18.05.1933
Neðri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2896 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er náttúrlega hægt fyrir annan eins hrotta og hv. 2. þm. Reykv. að bera mönnum á brýn „svindl“. Hann veit, að þessir reikningar verða lagðir fyrir yfirskoðunarmenn landsreikningsins á sínum tíma, og strax og hann vill gefa þessa yfirlýsingu skal hann fá að sjá þessi skjöl. Fyrr fær hann þau ekki hjá mér.

En það er ekki rétt, að þetta séu fylgiskjöl með landsreikningnum ennþá. Þegar þar að kemur, getur hv. þm. fengið að sjá þau, þegar hann vill. En þá er það máske orðið of seint fyrir hann til þess að koma fram sínum ásetningi.