14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Héðinn Valdimarsson:

Útvarpsumr. hér á Alþ. eru aðallega vegna kjósendanna, til þess að þeir geti fylgzt með því, sem hér gerist. Það er nú svo um þetta mál eins og svo mörg önnur, að það er til lítils, sem sagt er hér á Alþ., ef engir heyra það aðrir en þm., því að þeir eru flestir svo flokksbundnir, að þeir taka ekki rökum, þegar þau koma frá andstæðingunum. Ég geri ráð fyrir, að í þessu samningsmáli séu flestir þm. stjórnarflokkanna svo bundnir við sína flokka, að þeir fari ekki að greiða atkv. á móti norsku samningunum. En kjósendurnir eiga þá eftir að dæma við næstu kosningar. Það hefði verið réttara að haga þessum útvarpsumr. á annan hátt en gert hefir verið, það hefði átt að haga þeim svo, að þeir, sem eru á móti þessu frv., fengju jafnlangan ræðutíma og þeir, sem eru með því, en þegar þetta hefir verið ákveðið, er ekki hægt að breyta því. —Þeir, sem á, hlusta, munu taka eftir því, hversu náið samband er orðið á milli hinna tveggja stjórnarflokka, þegar forsrh., sem er úr Framsóknarflokknum, felur hv. þm. G.-K. að fara með þetta mál. Þar skilur ekkert á milli. Þeir, sem hafa fylgzt með upp á síðkastið, hafa tekið eftir því, að við fyrirspurn hér í þinginu um það, hvort hæstv. forsrh. myndi biðjast lausnar, ef stjskrárfrv., sem hann myndi leggja fram, yrði ekki samþ., svaraði hann því þannig, að það væri óvíst. Og þó var það sagt, þegar samsteypustj. var mynduð, að aðalhlutverk hennar ætti að vera það, að leysa stjórnarskrármálið. En þegar nú þetta frv. kemur fram, sem þrátt fyrir allar gyllingar hv. þm. G.-K. lítur fyrst og fremst á hagsmuni Norðmanna, en ekki Íslendinga, þá segir hæstv. forsrh., að stj. hans muni fara frá völdum, ef það nær ekki fram að ganga — svo mikla áherzlu leggur hann á þetta mál.

Eftir öllum upplýsingum að dæma, er hér meiri hl. þingsins að ofurselja landið Norðmönnum fyrir það eitt að fá nokkra tolllækkun á ákveðinni og minnkandi tunnutölu af kjötútflutningnum til Noregs.

Ég ætla hér að vitna í skýrslu Sveins Björnssonar um kjöttollsmálið, sem gefin var út að tilhlutun stjórnarráðsins árið 1925. Í fylgiskjali I. skýrir hann fiskveiðalöggjöfina, og er þar ekki verið að telja mönnum trú um, eins og hv. þm. G.-K. gerir, að Íslendingar hafi ekki leyfi til að hafa nema takmarkaðan rétt til löggjafar í þessu efni. Þar segir svo:

„Það hefir frá ævagömlum tíma verið markmið fiskveiðalöggjafar Íslands að tryggja landsmönnum einkarétt til fiskveiða og fiskverkunar innan landhelgi. Þegar á 18. öld var brýnt fyrir mönnum að framfylgja stranglega ákvæðum þessum, og í tilskipun 12. febr. 1872 „um fiskiveiðar útlendra við Ísland“, en sú tilskipun fól í sér aðalákvæðin um þetta efni, þar til gefin voru nýju fiskiveiðalögin 19. júní 1922, eru réttindi þessi undirstrikuð með því að taka skýrt fram bannið við því, að útlendir fiskimenn flytji afla sinn í land til þess að verka hann þar, sbr. 2. gr. tilskipunarinnar.

