15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Haraldur Guðmundsson:

Ég vil að þessu sinni hefja mál mitt með því að þakka hæstv. forsrh. mjög innilega fyrir þann velvilja í garð atvinnulausra verkamanna og sjómanna á Austfjörðum, og þá sérstaklega á Seyðisfirði, sem fram kom í ræðu hans í gær, og þann áhuga, sem hann virtist hafa á að bæta úr atvinnuskortinum þar eystra. Ég vona fastlega, að þegar till. í þá átt koma til afgreiðslu hér í d., sem væntanlega verður innan skamms, þá minnist hann orða sinna og veiti þeim drengilegan stuðning, svo tryggt verði, að þær megi ná fram að ganga.

Áður en ég vík að því máli, sem hér liggur fyrir, þarf ég í sambandi við ummæli, sem féllu í ræðum hér í gær, og ummæli í blaðinu „Tíminn“, að taka fram, hver er afstaða okkar jafnaðarmanna til fiskveiðilöggjafarinnar. Við höfum jafnan haldið því fram, að fiskveiðilöggjöfina þyrfti að endurskoða, og bent á, að í sambandi við þá endurskoðun væri heppilegt að veita undanþágur frá henni, sem bundnar væru við ákveðinn tíma, ákveðna staði og ákveðið magn af fiski eða síld, með það fyrir augum að bæta úr neyðarástandi vegna atvinnuleysis á þeim stöðum, sem skortir bæði skip og önnur tæki til síldveiða og verksmiðjur til síldarvinnslu, eins og t. d. á Seyðisfirði. En með því að takmarka undanþágur þessar svo mjög, gæti stj. jafnan haft í hendi sér að leyfa ekki landsetningu á meira magni fiskjar en svo, að ekki spillti á neinn hátt atvinnurekstri Íslendinga sjálfra. Eins og kunnugt er, hafa allar þær till., sem ég hefi borið fram í þá átt að veita undanþágur frá fiskveiðalöggjöfinni, verið í heimildarformi og bundnar þessum skilyrðum um takmarkanir, og allar fluttar með það fyrir augum að bæta úr stórkostlegu atvinnuleysi. Í samningi þeim, sem hér liggur fyrir, er á engan hátt um að ræða atvinnubætur fyrir Íslendinga, heldur þvert á móti stórfelld atvinnuspjöll.

Áður en ég sný mér að sjálfum samningnum vil ég beina tveimur fyrirspurnum til hæstv. stj.: Eftir samningnum lítur út fyrir, að Íslendingar hafi haft rétt til þess að flytja 13000 tunnur af saltkjöti til Noregs af framleiðslu síðasta árs. Nú hefir mér verið hermt, að ekki hafi verið fluttar til Noregs nema um 7000 tunnur, og talsvert mikið af því sé enn óselt og lítt seljanlegt. Ég vil óska eftir, að hæstv. stj. upplýsi, hvort þetta er rétt.

Mér hefir í öðru lagi verið sagt, að þrátt fyrir þennan litla saltkjötsútflutning sé nú orðinn skortur á saltkjöti í landinu sjálfu. Útgerðarmaður einn, sem leitað hefir eftir kaupum á saltkjöti, telur talsverða erfiðleika á að fá það hér á landi.

Ég vil einnig biðja hæstv. stj. að upplýsa, hvort þetta er rétt.

Allir munu vera sammála um, að það mál, sem hér liggur fyrir, sé afarviðkvæmt og þýðingarmikið fyrir okkur Íslendinga. Það er viðkvæmt og vandmeðfarið vegna þess, að hér er um utanríkismál að ræða. Þau fríðindi, sem veitt eru Norðmönnum, ef þessi samningur verður samþ., hljóta einnig að falla öðrum útlendum þjóðum í skaut, sem hjá okkur njóta beztu kjara. Fari t. d. Englendingar og Svíar, sem hvorirtveggja eru „beztu kjara“ þjóðir gagnvart okkur, fram á að fá sömu hlunnindi, en fái þau ekki, má búast við, að þeir játi vitaráðstafanir koma á móti.

Í öðru lagi er hér að ræða um þýðingarmikið mál vegna þess, að það snertir mjög tilfinnanlega tvo af aðalatvinnuvegum okkar Íslendinga, landbúnaðinn og síldarútgerðina. Undir afgreiðslu þess er mjög komin afkoma þeirra, sem að þessum tveim þáttum atvinnulífsins starfa. Þegar svona mikið er í húfi, skyldi maður ætla; að sem bezt væri til alls málatilbúnings vandað af hendi hæstv. ríkisstj. En þar virðast, því miður, hafa orðið á hin hrapallegustu mistök, sem gert hafa hinum íslenzku samningamönnum erfiðara fyrir.

