10.05.1933
Neðri deild: 70. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (1551)

189. mál, brúargerð á Múlakvísl

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Með frv. því, sem liggur fyrir þessari hv. deild um heimild til lántöku til vega- og brúargerða, er aðeins átt við lántöku innanlands, sem boðið er fram af hlutaðeigandi héruðum. En í þessari till. er farið fram á heimild handa ríkisstj. til að taka lán erlendis, allt að 120 þús., til þess að gera brú á Múlakvísl í Skaftafellssýslu og til nauðsynlegra vegagerða að brúnni. Lán þetta er hægt að fá nú þegar með 6% vöxtum og til 12 ára, nokkuð lengri tíma en gert er ráð fyrir í frv., sem ég nefndi áðan. Þetta lán er affallalaust og afborganalaust fyrstu þrjú árin.

Með því að ástæða þykir til að nota þá möguleika, sem hægt er, til atvinnubóta og samgöngubóta á þessum tímum, þá hefir stj. óskað þess, að hún fengi þessa heimild. Hér er um að ræða samgöngubót í héraði, sem lengi hefir farið á mis við samgöngubætur og nú fyrst er verið að reyna að bæta úr. Þarna eru fjölmargar ár og torfærur, sem sanngirni er að gera yfirfærilegri svo fljótt sem auðið er, og hér er um að ræða möguleika til þess.

Vil ég leyfa mér að leggja til, að till. verði samþ.