Auk þessara ákvæða hafa smátt og mátt myndazt ýmsar lagareglur, sem aðallega eru ætlaðar til að varna lögbrotum, þar sem þær banna ýmiskonar verknað, sem í sjálfu sér gengur ekki á fiskveiðarétt landsmanna, en eru þess eðlis, að ef verknaðurinn væri leyfður, yrði ókleift að halda uppi raunhæfu eftirliti með verndun einkaréttar landsmanna til fiskveiða innan landhelgi“.

„Réttmæti þessarar meginreglu hefir Bretland hið mikla ... viðurkennt, eftir samninga, sem stóðu árum saman, og eftir að Ísland um leið hafði viðurkennt brezku regluna um að landhelgin skyldi eigi ná lengra en 3 enskar mílur frá landi“.

Þessum réttarreglum, sem skapazt hafa á mjög löngu tímabili og sumpart með alþjóðasamningum, hafa fiskveiðalögin íslenzku frá 1922 í rauninni ekki breytt í verulegum atriðum; þessi lög eru aðallega samantekning (codificatjon) ákvæða þeirra, er áður giltu; og áður hafa eigi þeir útlendingar, er fiskveiðar stunda, hvorki Norðmenn né aðrir, fundið ástæðu til þess, hvorki að hafa á móti réttmæti þeirra frá eðlilegu sjónarmiði eða sjónarmiði þjóðarréttar að undanteknum kvörtunum fárra manna um fyrirlagið að hafa nótabátana á þilfari — né til þess að bera fram óskir um að Ísland takmarkaði fiskveiðarétt borgara sinna, sem eru þeim lífsskilyrði, til hagsmuna fyrir útlendinga. Því verður þó ekki neitað, að í einstöku atriðum hafa fiskveiðalögin sett ákvæði, sem ekki voru áður, þ. e. aðallega þessi: Í fyrsta lagi ákvæði, sem fyrst var hægt að setja, er Ísland hafði fengið sína eigin löggjöf um ríkisborgararétt (sbr. l. um ísl. ríkisborgararétt 6. okt. 1919) að íslenzkir ríkisborgarar einir hefðu rétt til fiskveiða innan landhelgi, en réttur þessi var áður bundinn við óákveðna hugtakið „þegn“. Í 2. lagi, að tekið var úr norsku lögunum um Finnmerkurveiðarnar gildandi ákvæði þeirra 1. um takmörkun á rétti útlendra skipa til að hafa bækistöð innan landhelgi“.

Síðan segir Sveinn Björnsson, að gömlu ákvæðunum hafi að vísu ekki alltaf verið framfylgt nákvæmlega, en þrátt fyrir það hafa Íslendingar alltaf gætt réttar síns.

Þá getur hann um umkvartanir Norðmanna, þær er hv. þm. G.-K. minntist á, vegna bannsins gegn verkun á veiði innan landhelgi og annara takmarkana, og sýnir fram á, að slíkar kvartanir séu á litlum rökum byggðar.

En að endingu segir svo Sveinn Björnsson:

„Þegar Íslendingar íhuga tilslakanir um framkvæmd fiskveiðalaganna, er ákaflega nauðsynlegt að beina athyglinni að því, að, eins og samningum Íslands við önnur ríki er skipað, njóta öll önnur lönd sjálfkrafa ívilnana, sem veittar eru einhverju landi, enda þótt hitt landið framfylgi ákvæðum, sem strangari eru“.

Er rétt fyrir hv. hlustendur að athuga það, að þau réttindi, sem við veitum Norðmönnum með þessum samningum, hljóta líka að fylgja samskonar samningum okkar við aðrar þjóðir.

Fiskveiðal. eru mjög ákveðin í þessu efni. Þar segir svo:

„1. gr. Fiskveiðar í landhelgi við Ísland mega íslenzkir ríkisborgarar einir reka, og má aðeins hafa íslenzka báta eða skip til veiðanna.