Eins og áður hefir verið tekið fram, sögðu Norðmenn upp kjöttollssamningnum 11. febr. í fyrra. En af Íslendinga hálfu var samkomulaginu frá 1924 ekki sagt upp fyrr en frá 8. júlí. Um leið var fastmælum bundið að hefja samninga af nýju, og mun Norðmönnum þá samtímis hafa verið lofað, að þeir skyldu fá að halda óskertum hlunnindum sínum hér við land allt sumarið. Það varð þó ekki fyrr en 26. júlí, sem samningstilraunirnar byrjuðu hér heima, og seinni hluti þeirra fór fram í Osló frá 30. ágúst til 16. sept. Meti nú hv. þm. sjálfir, hverjir höfðu betri aðstöðu við samningana, Íslendingar eða Norðmenn. Norðmenn voru búnir að njóta óskertra þeirra hlunninda, sem þeir áður höfðu haft hér yfir allan síldveiðitímann um sumarið. Þau var ekki hægt að taka af þeim, hvernig sem samningarnir hefðu farið. En Íslendingar áttu allan saltkjötsútflutning sinn í hættu, ef upp úr samningunum slitnaði, og höfðu aðeins tæpan mánuð til stefnu, þangað til kjötinu þurfti að ráðstafa. Það er eins og samningstíminn hafi verið hnitmiðaður við þann tíma, sem Norðmönnum kom bezt og okkur Íslendingum verst. Þess vegna stóðu okkar samningsmenn verr að vígi en Norðmennirnir. Þetta er nokkur afsökun þeim mönnum, sem að samningunum unnu fyrir íslenzku stj., þó þeim tækist ekki betur en raun ber vitni um. En þar á hæstv. forsrh. til sakar að svara.

Til samanburðar við þessa meðferð málsins ætla ég að drepa á, hvernig farið var að undir sömu kringumstæðum árið 1924. Strax þegar sýnt var, að miklir örðugleikar myndu verða á kjötsölu til Noregs vegna hátolls, gerðist einn af samflokksmönnum hæstv. forsrh., hv. þm. Str., til þess að flytja þrjú frv. um sérstakar mótráðstafanir. Var eitt þeirra um að leggja gjald á norsk skip, sem siglingar stunda hér við land; annað um að leggja hátoll á norskar vörur; og hið þriðja um að leggja gjald á norskar verksmiðjur hér. Það er enginn vafi á því, að einmitt af því að svo greinilega kom í ljós, að við vorum við því búnir að gera mótráðstafanir, teygðu Norðmenn sig lengra til samkomulags heldur en ella hefði orðið. Nú voru engar slíkar ráðstafanir gerðar. Þvert á móti lofar hæstv. forsrh. Norðmönnum sömu fríðindum og áður allt sumarið, án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því, að þeir ekki útilokuðu ísl. saltkjötið strax á næsta hausti.

Mér virðist hafa borið mjög á því hjá þeim, sem mælt hafa þessum samningi bót, að þeir líta allt of einhliða á það, hvað mikla þýðingu það hefir fyrir okkur að geta selt saltkjöt til Noregs. Ég viðurkenni fyllilega, að saltkjötsmarkaðurinn hefir allmikla þýðingu fyrir bændur, og ég tel sjálfsagt, að þeim verði á einhvern hátt bættur skaðinn, ef samningurinn er ekki samþ. En mér þykir undarlegt, að ekki skuli hafa verið bent á hitt jafnframt, hvað Norðmenn eiga mikilla hagsmuna að gæta hér og hve mikið þeir eiga einnig í húfi, ef samningar nást ekki. Sannleikurinn er sá, að við höfum varla eins góða aðstöðu til samninga við nokkra þjóð eins og Norðmenn. Þeir eiga svo miklu meira í hættu heldur en við, og skal ég nú færa að því nokkur rök.

