11.03.1933
Neðri deild: 22. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

89. mál, silfurberg

Flm. (Þorleifur Jónsson):

Það er rétt hjá hv. 1. þm. S.-M., að menn mega leita að silfurbergi þrátt fyrir einkasölulögin. En það hefir sýnt sig, að síðan 1. komu hefir enginn fengizt til að leggja nokkurn skapaðan hlut fram til að leita að silfurbergi og vinna það. Og honum er næsta vel kunnugt um það, hv. 1. þm. S.-M., að Þórarinn Tulinius, sem hafði mikinn áhuga og þekkingu á silfurbergsleit og vinnslu, hann var búinn að fá námuna á leigu áður en lögin komu í gildi. En það, sem strandaði á, að hann héldi áfram, það voru lögin. Hv. 1. þm. S.-M. sagði sjálfur, að hann hefði talað um það við sig, að hann vildi ekki við þetta fást meðan einkasölulögin væru í gildi. Og hann vildi fá mig og hann til að flytja frv. um afnám þeirra fyrir mörgum árum, meðan unnið var í Helgustaðanámunni. En ég áleit það ekki fært meðan námuvinnslan stóð yfir. Það er nefnilega hluturinn, að mönnum nægir ekki að mega leita að silfurbergi, þeir þurfa að hafa ráð yfir sölunni.

Hv. þm. telur hugsanlegt, að allmikið sé þarna af silfurbergi, þótt ekki hafi fundizt. Getur verið, og þess væri óskandi, þótt að vísu sé það fallið mjög í verði við það, að tvær góðar námur hafa fundizt, bæði í Afríku og Rússlandi. En það er mjög undarlegt, þar sem varið er miklu fé til framkvæmda í námunni og kunnáttumaður fenginn, að ekki hafi verið leitað allrækilega á þessum árum, sem vinnslan stóð yfir. Ég ætla, að það hafi verið leitað að silfurbergi á þessum árum, og þess vegna áleit ég líkindi til, að ekki væri um það að ræða, úr því að allri vinnslu var hætt, sjálfsagt með góðu samþykki ríkisstj. og allra hlutaðeigenda. Því að ef nokkur von væri um silfurberg, þá var búið að kosta svo miklu til námunnar, að ekkert munaði um að bæta við t. d. 10—30 þús. kr. til leitar.

Það er náttúrlega ekkert við því að segja, þótt aths. komi fram, þegar rætt er um afnám slíkra l. sem þessara, og getur verið gott fyrir n. að heyra frá báðum hliðum. En ég verð að lokum að segja, að ég tel engan skaða skeðan fyrir ríkissjóð, þótt 1. falli úr gildi, eins og nú standa sakir.