20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

89. mál, silfurberg

Sveinn Ólafsson:

Við 1. umr. þessa máls lét ég í ljós, að ég teldi vafasamt, hvort af þessu frv. myndi leiða nokkurt hagræði, þótt að 1. yrði, jafnvel fyrir þá menn, sem námuréttindi hefðu og gætu boðið silfurberg. Ég hygg, að þeirra hagsmunum mundi yfirleitt vel borgið, þótt ríkið hefði einkasölurétt á silfurbergi. Ég ætla, að ríkið hafi betri skilyrði til þess að koma slíkum varningi í verð en einstakir menn, sem kynnu að brjóta námurnar. En með tilliti til þess, að ríkissjóður hefir lagt í allverulegan kostnað til vinnslu Helgustaðanámunnar, kostnað, sem ekki hefir ennþá greiðzt nema að litlu leyti við silfurbergssölu, þá tel ég ríkið eiga að njóta þeirrar aðstöðu, sem það nú hefir til þess að vinna upp þetta fé. Ég hefi ekki getað komið auga á það hagræði, sem einstökum mönnum á að vera að því að hafa þennan rétt til sölunnar. Þeir hafa rétt til þess að vinna silfurbergið og þyrftu einungis að greiða ríkinu dálítinn hundraðshluta í sölulaun, ef það annaðist sölu. Ég hefi ekki getað sannfærzt um, að hér sé nokkur knýjandi nauðsyn til þess að fella l. frá 1922 úr gildi, og mun fyrir mitt leyti greiða atkv. á móti frv.

Það hefir verið farið fram á það við mig undanfarin ár, að ég flytti slíkt frv. sem þetta, en ég hefi neitað því, af því að ég hefi álitið, að það væri engin ávinningur.