14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Herra forseti! — Stj. hefir afráðið að leggja fyrir Alþ. í frv.formi viðskiptasamning þann, sem gerður var milli Íslendinga og Norðmanna í sept. síðastl. Samningi þessum hefir verið haldið leyndum samkv. ósk Norðmanna og með samkomulagi samningsaðilja, þar til hann er nú lagður fyrir þing beggja þjóðanna. Upphaflega ætlaði stj. ekki að leggja samninginn fyrir þingið fyrr en lokið væri samtölum þeim, sem til standa milli Íslendinga og Englendinga um þeirra viðskiptamál. En þar sem nú er sýnt, að það muni dragast enn um skeið, að þessum samtölum verði lokið, en samningurinn milli Íslendinga og Norðmanna verður hinsvegar að öðlast fullt gildi fyrir 15. apríl, þá hefir ekki lengur verið dregið að leggja samninginn fyrir þingið.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að viðureign Íslendinga og Norðmanna á sviði atvinnu- og viðskipta hefir verið bæði löng og hörð. Um langt skeið var mestallt útflutt saltkjöt selt í Noregi. En norskir bændur hafa síðustu áratugi lagt mikla áherzlu á að auka kjötframleiðslu sína og einkum nú síðustu 10 árin lagt ríka áherzlu á að fá hana verndaða með hátollum. Fyrsti kjöttollurinn var lagður á um aldamótin, og nam 5 aur. á kg. Árið 1922 var hann hækkaður upp í 25 aur. á kg. og 1924 var hann kominn upp í 63 aura á kg. með öllum viðbótum. Var þetta eins og gefur að skilja íslenzkum bændum mjög þungbært. En þá tókst að komast að samningum við Norðmenn, sem þóttu allgóðir fyrir Íslendinga, þannig að grunntollurinn var færður niður í 15 aur. á kg. og nam þá tollurinn með öllum viðaukum 38 aurum á kg. Á móti þessari ívilnun komu ívilnanir um framkvæmd fiskiveiðilöggjafarinnar hér á landi Norðmönnum í vil. Um þetta samkomulag komu engar teljandi kvartanir fram hér þá eða síðar. Þótti það gleðiefni og góð lausn á vandræðum bænda, að slíkur samningur náðist, enda hefir hann orðið landbúnaðinum til mikilla hagsbóta. Og ekki hefir þess orðið vart til þessa tíma, að þær ívilnanir, sem Norðmenn fengu, hafi orðið íslenzkum atvinnuvegum til hnekkis. Það þóttu því mjög ill tíðindi hér, þegar Norðmenn á síðastl. ári sögðu upp kjöttollssamningnum. Varð það bæði þm., sem þá sátu á rökstólum, og þjóðinni áhyggjuefni. Við uppsögn samningsins hækkaði tollurinn upp í 58 aura á kg. og var það sama og innflutningsbann á ísl. saltkjöti í Noregi.

Á seinasta þingi voru þm. sammála um að neyta allra ráða til þess að fá upptekna samninga við Norðmenn og fá hinn gamla samning endurnýjaðan með sem minnstum breyt. hvað framkvæmd fiskveiðalöggjafarinnar snerti. Þegar í febrúarmán. var þess farið á leit við Norðmenn að taka upp samninga. Voru send um það skeyti og bréf og sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Sveini Björnssyni, falið að fara á fund Norðmanna, en allt varð árangurslaust. Það var svo komið, að Norðmenn höfðu lokað markaði sínum fyrir ísl. saltkjöti á sama hátt og þeir áður höfðu skellt í lás fyrir öðrum þjóðum, enda telja Norðmenn sig nú geta kjötfætt sig sjálfir. Það var ekki gott útlit, ef við hefðum á síðasta hausti staðið uppi með mest allt útflutningssaltkjöt óseljanlegt. Ef sú hefði orðið raunin á, þá hefði verið þröngt fyrir dyrum margs bóndans. Vegna þessa útlits var stj. í þinglokin í fyrra falið að athuga, hvort ekki væri tiltækilegt að segja upp gildandi verzlunar- og siglingasamningi við Noreg, og jafnframt var stj. falið að gera þær ráðstafanir, sem í hennar valdi stæði til þess að fá samninga tekna upp af nýju. Þetta hefir ekki orðið árangurslaust. Og það frv., sem hér liggur fyrir hv. d., er sá árangur, sem fengizt hefir. Samband ísl. samvinnufélaga hefir staðið framarlega í viðleitni um sölu á landbúnaðarafurðum til annara landa, og þegar þessi tollamál hafa verið á döfinni, hefir það staðið framarlega um allar ráðstafanir til bóta bæði 1922 og nú. Stj. hefir í bæði skiptin haft samráð við S. Í. S. um kjöttollsmálin, og þegar stj. var orðin úrkola vonar um, að Norðmenn myndu með skeyta- og bréfasendingum fást til að taka upp samninga, þá fórum við Jón Árnason framkvstj. til Noregs þeirra erinda að hrinda samningum af stað. Þegar við komum til Noregs horfði málunum þunglega, og var þá tekin sú ákvörðun að segja upp verzlunar- og siglingasamningnum milli ríkjanna með löglegum fyrirvara. Árangur þessarar fyrstu ferðar varð sá; að norska stj. lofaði að lýsa yfir því í Stórþinginu, að hún teldi sig hafa heimild til þess að semja við Íslendinga um kjöttollsmálið. Því var og heitið, að samningsumleitanir skyldu uppteknar. Skyldu við samningana vera tveir menn af hálfu hvorrar þjóðar og hittast fyrst í Rvík, en ljúka samningunum í Oslo. Stj. tókst að fá til samninganna þá Jón Árnason framkvstj. og Ólaf Thors alþm. Stóð svo á samningagerðinni fram í sept. mán., en þá voru þeir samningar, sem nú eru lagðir fyrir hv. deild, undirritaðir.

