08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

40. mál, sjúkrasamlög

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég hreyfði því við hv. flm. þessa frv. eftir 2. umr. þess hér í d., og einnig við nokkra af þeim mönnum, sem fjölluðu um það í n., að frv. þyrfti nokkuð nánari athuganar við heldur en það enn hefir fengið. Það mun nefnilega koma í ljós við framkvæmd þessa frv., ef að lögum verður, að ýmsir þeirra manna í skólum landsins, sem ganga myndu inn í sjúkrasamlög þau, sem gert er ráð fyrir að stofnuð verði, eru fyrir í öðrum sjúkrasamlögum. Hv. flm. viðurkenndi, að aths. þessi væri réttmæt og taka þyrfti þetta atriði til nýrrar athugunar. Einnig viðurkenndu þeir nefndarmenn þetta, sem ég átti tal við. Mig undrar það því mjög, að ekki hefir komið fram brtt. við frv. Mér virðist full þörf á að reka varnagla við þeim árekstri; sem það mundi valda í framkvæmdinni, ef frv. væri samþ. óbreytt. Þetta atriði snertir ríkissjóð nokkuð, því sé enginn varnagli við því sleginn, gæti farið svo, að ríkissjóður þyrfti að greiða tvöfaldan sjúkrasamlagsstyrk fyrir suma þá menn, sem í sjúkrasamlög skólanna gengju, vegna þess að þeir væru samtímis í öðrum sjúkrasamlögum.

Ég vænti þess, að hv. d. láti ekki frv. ganga fram án þess þetta sé athugað og lagfært. Ég bar ekki fram brtt. vegna þess, að ég bjóst við, að hv. flm. eða n. mundu gera það, eftir undirtektunum að dæma þegar ég vakti máls á þessu. Annars mundi ég hafa sýnt einhvern lit á að lagfæra þetta.