16.03.1933
Efri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

55. mál, lán úr Bjargráðasjóði

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. hefir eins og hið næsta á undan á dagskránni (frv. um laun embættismanna) verið fyrir Nd. og var samþ. þar breytingalaust. Það er flutt af okkur báðum þm. Skagf. eftir beiðni búnaðarsambands Skagafjarðar. Frv. gengur út á að heimila að veita lán úr Bjargráðasjóði til sýslufélaga, til þess að koma í veg fyrir kornvöruskort af völdum hafíss í þeim héruðum, sem þeirri hættu eru undirorpin. Þessi heimild er ekki í lögunum um Bjargráðasjóð frá 1925, en fyrir þessum ákvæðum er hin mesta nauðsyn, því eins og menn vita, getur það komið fyrir, að Norðurland lokist alveg af hafís og einangrist þannig frá öllum samgöngum á sjó um langan tíma. Og auðvitað er það hlutverk Bjargráðasjóðs að hjálpa í slíkum tilfellum. Hugmyndin er sú, a. m. k. í Skagafirði, að búnaðarsambandið eigi jafnan kornvörubirgðir á því tímabili ársins, sem líkur eru til, að ís geti lokað höfnum. Þessi ráðstöfun ætti ekki að kosta mikið, en hinsvegar yrði hún til mikillar tryggingar. Ég geri ráð fyrir og þykir það ekki ólíklegt, að önnur sýslufélög, þau er þannig eru sett, muni nota sér þessa heimild, ef hún verður samþ.

Í Nd. var þetta frv. fyrir landbn. og legg ég til að það fari til sömu n. þessarar hv. d.