31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

49. mál, Mið-Sámsstaði

Jón Baldvinsson:

Ég veit ekki, hvað þessi ónot hv. 4. landsk. í minn garð eiga að þýða. Hann var með snuprur til mín fyrir að ég skyldi hafa tekið til máls, en ég hafði enga ókurteisi eða ónot í frammi. (PM: Hverjar voru þessar snuprur?). Já, hv. 4. landsk. var að segja, að ég talaði um hina miklu hættu, er stafaði af þessari sölu, og að það hefði runnið upp fyrir mér síðan í fyrra o. s. frv. Nú hefi ég sagt, að Búnfél. sé nátengt ríkinu, að hálfu leyti opinber stofnun, og um það erum við 4. landsk. sammála. En þegar svona stendur á, getur ríkissjóður hæglega látið fél. afnot jarðarinnar í té. Þess vegna álít ég, að alveg sami árangur fáist án þess að skipt verði um eigendur. Það, sem ég aðallega spurði um, var, hvort atvmrh. væri ófáanlegur til þess að sitja í deildinni og svara fyrirspurn minni um, hvort ekki sé ástæða til þess að setja þetta ákvæði inn í frv. Fáist það ekki með nokkru móti og sé hv. 4. landsk. svo mjög mótfallinn því, verður ekki annað sýnna en að hér sé eitthvað óhreint að baki. Sölu jarðarinnar álít ég algerlega óþarfa og ekki neitt af henni leiða nema e. t. v. kostnað við afsalsbréf, þar eð félagið getur öðlazt öll afnot af jörðinni með einföldum leigusamningi. Ekki býst ég við, að spretti áberandi betur á jörðinni, þótt Búnfél. sé í veðmálabókum kallað eigandi hennar. Vonandi eru ekki eiginhagsmunahvatir sterkari hjá Búnfél., svo að það leggi meiri hug á að rækta jörðina, ef hún er eign þess, heldur en ef ríkið á jörðina.

Hvað það snertir, að slíkt frv. hafi áður náð fram að ganga án allra aths., þá þarf það ekki að þýða, að engin ástæða sé til aths. En það getur vel verið, að ég hafi einhverntíma áður sleppt því að gera aths. við svipað frv.