3. gr. Erlendir fiskimenn, er reka kynnu fiskveiðar utan landhelgi, mega leita skjóls við strendurnar, til þess að bjarga sér undan stormi og óveðri. Annars er bannað útlendingum að hafast við land eða í höfn, til þess að reka þaðan fiskveiðar utan landhelgi. — Það er og bannað erlendum skipum að verka veiði í landhelgi eða á höfnum inni; enn er bannað öllum öðrum en íslenzkum ríkisborgurum að flytja veiði sína í landhelgi eða á land, til þess að verka hana. —“

Í 9. gr. er getið um, að eigendur síldarolíuverksmiðja geti fengið leyfi til að nota erlend skip til þess að fiska fyrir þessar verksmiðjur til eigin nota, en í leyfinu skuli taka fram, að það heimili ekki erlendum skipum fiskveiðar eða fiskverkun í landhelgi og að leyfið falli burt, ef skilyrði þess séu ekki haldin í öllum greinum.

Með kjöttollshækkuninni 1922 fór kjöttollurinn úr 10 aur. á kg. upp í 25 aur., og hækkaði síðan smám saman, þangað til samningar tókust við Noreg 1924. Hv. þm. G.-K. ber saman þessa tvo samninga. En þeir eru í rauninni ekki sambærilegir. Þessir samningar eru milli tveggja ríkja og undirskrifaðir af þeim báðum, en samningarnir 1924 voru ekki annað en sjálfstæð stjórnarráðstöfun hvers ríkis fyrir sig.

Í bréfi Sveins Björnssonar til Rye-Holmboe ríkisráðs, bls. 41 í kjöttollsbæklingnum, er getið um þau samkomulagsatriði, er Íslendingar myndu fallast á. Þar stendur:

„1. Þær fiskveiðastöðvar Norðmanna, sem nú eru, er heimilt að reka áfram, á meðan væntanlegt samkomulag um tolllækkunina helzt, en það sé uppsegjanlegt af beggja hálfu með hæfilegum uppsagnarfresti.

2. a) Lofað er samræmdri meðferð um skipagjöld í ríkissjóð á mismunandi höfnum á Íslandi.

b) Afgreiðslugjald greiðist ekki fyrir að varpa akkerum innan landhelgi, ef ekki er haft samband við land.

c) Þegar leitað er neyðarhafnar greiðist ekki fullt afgreiðslugjald.

Heimilt sé að nota síldarbátana til flutnings á höfnum.

4. Ef skip, sem tekið hefir verið fast, gengur ekki að sektarálagi, en óskar að dómur gangi, getur skipið losnað strax úr haldi, gegn geymslufjárgreiðslu, í stað þess, að það sé haft í haldi unz dómur fellur“.

Niðurlagið er þetta:

„Að lokum leyfi ég mér að taka það fram, eins og ég hefi þegar gert í viðtölum mínum við herra statsráðið, að Íslendingar geta ekki gert tilslakanir, sem teljast ósamrímanlegar þeim undirstöðuatriðum, sem nauðsynlega verður að halda fast við, þ. e., að landhelgin verði ekki, hvorki beint né óbeint, notuð til stuðnings fiskveiðum útlendinga. Í þessu sambandi ber einnig að hafa fyrir augum, að tilslakanir, sem veittar eru einni þjóð, koma um leið sjálfkrafa til góða sérhverri annari þjóð, sem beztu kjara nýtur“.

Eftir þessu samkomulagi er hvergi leyft að leggja á land til söltunar. Er aðeins leyft að reka áfram fiskstöðvar, en hvergi getið um síldarolíuverksmiðjur. Er þar heldur ekkert kaupaleyfi fyrir síldarolíuverksmiðjur af erlendum skipum.

