31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

49. mál, Mið-Sámsstaði

Frsm. (Pétur Magnússon):

Það virðist hafa runnið upp fyrir hv. 2. landsk. síðan í fyrra, að einhver hætta stafi af því, að jörðin sé seld Bún.fél., eða a. m. k. hreyfði hann engum slíkum mótmælum, er samskonar frv. lá fyrir á síðasta þingi. Ekki munu heldur margir sammála honum um þetta. Ekki þarf annað en athuga grg., bls. 2, til þess að sjá, að Bún.fél. hefir unnið þarna mikið og þarft verk. Jörðin mikið ræktuð upp, þarna hafa verið unnin 486 dagsverk og hús hefir fél. látið reisa fyrir 22000 kr. Að vísu er jörðin landlítil, en skilyrði eru næg fyrir hendi til þess að rækta hana, og er hún einkum vel fallin til þess að reka þar þessa starfsemi, sem um er að ræða, og meginið af verðmæti jarðarinnar er Bún.fél. að þakka.

Þessi stofnun er nú mjög tengd ríkissjóði, hún hefir gert mikið til eflingar aðalatvinnuvegi landsbúa, og virðist mér því allundarlegt að telja það athugavert, að hún fái eignarrétt yfir jörðinni, og get alls ekki komið auga á skynsamlegar ástæður gegn því. Ekki fæ ég heldur séð þær ástæður, er liggi til þess, að sú klausa verði sett í frv., að Búnfél. megi ekki láta jörðina af hendi aftur. Starfsemi félagsins — tilraunastarfsemi réttara sagt — á jörðinni er þannig háttað að ekki er líklegt, að neinn einstaklingur, privatmaður girnist að kaupa jörðina. Ég veit ekki, hvaða ástæður gætu orðið þess valdandi, að jörðin kæmist í aðrar hendur, nema ef vera skyldi, að Búnfél. yrði lagt niður, en þá má og búast við, að annað félag risi upp með sama markmiði, eða þá að ríkið taki upp þá starfsemi, sem Búnfél. rekur nú.