Samningarnir voru jafnan háðir í nánu samráði við ríkisstj. og utanríkismálan. Varð ég þess ekki var, að nokkrar aths., sem máli skiptu, kæmu fram við samningana á réttum tíma. Það voru að vísu fáir menn, sem gátu fylgzt með því, sem gerðist. Ástæðan til þess, að menn undu vel gangi málsins, var vafalaust samningurinn frá 1924, en þann samning er rétt að hafa til samanburðar um framkvæmd fiskiveiðalöggjafarinnar, og eins hitt, að miklir erfiðleikar vofðu yfir bændastéttinni. Og þeim, sem fylgdust með um samningana, er kunnugt um, að íslenzku samningamennirnir héldu fast á málstað okkar Íslendinga frá því fyrsta til hins síðasta. Stj. kann samningamönnunum hinar beztu þakkir fyrir vel unnið og mikið starf.

Á seinasta þingi var mikill uggur í mönnum, eins og ég gat um áðan, vegna þessarar uppsagnar á kjöttollssamningnum og vegna tregðu Norðmanna í málinu. Það gat engum komið til hugar, þegar stj. var falið að ganga til nýrra samninga, að fást myndi eftir að Norðmenn höfðu að fyrra bragði sagt upp samningunum, svo góðir kostir, að enginn ágreiningur yrði um þá, sérstaklega frá andstæðingum stj. Stj. leggur þessa samninga nú fyrir þingið í öruggu trausti þeirra manna, sem gerðu og gera sér ljóst, að úr vöndu er að ráða. Það hefir tekizt betur til með samninginn en við mátti búast. Ákvæði samningsins hvað framkvæmd fiskveiðalöggjafarinnar snertir, eru sízt harðari en í samningnum frá 1924. Kjöttollurinn hefir verið lækkaður úr 57 aurum pr. kg. og niður í 20 aura pr. kg. Hann er nú 33% lægri en eftir gamla samningnum frá 1924. Þetta er öllum vonum framar. Innflutningsheimild til Noregs er að vísu takmörkuð nú, en við það varð ekki ráðið og ekki umfram það, sem búast mátti við. Það er öllum vitanlegt, að kjöttollurinn var minnkandi vegna aukinnar framleiðslu í landi. Þegar um þessa takmörkun er að ræða, þá má ekki miða við ótakmarkaðan innflutning, heldur það að fá ekki að flytja neitt inn í landið. Þessi innflutningsheimild hefir nægt á seinasta ári og hún verður að nægja til undirbúnings breytti sölulagi. Samningurinn hefir þegar gert mikið gagn. Það hefði orðið þröngt fyrir dyrum margs bóndans, ef samningar hefðu ekki náðst. Margar sýslur hér á landi hafa ekki til umráða annan erlendan gjaldeyri en þann, sem fæst fyrir saltkjötið, sem selt er til Noregs. Það getur ekki leikið neinn vafi á því, að enginn mun vilja hamla því, að þúsundir heimila úti um land fái notið þessara samninga.

Annar þeirra manna, sem stóð að samningunum, á sæti í þessari d., og er mér kunnugt um, að hann mun gera ýtarlega grein fyrir samningnum í heild og einstökum atr. og mun ég ekki fara um þetta fleiri orðum að sinni, en áskil Framsóknarflokknum þann tíma, sem ég leifi nú.