Ég vil aðeins tala lauslega um málið fram að þeim tíma, er samningarnir eru gerðir. 11. febr. 1932 segir norska stj. upp kjöttollssamningnum við okkur. Utanríkismn. ber þá fram þál. um að segja upp samningum okkar við Norðm. í júní 1932. Þetta er þó dregið í heilan mánuð og ekki gert fyrr en 8. júlí 1932. Ég get þess hér, að þegar hæstv. forsrh. var í Oslo, þá var ætlazt til þess, að hann segði upp samningunum við Norðmenn, en það lá við sjálft, að hann gerði það ekki. Verður þetta að teljast mjög undarlegt. Það er ekki venja, að eitt ríki geri neitt fyrir annað án þess að eitthvað komi á móti. En þó að samningunum sé sagt upp frá 1. júlí af Norðmanna hálfu, lofar forsrh., að kjör norskra fiskveiðamanna skuli haldast óbreytt yfir síldveiðitímann. Þessu er framfylgt hér og landhelgigæzlan rekin eins og áður. Málið er dregið fram í byrjun sláturtíðarinnar, til þess að láta Norðmenn hafa sem bezta aðstöðu gegn Íslendingum. Verður þetta að teljast frámunalega óheppileg og óskynsamleg aðferð. Átti forsrh. að geta séð það í Osló, að meiningin með þessu var engin önnur en sú, að draga hann á eyrunum. Hefði það verið rétt aðferð, þegar samningarnir féllu niður 1. júlí, að Íslendingar svöruðu með fyllstu framkvæmd fiskveiðal. og með því að haga landhelgigæzlunni eins og verið myndi hafa í öðrum tilfellum.

Um haustið varð svo samkomulag í málinu, og vil ég fara nokkrum orðum um það nú í útvarpsumr., ekki sízt af því að hv. þm. G.-K. hefir ritað um það grein í eitt blað hér, sem ég hefi ekki svarað.

Samningamenn höfðu lofað að halda samningunum leyndum og ætluðust til þess að við utanrmn., að hún héldi þeim líka leyndum. Samningamenn höfðu aðeins umboð frá stj., og gat það ekki bundið mig sem fulltrúa andstæðs stjórnmálaflokks. Það var heldur ekki af hagsmunum Íslands, að þessu var haldið leyndu, heldur aðeins af pólitískum hagsmunum hv. þm. G.-K., og gátu engir aðrir haft tjón af því, að skýrt væri frá samningunum. Ef einhverjir vilja halda því fram, að það gæti verið skaðlegt samningum okkar við Englendinga, þá má benda á það, sem allir vita, að ef Englendingar héldu, að Norðmönnum yrðu veitt hlunnindi umfram þá, myndu þeir strax segja upp samningum við okkur, þangað til þeir fengju sömu hlunnindi.

Þegar ég sá, að samningarnir voru ekki birtir þrátt fyrir loforð forsrh. um að birta þá strax í þingbyrjun, þá ákvað ég að birta þá, enda samþykkti flokksstjórn mín það í einu hljóði. Þess skal getið, að ekki var farið svona dult með þessa samninga í útlöndum, heldur voru þeir á vitorði norskra útgerðarmanna og jafnvel sænskra síldarkaupenda, enda komu hingað fréttir af þeim.

Undir eins og litið er á samninginn, sést, hver þar hefir ráðið mestu. Það er verið að tala um fiskveiðahagsmuni Norðmanna á Íslandi, líkt og talað er um „hagsmuni“ þeirra á Grænlandi, en það er ekki verið að tala um hagsmuni Íslendinga eða íslenzkra bænda í Noregi.

Grg. stj. fyrir frv. er hlutdræg og gengur út á það eitt að afsaka þessa samninga. Hér verður að taka tillit til þess, sem jafnan vegur mest í samningum þjóða á milli, en það er viðskiptaveltan milli þeirra.

Viðskiptaveltan milli Íslands og Noregs hefir undanfarin 10 ár verið eins og sjá má af eftirfylgjandi tölum:

Innfl. frá Noregi.

Útflutt til Noregs.

