27.03.1933
Efri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

55. mál, lán úr Bjargráðasjóði

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég skal geta þess, að flm. er nú ekki hér í d., svo það er ekki hægt að beina orðum sínum til hans. (JBald: Til n.). Viðvíkjandi því, sem hv. 2. landsk. minntist á till. þm. Ak. fyrir nokkrum árum, þá eru þær, eins og hann kom að í ræðu sinni, töluvert mikið annars eðlis, því þær áttu að heimila sýslu- og bæjarfélögum að taka einkasölu á matvörum, vissan tíma ársins a. m. k. Þetta frv., sem hér er um að ræða, gengur ekki svo langt. Frv. þm. Ak. var mikil skerðing á frjálsri verzlun, og mörgum þótti það því ískyggilegt. En þó vil ég játa, að það geti verið álitamál, hvort þessi verzlun eigi að vera ríkisverzlun eða ekki. Þessu frv. er ætlað að gera nokkuð sama gagn og vakti fyrir þm. Ak., og ég vil álíta, að það séu miklar líkur til, að það geti miðað töluvert í þá átt. En þá kemur maður að því atriði, sem hv. 2. landsk. talaði um, að væri áhættusamt fyrir sýslurnar. Ég held, að í fæstum tilfellum séu líkur til þess. Ég geri ráð fyrir, að það yrði haft sama form á því og mörg sýslufélög hafa þegar tekið upp, að þau hafa gert samninga við kaupfélög um að liggja með vörur frá áramótum og yfir þann tíma, sem mest ísahættan er. Það er því ekki um langan tíma að ræða, sem þörf er á að liggja með vörur. Og ef verzlanir eða kaupfélög taka að sér geymslu á þessum vörum, sem sýslufélögin hafa tryggt sér, þá ætti ekki að vera um annað tap að ræða en vaxtamismun fyrir þennan stutta tíma, ef verðbreytingar verða ekki, því verzlanir geta vitanlega tekið þetta að sér án nokkurs sérstaks endurgjalds. Það geta náttúrlega alltaf orðið nokkrar verðbreyt., en þær geta þá orðið á báða bóga, svo þetta ætti því ekki að vera mjög áhættusamt, því ég geri ráð fyrir, að sýslufélögin tryggi sig sem bezt áður en þau ráðast í þetta. Þess vegna sé ég ekki annað en að þetta frv. sé a. m. k. mikið spor í þá átt, sem fyrir þm. Ak. vakti, að tryggja ísahéruð fyrir mannfelli og jafnvel skepnufelli. Þess vegna held ég, að það sé alveg óhætt fyrir hv. 2. landsk.samþ. frv., því það miðar þó í þá átt, sem hann vill vera láta. Ég held, að það sé rétt að fara þá leiðina til að byrja með, en ekki hina.