20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

89. mál, silfurberg

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Ástæður hv. 1. þm. S.-M. eru næsta veigalitlar. Hann vill halda þessum einkasölul. til þess að ríkissjóður geti unnið upp tap, sem orsakazt hefir af silfurbergsvinnslunni. Ég held, að hv. 1. þm. S.-M. hljóti að sjá, að enginn lætur sér detta í hug að leggja út í jafnvafasamt fyrirtæki og þessa námuvinnslu, þegar hann getur til viðbótar átt von á því, að ríkissjóður ætli sér að vinna upp á honum tap, sem námurnar hafa valdið. Það er sama sem að segja við þá menn, sem kynnu að vilja leggja út í þetta, að ríkissjóður ætli að taka af þeim svo og svo stóran skatt, hvernig sem vinnslan gengi og þótt þeir yrðu fyrir tugum þúsunda króna tapi. Þetta er alveg sama og segja: Látum okkar námur eiga sig. Ríkissjóður ætlar sér að taka þetta af ykkur, hvort sem þið fáið nokkuð eða ekkert.

Ég vænti svo, að þetta frv. verði samþykkt.