15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

44. mál, hjúkranarkvennalög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég játa, að það hefir láðst allshn. að athuga þessa brtt. hv. þm. Borgf., svo ég get tæplega skýrt frá afstöðu n. í heild til hennar. Þó mun ég ekki gera kröfu til, að málið verði tekið út af dagskrá vegna n., því ég held mér sé óhætt að segja, að hún hafi ekki mikið við brtt. að athuga. Enda er hún í samræmi við það, sem ég sagði hér f. h. n. við 2. umr., að hún teldi sjálfsagt, að veittar væru undanþágur eftir því sem þörf krefði. Það áleit n. að vísu nægilegt.

Í sambandi við ræðu hv. þm. Borgf. vil ég taka fram, að ég álít, að í framtíðinni verði heppilegt, að konur, sem starfa að ýmsum líknar- og hjúkrunarstörfum úti um sveitir á vegum ýmsra félaga, beri annað nafn heldur en lærðar hjúkrunarkonur. Það er nú svo, að hver flokkur manna, sem einhverja sérmenntun hefir, vill um leið öðlast sérréttindi og fá eitthvert ákveðið heiti, sem segir til um þeirra sérmenntun. Ég býst ekki við, að á móti því verði spyrnt, að eins færi á þessu sviði og öðrum. Því er rétt að þær konur, sem starfa á vegum líknarfélaga úti um land og oft hafa ýms fleiri störf á hendi heldur en beinlínis hjúkrun, fái sérstakt heiti fyrir sig og komi alls ekki undir ákvæði þau, sem hér er um að ræða.

Það er eitt atriði í brtt. hv. þm. Borgf., sem mér finnst ástæðulaust, og það er það, að hann vill algerlega undanskilja alla sveitaskóla, sem hjúkrunarkonur kunna að hafa, frá því að bera undir sama ákvæði og aðrir skólar. Ég býst við, að ekki komi til þess, að aðrir sveitaskólar hafi hjúkrunarkonu heldur en þeir, sem eru mjög stórir, og þá finnst mér sjálfsagt, að þeir séu undir sömu lögum og aðrir skólar, sem hjúkrunarkonu þurfa að hafa.

Þrátt fyrir þetta býst ég ekki við að hafa neitt á móti því, að brtt. hv. þm. Borgf. nái fram að ganga. Sé ég svo ekki ástæðu til þess að taka fleira fram um þetta mál; geri ég ráð fyrir, að það þurfi ekki að valda miklum umr.