1923

...... 5865000

6037000

1924

...... 9482000

9362000

1929

...... 8902000

5327000

1930

...... 7740600

4937000

Við innflutningsliðinn má í rauninni bæta 2—3 millj. kr., sem við greiðum Norðmönnum í farmgjöld, og er hann þá orðinn 10—11 millj. kr. 1930, gegn tæpum 5 milljónum, sem útflutningur okkar til Noregs nemur. Sést af þessu, hversu miklu betri aðstaðan er nú, þegar þessir samningar eru gerðir, en 1923—24. Hefði mátt ætla, að nefndarmenn hefðu komið með því glæsilegri samninga sem viðskiptavelta okkar gagnvart Norðmönnum er hagstæðari en þá. Aðrar þjóðir myndu í okkar sporum hafa heimtað af Norðmönnum betri og tryggari markaði, afnám fiskiveiðahlunninda, er þeir nutu. o. s. frv. Ef menn hugsa sér, að Norðmenn hefðu ekki gengið að slíku, þá held ég, að ekki hefði verið mikið í hættunni, þótt við hefðum lent í viðskiptadeilu við þá. Við hefðum aðeins tapað þessum óverulega kjötmarkaði, og það hefðum við vel getað borið. Og þetta tap hefði margsinnis unnizt upp á bættum hagsmunum okkar á Norðurlandi við síldveiðarnar.

Hv. þm. Str. bar fram frv. 1924, þess efnis að leggja út í viðskiptadeilu við Norðmenn. Þetta væri alveg eins hægt nú.

Íslendingar ættu að hafa þá stefnu að taka undir sig alla síldveiði hér við land. En nú stunda hér 150—200 norsk skip síldveiði á sumri hverju. Atvinnuþörf er hér næg, enda hafa Íslendingar líka bezta aðstöðu til að reka þessa veiði hér. Í kjöttollsskýrslunni sést álit Norðmanna á þessu, þar sem verzlunarráðh. lýsir yfir því, að ef Norðmenn fái ekki sérréttindi hér, þá sé lokið síldveiðum þeirra við Ísland. Gagnvart verksmiðjunum ætti að halda þeirri stefnu, að þær mættu aðeins verzla við íslenzk skip, hvort sem þær eru norsk eða íslenzk eign. Myndi það sýna sig, að ef Norðmenn gætu ekki farið hingað með síld til bræðslu og söltunar, þá yrði reksturinn af dýr fyrir þá.

Hv. frummælandi gat um það, hvernig útflutningurinn til Noregs á íslenzku sauðakjöti minnkaði smám saman, samkv. samningnum., þangað til hann væri kominn ofan í 6000 tunnur 1938. En hann gat þess ekki, á hvern hátt ætlazt væri til, að tollmismunurinn fyrir síðastl. ár væri endurgreiddur. Held ég, að þetta ákvæði hafi verið sett inn í samninginn að undirlagi hv. þm. G.-K., til þess að þvinga þingið til að ganga að honum, þar sem tollurinn fæst aðeins endurgreiddur, ef þessir ókjarasamningar verða samþ. af Íslendingum. Er óþarfi að fara mörgum orðum um þessa hlið samningsins. Hún gerir ekki annað en að tryggja það, að minna kjöt verði framvegis selt héðan til Noregs og gerir m. a. s. engar ráðstafanir hvað verðið snertir. Ef um það væri að ræða, að norska stj. keypti ákveðna tunnutölu af okkur árlega, þá væri meining í samningnum, en nú er hann ekkert annað en niðurskurður á rétti Íslendinga frá því, sem áður var.

Hv. frsm. minntist ekkert á 1. gr. þess hluta samningsins, sem að fiskiveiðunum lýtur. Þar er Krossaness- og Raufarhafnarverksmiðjunum leyft að starfa óhindrað. En þegar samningarnir frá 1924 eru niður fallnir, þá höfðu þessar verksmiðjur engan rétt framar til starfsemi hér. Önnur þessara verksmiðja, sú á Raufhöfn, hefir tvisvar farið á höfuðið, og hafa Íslendingar talað við það í bæði sinnin, en viðskiptamaður hennar í Bergen fengið sitt. Krossanessverksmiðjan lenti í síldarmálahneykslinu hér á árunum, eins og kunnugt er, og braut lög á ísl. verkalýð. Það eru auðvitað sérstök hlunnindi fyrir Norðmenn að mega reka hér áfram þessar verksmiðjur, sem í raun og veru hafa ekki leyfi til að starfa hér á landi.

