03.06.1933
Neðri deild: 94. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

7. mál, gengisviðauka og tekju- og eignarskattsauka

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. deild mun kunnugt um þau tíðindi, er voru að gerast í hv. Ed. og eru tilefni þess, að brtt. á þskj. 954 er fram komin. Sú breyt. er þar gerð á gildandi lögum um gengisviðauka, að tekinn er upp 25% gengisviðauki á kaffi og sykurtoll, toll á áfengi og gosdrykkjum og ýmsum vörutegundum öðrum, sem taldar eru upp í brtt.

Þessi breyt. er óhjákvæmileg, þar sem hækkun tekju- og eignarskattsins hefir nú verið felld í Ed. Þá hefir stj. og borið fram brtt. um, að innheimta megi aukreitis tekju- og eignarskatt fyrir árið 1932, sem nemur 40% af skattinum það ár, en þó eigi minna en 5 kr. hjá gjaldanda. Vegna þeirra undirtekta, sem frv. um hækkun skattsins fékk í Ed., hefir stj. ekki treyst sér til að fara hærra en þetta. En þessi hækkun ásamt gengisviðaukanum á tollvörur ætti að geta gefið jafnt í ríkissjóð og fengizt hefði með hækkun tekju- og eignarskatts eftir frv. Vænti ég þess, að þetta mál fái svo fljóta afgreiðslu, að ekki þurfi að fresta þinglausnum fram yfir hátíðina.