðalgreinin var þá felld, en frv. fór hinsvegar ekki fram á, að rannsókn yrði hafin á innlendum fóðurbætiefnum. Þá þótti ekki ástæða til þess að halda áfram með frv., því að þau ákvæði, sem eftir stóðu, er að finna í lögum frá 1929 um rannsóknir í þarfir atvinnuveganna. En af því að þetta mál er svo mikilvægt og brýn þörf á rannsóknum á því sviði, þá hefi ég leyft mér að flytja þessa þáltill. Ég hefi borið málið undir okkar helzta vísindamann á þessu sviði, prófessor Níels Dungal, og hann hefir og aðstoðað mig við samning till. Ég vænti þess, að hv. dm. sé það ljóst, hve miklu máli það skiptir fyrir þjóðina, að þetta mál sé rannsakað, því að oft vill vera svo, að of miklu er kostað til skepnufóðurs, vegna ófullkominnar blöndunar næringarefna. Erlendis hafa farið fram ýtarlegar rannsóknir á þessu sviði, til þess að gera bændum fært að fá sem mestar afurðir gegn sem minnstum tilkostnaði. En hér eru alveg sérstakar kringumstæður, og fólkið þar að auki ókunnugt rannsóknum þessum, sem gerðar hafa verið erlendis, og því útilokað, að menn geti fært sér þær í nyt. Meiningin með tillögu minni er að ýta undir ríkisstjórnina til að hefjast handa við þessar nauðsynlegu rannsóknir, og verði almenningi svo gert kleift að hagnýta sér árangurinn af þeim. Ég býst við, að hagurinn af þessu verði metinn í tugum þúsunda. Ég vona því, að hv. deild hleypi till. í gegn til síðari umr. og loks áleiðis til ríkisstjórnarinnar. Já, ef þess er óskað, að málið bíði og fari í nefnd, þá lætur víst næst að það fari til landbn.