Þá er 2. gr. samningsins, sem gefur þessum verksmiðjum heimild til að gera samninga um kaup af eins mörgum erlendum skipum og þeim sýnist, þó ekki yfir 60% af öllu bræðslumagninu. Þessir verksmiðjustjórar mundu þá geta samið fyrst og fremst að norsk skip, og í öðru lagi við öll skip, sem hér stunduðu veiðar. Þessi réttur fyrir þessa 2 einstaklinga er svo mikils virði, að ég efast ekki um, að þeir gætu bókstaflega verzlað með slík leyfi til norskra veiðiskipa. Hv. þm. G.-K. vildi draga úr því, hve miklu þetta mundi nema, og hvað það rýrði mikið fiskiveiðar Íslendinga. Hann var að geta upp á því, að það væri fá skip, sem þetta mundi taka til, en hann er svo kunnugur þessum málum, að hann veit vel, að þótt þessi skip gerðu samning um að selja í bræðslu um síldveiðitímabilið, þá þyrftu þau ekki að láta síldina ganga til verksmiðjanna nema að litlu leyti, heldur gætu þau haft það þannig að veiða í lestaskip og notað síðan umframframleiðsluna til þess að selja fyrir lágt verð til söltunar í landi, þar sem bræðslusamningurinn gefur skipinu um leið söltunarleyfi. Með þessari gr. er m. ö. o. tryggður grundvöllurinn undir síldveiðar Norðmanna hér við land, sá grundvöllur, sem þá hefir lengi langað til að fá. Það er erfitt fyrir þá að láta veiðina bera sig, nema að hafa íhlaup hingað til lands. Þessi gr. hjálpar þeim ekki aðeins til þess að auka íhlaup til verksmiðjunnar, heldur alveg eins og norsku verksmiðjustjórarnir vilja; og þeir fá auk þess réttindi til að selja síld í landi til söltunar. Það er a. m. k. auðséð, að Íslendingar græða ekki á þessari grein, heldur fyrst og fremst verksmiðjueigendurnir norsku. Það er hægt að segja, að verksmiðjueigandinn á Hesteyri græði á þessu, og með slíkum samningi sem þessum takist honum að lækka kaupið á togurum sínum. En fyrir íslenzka sjómenn er það atvinnumissir og fyrir útgerðarmenn er það tekjurýrnun, því þeir geta ekki gert eins mikið út, og eins hlýtur verð á íslenzkri síld að lækka.

Þá er í 2. gr. samningsins leyfi til að gera við veiðarfæri í landi á Akureyri og á Siglufirði, en þetta hefir ekki verið leyft áður. Þetta er því í fyrsta sinn, sem farið er fram á að leyfa erlendum skipverjum og netagerðarmönnum að nota landið til eigin hagsmuna.

En þótt það sé e. t. v. ekki stórt atriði, er það þó það, sem nægir til þess að sýna Norðmönnum a. m. k., hvað hægt er að komast langt hér, og að hagsmunasvæði þeirra í norðurhöfum getur verið við fleiri lönd bundið en Grænland eitt.

