15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

44. mál, hjúkranarkvennalög

Jóhann Jósefsson:

Þessi brtt. frá hv. þm. Borgf. finnst mér að mestu leyti vera nokkuð þarflítil. Yfir höfuð verður ekki séð, eins og frv. nú lítur út, að það sé nein brýn nauðsyn að gera þær undanþágur með sérstakri breyt. á gr., sem hv. þm. fer fram á. Eins og hv. frsm. sagði, athuguðum við þetta í n. Við töluðum við landlækni um ákvæði 2. gr. um það, að ráðh. gæti veitt undanþágur frá ákvæðum þeirrar gr., þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, og taldist okkur þetta vera nægilegt til þess að t. d. líknarfélög, sem héldu uppi hjúkrunarstarfsemi, og sjúkrasamlög, ef svo bæri undir og það álitist rétt að dómi heilbrigðisstj. að undanskilja þau frá því að hafa lærðar hjúkrunarkonur, þá væri auðgert að fá þessu framgengt.

Hv. þm. Borgf. er ekki ánægður með þessa heimild, heldur vill hann beinlínis undanskilja þessa hjúkrunarstarfsemi í lögunum.

Ég heyrði, að hv. frsm. n. hefir tilhneigingu til þess að stríða ekki um þetta, og þá er kannske ekki ástæða fyrir okkur hina nm. að vera að karpa um það við hv. flm. þessarar till., en ég fyrir mitt leyti álít hana ekki til bóta, heldur þvert á móti.

Mér finnst óþarflega ýtt undir það, að lærðar hjúkrunarkonur þurfi ekki að hafa við þá starfsemi, sem þar um ræðir, þ. e. a. s. hjúkrunarkvennastörf hjá sveitarfélögum eða öðrum líknarfélögum. Þessi störf geta verið það umfangsmikil og geta verið þannig vaxin, að það sé engu síður þörf á lærðum hjúkrunarkonum við þau en á öðrum stöðum, t. d. við barnahæli eða því um líkt, sem hv. þm. vill láta vera undir þeirri skyldu að hafa lærðar hjúkrunarkonur.

Það er þó ekki aðallega þetta, sem ég hefi við till. að athuga, heldur það einkennilega atferli hv. tillögumanns að vilja gera upp á milli skóla í sveitum og skóla í kaupstöðum að þessu leyti. Hv. þm. hagar orðalagi till. sinnar þannig, að ef kaupstaðaskólar hefðu skólahjúkrunarkonu, þá verður hún að vera fullgild hjúkrunarkona, eins og 1. gera ráð fyrir, en ef skólarnir standa annarsstaðar en í kaupstöðum, vill hv. þm. hafa þá undanþegna þessari skyldu. Mér virðist, að hér sé stefnt í öfuga átt, vegna þess að ef tilgangurinn með því að hafa fullgildar hjúkrunarkonur er sá, að hafa hæfar hjúkrunarkonur — vel lærðar í sínu verki —, sem ég þykist vita að sé tilgangurinn með 1. þessum, þá vita menn það, að þeirra er engu síður þörf í fámennum sveitarfélögum en í fjölmennum kaupstöðum, þar sem margir læknar eru, sem fljótlega er hægt að ná til. Því verður heldur ekki haldið fram í þessu sambandi, að sveitaskólarnir séu svo lítilfjörlegir eða fámennir, að af þeirri ástæðu sé hægt að hafa þar ólærðar hjúkrunarkonur. Það er vitanlegt, að hinir stóru skólar í sveitunum, eins og t. d. Laugarvatnsskólinn, Reykholtsskólinn, Eiðaskólinn o. fl. skólar, eru stofnanir með fjölmörgum nemendum og þar er sjálfsagt þörf á að hafa þá læknisaðbúð og hjúkrunaraðbúð, sem unnt er og fullforsvaranlegt er að hafa.

Við skulum hugsa okkur mismuninn á því, við skulum segja t. d. að í Rvík væri ráðin sérstök hjúkrunarkona við einhvern skólann. Ef hana brestur þekking eða kæmu tilfelli fyrir, sem hún réði ekki við, — hversu hægt er ekki að ná samtímis til læknis? Kæmi þetta fyrir uppi í sveit, gætu farið fleiri klukkutímar í að ná í hann. Þá er hættulegra að hafa hjúkrunarkonu þar, sem ekki er vel starfi sínu vaxin.

Það gerir að þessu leyti engan mun, sem hv. flm. brtt. á þskj. 152 sagði, að þessum skólum í sveitunum væri heimilt að ráða til sín lærðar hjúkrunarkonur. Það veit maður fyrirfram. Þó að engin lagaákvæði væru sett í þessu efni, þá væri líka heimilt að ráða hjúkrunarkonur að spítölum, sjúkraskýlum, elliheimilum og öðrum þess háttar stofnunum, sem skv. þessu frv. á að skylda til þess að hafa lærðar hjúkrunarkonur.

Hvað sem öðru líður, finnst mér að allir hljóti að sjá, að það er ekki til bóta að breyta þessu frv. þannig, að undanskilja alla skóla frá því að hafa fullgildar hjúkrunarkonur, nema kaupstaðaskólana.

Ég vona, að flm. till. taki það vel upp fyrir mér, að ég leyfi mér að leggja til, að gerð sé breyt. á orðalaginu, þannig að í stað orðsins „kaupstaðaskólum“ komi bara orðið: skólum, þ. e. a. s., að ákvæðið nái í þessu sambandi til allra skóla, bæði í kaupstöðum, kauptúnum og sveitum. Ég vil leyfa mér að leggja fram skriflega brtt. við brtt. hv. þm. Borgf. á þskj. 152, þess efnis, að í stað orðsins „kaupstaðaskólum“ komi: skólum. Ég þykist vita, að það muni vera réttara fyrir hv. d., ef hún vill greiða þessu máli atkv., að gera þessa breyt. þegar á þessu stigi málsins, til þess að þurfa ekki að fá málið endursent frá hv. Ed., ef svona einkennilegt ákvæði kæmist inn í frv. eins og hv. þm. vill leggja til.