31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

49. mál, Mið-Sámsstaði

Frsm. (Pétur Magnússon):

Ég verð að játa, að ég skil ekki þennan móð, sem hlaupinn er í hv. 2. landsk. út af orðum mínum. Hann sagði, að ég hefði verið að snupra hann fyrir að hafa tekið til máls. Þetta voru engar snuprur. Ég nefndi ekki annað en að hann hefði engar aths. gert við frv. það, er í fyrra var rætt hér í þingi og var svipað að eðli. Þetta er alveg rétt hjá mér. Annars er það von mín, að hv. 2. landsk. fái að tala óáreittur hér í deildinni framvegis eins og áður; ég skal vissulega ekki finna að því við hann.

Hér er um að ræða tvær stofnanir nátengdar ríkinu. Kirkjujarðasjóður á landið, en Búnfél. hefir gert mannvirki þau og endurbætur, sem þar er að finna. Hér er mælzt til þess, að Kirkjujarðasjóður fái í peningum fullt endurgjald þeirra verðmæta, er hann lætur í té, án alls taps. Þetta fyrirkomulag álít ég miklu hentugra en að áfram verði haldið í því horfi, sem nú er í þessu máli, nefnil. einskonar sameign beggja þessara stofnana. Í sambandi við þetta má og geta þess, að Búnfél. hefir þegar fest kaup á jörð þar í nágrenninu eða samliggjandi, og virðist heppilegast, að eignirnar eða eignarrétturinn sé sameinaður, eins og til var ætlazt í upphafi.

Hv. 2. landsk. var með einhverjar dylgjur um, að eitthvað mundi óhreint bak við þessa sölu. Ef hann heldur, að hér eigi að auðga einhverja einstaka menn, myndi beinast við liggja, að hann léti umsvifalaust uppi, við hverja hann á, því að auðveldara mun að verjast slíkum árásum, ef framan að er gengið en ella. Annars verð ég að láta í ljós, að ég skil alls ekki, hver hugsun liggur á bak við hjá honum.