Árið 1929 seldum við Norðmönnum vörur fyrir 5320 þús. kr. Sama ár keyptum við af þeim fyrir 8900 þús. Árið 1930 seldum við þeim fyrir 4930 þús. kr., en keyptum af þeim fyrir 7750 þús. Síðan hefir sala okkar til Noregs minnkað. Það eru ekki Íslendingar einir, sem erfitt eiga með að selja framleiðsluvörur sínar eins og nú standa sakir. Norðmenn eiga einnig erfitt með að selja sínar vörur og útvega sínu fólki atvinnu. Sé það okkur keppikefli að selja Norðmönnum kjöt fyrir nokkur hundr. þús. kr., þá er þeim það ekki síður hagsmunamál að geta selt okkur vörur fyrir fleiri milljónir. Þessu megum við ekki gleyma, að verzlunarjöfnuður okkar við Norðmenn er þannig, að við kaupum af þeim tvöfalt á við það, sem þeir kaupa af okkur. En þar með er ekki allt talið. Þessu til viðbótar greiðum við Norðmönnum stórfé í flutningsgjöldum. Ég hefi heyrt, að samningsmenn áætli þær tekjur 1½—2 millj. kr. En þessi áætlun hlýtur að vera allt of lág. Norðmenn hafa hér mestallan flutning á kolum, salti, fiski og mörgum fleiri vörutegundum. Og þarna eru ekki taldar með tekjurnar af tveimur áætlunarskipum, sem þeir hafa í ferðum hingað árið um kring, „Novu“ og „Lyru“. Það mun því áreiðanlega vera óhætt að tvöfalda þessa upphæð. Mér þykir líklegt, að flutningsgjöld þau, er við Íslendingar greiðum Norðmönnum, séu ekki undir 4—5 millj. á ári. Halda menn, að Norðmönnum sé einskis virði að fá atvinnu handa öllum þeim fjölda, sem starfar að siglingunum hingað og héðan og vinnur að því að búa til veiðarfæri, tunnur, mótorvélar, áburð og ýmsar fleiri vörur, sem við kaupum? Það er atvinnuleysi í Noregi ekki síður en hér. Sjávarútvegurinn gengur ekki betur þar en hér. Ég hefi enn eigi talið hlunnindi síldveiðiflotans norska hér við land. Norðmenn sjálfir telja þau geysilega mikils virði. Telja, að afkoma síldveiðiskipanna, ca. 200 til uppjafnaðar, velti mjög á því, að þau hlunnindi séu ekki skert. Það er því fullvíst, að Norðmenn eiga jafnvel margfalt meira undir því, að samningar takist en við Íslendingar. Af vörum, sem við seljum þeim, má telja, að þeir kaupi aðeins kjötið til neyzlu; hitt, svo sem síldarlýsi og mjöl, selja þeir öðrum, sem við ættum eins að geta selt beint héðan.

Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni í gær, að innflutning lágtollaðs kjöts til Noregs, sem heimilaður væri samkv. samningnum, ætti ekki að bera saman við innflutning þangað á undanförnum árum, heldur við það, að enginn innflutningur hefði orðið án samningsins. Þetta er alveg laukrétt hjá hæstv. ráðh. En á sama hátt eiga þá vitanlega fríðindi þau, sem Norðmenn fá hér nú, ekki að miðast við fríðindin, sem þeir fengu samkvæmt samkomulaginu frá 1924, heldur við það, að þeir nytu hér engra sérstakra fríðinda: Að siglingar þeirra hér væru skattlagðar svo, að þær stæðust ekki samkeppnina við Eimskipafélagið. Að norskar vörur væru hér útilokaðar með hátolli tilsvarandi þeim, sem Norðmenn hótuðu að leggja á ísl. saltkjötið. Að síldarverksmiðjur þeirra hér væru skattlagðar til hins ýtrasta. Að aðstaða norska síldveiðiflotans hér við land væri að engu leyti gerð betri heldur en aðstaða enskra, þýzkra og sænskra veiðiskipa. Að fiskur og síld, sem norsk veiðiskip setja hér á land, væri tollað á sama hátt og ísl. saltkjötið í Noregi. Ég vona, að hæstv. ráðh. verði að játa, að við það sama verður að miða frá báðum hliðum, að frá Norðmanna hálfu ber ekki að miða við ástandið frá 1924, heldur við það, að við gerum sömu ráðstafanir gagnvart þeim, sem þeir hafa gert eða hóta að gera gegn okkur.

Aðalvarnir eða afsakanir þeirra, sem samningnum mæla bót, eru byggðar á því, að hann sé tiltölulega lítið verri heldur en samkomulagið frá 1924. Þetta er nú að vísu rangt, eins og ég mun síðar sýna fram á. En það sýnir, að samningsmennirnir hafa lagt samkomulagið frá 1924 til grundvallar við samningsgerðina, vitandi þó, að búið var að segja því upp og að Norðmenn höfðu þar átt upptök að. Aðstaða okkar til samninga við Norðmenn var þó allt önnur og miklu betri nú heldur en 1924, vegna þess hvað viðskiptajöfnuður landanna hefir breytzt síðan Norðmönnum í hag. Því til sönnunar skal ég nefna nokkrar tölur: Árið 1923 seldum við Norðmönnum vörur fyrir 6040 þús. kr., en keyptum af þeim sama ár fyrir 5860 þús. Árið 1924 seldum við þeim fyrir 9360 þús. kr., en keyptum að þeim fyrir 9781 þús. kr.