Í 6. gr. samningsins er norskum fiskiskipum, sem veiða í lestaskip, heimilað að setja í land til söltunar 500 tunnur hverju reknetaskipi, en 700 tunnur hverju snurpinótaskipi. Nú vildi hv. þm. G.-K. halda því fram, að fyrst og fremst hefðu þeir í raun og veru haft þessa heimild, en ég mótmæli því algerlega, að nokkur bókstafur sé fyrir því nokkursstaðar, að þessi heimild sé til. Ef gætt er í fiskiveiðalögin, þá er þessi heimild ekki til þar, og það hefir sýnt sig á ákveðinn hátt, sem hv. þm. G.-K. veit vel um, að Norðmenn mótmæltu ekki þegar þessi heimild var tekin af þeim, þegar síldareinkasalan var sett á fót. Á þennan hátt er þeim tryggt, að þeir geti látið í land síld, sem þeir samkv. ísl. lögum hafa ekki haft rétt til áður.

Þá sagði hv. þm. G.-K., að þetta væri bundið við þau skip, sem ekki afhentu síld í móðurskip. Þetta er auðvitað með ráði gert, því að á þennan hátt nær þetta ekki til Norðmanna, sem ekki nota slík skip, heldur er það til þess að útiloka Svía og Finna, en Norðmenn halda öllum sínum fyllstu réttindum raunverulega.

Þá kemur að síðari hluta 6. gr., sem sýnir, hvers vegna Norðmenn hafa lagt svo mikla áherzlu á 2. gr. samningsins, að þeir vildu hætta verzlun við verksmiðjurnar. Það er, að norsk fiskiskip, sem uppfylla þetta skilyrði og hafa gert samning yfir síldveiðitímabilið við síldarverksmiðjur, fá síðan heimild til að setja upp 700 tunnur hvert reknetaskip og 1200 tunnur hvert snurpinótaskip.

Eins og ég skýrði frá áðan, þá þurfa norsk veiðiskip ekki annað en samþykki verksmiðjustjóranna á Krossanesi og á Raufarhöfn til þess að smeygja sér undir þetta ákvæði. Að þau afhendi ekki síld í móðurskip og að þau geri að forminu til samning við verksmiðjustjórana. Ef þessi söluheimild verður torvelduð á nokkurn hátt, þá hafa Norðmenn sérstök réttindi til að segja upp samningnum með 3 mán. fyrirvara, hvenær sem þeir vilja og gerst gegnir fyrir Íslendinga. Það á ekki úr að aka með þann rétt, sem verksmiðjustjórarnir eiga að hafa sem umboðsmenn Norðmanna hér á landi. Þeir eru einskonar landsstjórar yfir hagsmunasvæði Norðmanna hér á Íslandi, því að jafnvel í 17. gr. er talað um, að norsk fiskiskip, sem hafa gert slíkan samning við síldarverksmiðju, skuli hafa heimild til að búlka afla inn á höfnum. Það eru enn ein ný réttindi, og menn geta vitað, að með því eftirliti, sem hefir verið við Norðurland, hafist þeir fleira að en að búlka aflann.

Þessi atriði, sem ég hefi talið hér upp, eru svo mikils verði fyrir Norðmenn, að ég tel það víst að þeir mundu hafa viljað eftir nokkurn umhugsunartíma láta mikið í sölurnar til að fá þau, en þau eru aftur á móti svo mikils virði fyrir sjómenn og útgerðarmenn hér, að þau hefði ekki átt að láta fyrir neitt. Á þennan hátt eru Norðmönnum veitt hlunnindi, þau sömu og Íslendingum sjálfum að miklu leyti, til þess að nota landið og verksmiðjur þess, samfara því, sem þeir geta notið veiðinnar utan landhelgi eins og verið hefir, og þeirra sérstöku kjara, sem þeir hafa þar. Afleiðingin verður sú, að það, sem hingað flyzt af síld, verður selt með lægra verði. Hér geta orðið nógir menn sem leppar Norðmanna. Fyrir Sunnlendinga verður erfiðari aðstaða en Norðlendinga, þar sem þeir hafa ekki vísa verksmiðju til að leita til aðra en ríkisverksmiðjuna, sem allir hrúgast að, og hætt er við, að veiðiskip héðan, sem annars færu á síld, mundu ekki geta gert fyrirfram samning og yrðu af því sennilega útilokuð frá þessum veiðum.

