06.03.1933
Neðri deild: 17. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

40. mál, sjúkrasamlög

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Eins og nál. allshn. á þskj. 82 ber með sér, þá leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt. Aðalinnihald þessara breytinga á lögum um sjúkrasamlög er það, að í skólum landsins, öðrum en barnaskólum, sé heimilað að lögskrá sjúkrasamlög fyrir nemendur og kennara. Þetta hefir algerlega vantað í lögin um sjúkrasamlög hingað til, og þess vegna hefir ekki verið hægt að hafa nein not af þeim fyrir skólana. Þátttaka í sjúkrasamlögum hefir verið bundin við ákveðin og afmörkuð svæði, þar sem menn eru búsettir. Hinsvegar eru nemendur í skólum úr ýmsum fjarlægum héruðum, og fara því á mis við þau hlunnindi, sem sjúkrasamlögin veita. En það er alkunnugt, að nemendur mega oft illa við því að mæta sjúkdómsáföllum, og ef þeir þurfa að leggjast á sjúkrahús, þó að ekki sé nema um stuttan tíma, þá er þeim oftast ókleift, kostnaðarins vegna, að halda áfram námi það árið. Að þessu athuguðu verður það ljóst, að þeir hafa einmitt sérstaka þörf fyrir hlunnindaákvæði laganna um sjúkrasamlög. Allshn. hefir því lagt til, að hv. þd. samþ. þetta frv. óbreytt.