29.05.1933
Neðri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2900 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég hefi eiginlega engu við það að bæta, sem ég hefi áður sagt. Ég get endurtekið það, að ég hefi ekki gefið neina heimild til þess, að skila megi frímerkjum aftur á pósthúsið. Það eina, sem ég hefi komið nærri þessu máli, er, að ég fyrirskipaði með bréfi 22. des. síðastl. að innheimta þá upphæð, 7. þús. kr., sem hér er rætt um. Hvað gerzt hefir í þessu máli áður en ég kom í stj., hefi ég ekki haft tóm til að rannsaka síðan á laugardag, að hv.2. þm. Reykv. kom til mín með sína fyrirspurn, en það er vitanlega hægt að fá upplýst í stjórnarráðinu.