Í 12. gr. samningsins er atriði, sem hv. þm. G.-K. veit vel um, hvað gildir, sem sé að norskum fiskiskipum, sem geta sannað, að þau hafi rekið inn í landhelgina sökum storms og strauma, skuli sleppt. Þetta er eitt af þeim ákvæðum, sem gerir landhelgisgæzluna miklum mun torveldari en hún er. Ég veit, að hv. þm. gæti fengið álit yfirmanna á varðskipunum um þetta. Þeir hafa skýrt frá, að af þeim Norðmönnum, sem hafa verið sektaðir fyrir ólöglegar veiðar, þá sé það næstum hver einasti, sem kenni því um, að þá hafi rekið inn í landhelgina, og þó það væri hægt að taka gilt í einstökum tilfellum, þegar það er gersamlega augsýnilegt, þá nær ekki nokkurri átt að skuldbinda sig gagnvart einni þjóð í þessu efni, hvernig sem á stendur og slengja sönnunarskyldunni yfir á íslenzku varðskipin um að þá hafi ekki rekið inn í landhelgina. Þetta verður til þess, að í hvert einasta skipti, sem norskt skip er tekið fyrir ólöglegar veiðar, þá verður þessu ákvæði veifað og Norðmenn heimta, að málið verði tekið upp.

Ég hefi nú tekið fram að mestu leyti þau atriði, sem hefir verið fundið að í þessum samningi, en ég hefi ekki tíma til þess að snúa mér að sumum atriðum, sem komu fram í ræðu hv. þm. G.-K., en ég vil aðeins taka hér saman stuttlega það, sem ég hefi um þetta sagt, að það er engin heimild til í gildandi ísl. lögum um það, að útlendingar megi selja hingað síld á þann hátt, sem leyft var norskum skipum eftir samningunum frá 1924, og ríkinu er hægt að banna þetta á ýmsan hátt. Það er hægt að hafa einkasölu án þess að nokkur geti skipt sér af. Það var því engin nauðsyn að láta útlendinga komast á það, að setja síld hingað á land, hvað þá heldur að auka þá ólöglegu heimild með þessum nýja samningi. Nú er það öllum kunnugt, hvernig norsku ríkisstjórnirnar hafa litið til ýmissa landa í norðurhöfum, hvernig þær hafa náð tangarhaldi á Spitsbergen, Franz-Jósefslandi og Grænlandi, og við þekkjum úr okkar eigin sögu, hvað þeir reyndu til að ná Íslandi á sitt vald á sínum tíma. Það er ekki laust við, að manni sýnist, að þeir, sem tala svo fast fyrir þessu hér, séu erindrekar þessarar stefnu. Hvar eru nú „sjálfstæðismenn“, þegar einn aðalmaður þeirra talar fyrir þessu máli? Og það er einmitt sá þm., sem ætti að vera verjandi smáútgerðarinnar, sem kjósendur hans eiga afkomu sína undir.

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til þeirra hv. þm., sem ætla að ljá þessum samningi atkvæði sitt, hvað þeir hugsi, að aðrar þjóðir muni heimta af okkur Íslendingum í samningum, þegar sú þjóð, sem við stöndum bezt að vígi við, heimtar þau kjör, að taka svo að segja síldarútveginn af okkur? Hvað ætli Bretar geti heimtað af okkur? Hvað ætli Spánverjar heimti? Hvað ætli verði eftir af landinu og auðlindum þess, þegar allar þjóðir eru búnar að fá sinn rétt á þann hátt, sem hv. þm. G.-K. vill láta Norðmenn fá?

Ég vænti þess, að þeir kjósendur, sem hlusta um land allt og ekki eru bundnir sömu flokksböndum og hv. þm., þori að halda fram rétti Íslands og leyfi ekki einstökum mönnum að selja landið, heldur hagnýti gæði þess handa sjálfum sér eftir beztu föngum.