Árið 1924 seldum við kjöt til Noregs fyrir tæpar 4 millj. kr., en síðastl. ár seldum við þangað kjöt fyrir eitthvað um 600 þús. kr. Árið 1923 keyptum við fyrir 180 þús. kr. minna af Norðmönnum heldur en við seldum þeim fyrir. Nú er þetta alveg snúið við, þar sem við nú kaupum af Norðmönnum nærri tvöfalt meira heldur en við seljum þeim, eins og ég áður hefi sýnt fram á. Nú kaupum við t. d. af þeim áburð fyrir nokkur hundruð þúsunda kr. á ári hverju, e. t. v. allt að því eins mikið og saltkjötið selst fyrir þar.

Af þessu er augljóst, að aðstaða okkar til samninganna var stórkostlega miklu betri nú en 1924. Við hefðum því átt að fá sömu tollívilnanir og áður hjá Norðmönnum, en ekki að þurfa að láta eins mikil fríðindi á móti, ef sæmilega hefði verið haldið á okkar málstað. En handbragðið hefir nú orðið eitthvað annað, samningurinn miklu verri heldur en samkomulagið frá 1924.

Annað, sem aðstandendur samningsins bera fram sér til afsökunar, er það, að fríðindi þau, sem Norðmenn fengu hér með samkomulaginu frá 1924, hafi ekki verið misnotuð, svo að til tjóns hafi orðið Íslendingum. Af þessu draga þeir þá ályktun, að ekki sé ástæða til að óttast, að það verði Íslendingum hættulegt nú, þó þessi fríðindi séu veitt áfram og stórum aukin. Þessi vörn er einnig haldlaus með öllu. Einmitt tilslakanir þær, sem vegna samkomulagsins 1924 voru gerðar á framkvæmd fiskveiðilaganna gagnvart Norðmönnum, voru m. a. því nær búnar að leggja síldarútgerð landsmanna í rústir. Menn muna eflaust eftir ýmsum ófögrum lýsingum á því ófremdarástandi, sem síldarverzlunin og síldarútgerðin komst í á tímabilinu frá 1924—1927. Ég ætla ekki að lýsa því mikið frá eigin brjósti, en leiða heldur til vitnis þann mann, sem a. m. k. hv. þm. G.-K. mun leggja nokkuð upp úr.

Árið 1926 var svo komið í síldarmálunum, að íhaldsmönnum, sjálfum aðdáendum frjálsrar samkeppni, þótti ekki lengur fært að hafa síldarverzlunina frjálsa. Um þetta vandræðaástand kenndu þeir aðstöðu Norðmanna hér eftir 1924 og „leppum“ þeirra. Fluttu þeir því og fengu samþ. á Alþingi frv., sem veitti félagi ísl. síldarkaupmanna og útgerðarmanna rétt til þess að taka í sínar hendur alla sölu á ísl. síld, saltaðri og kryddaðri, sem út væri flutt, til þess, sögðu flm. frv., að hægt væri að útiloka Norðmenn. Meðal flm., og ekki sá, sem minnst lét á sér bera, var auk Björns Lindals sjálfur núv. samningsmaður, þm. G.-K. Ætla ég nú, með leyfi hæstv. forseta, að lesa kafla úr framsöguræðu, sem Björn heit. Lindal flutti um málið á Alþingi, sjálfsagt af hálfu flm. allra, þ. á. m. hv. þm. G.-K. Hann segir m. a.:

„Í sambandi við þetta mál má aldrei gleyma frændum okkar Norðmönnum. Þeir hafa kennt okkur allar síldveiðar, sem nokkuð hefir kveðið að, og hafa allra manna mesta reynslu við þessa veiði. Þeir eru nægjusamari heldur en við og sparsamir og mjög lagnir fiskimenn. Þangað til núgildandi fiskiveiðalöggjöf gekk í gildi voru þeir vanir því að fá að stunda þessa atvinnu hér eins og innlendir menn, að öðru leyti en því, að þeir máttu ekki fiska í landhelgi. Á þessu varð mikil breyt. með fiskiveiðalögunum frá 1922, og eiga Norðmenn vitanlega síðan miklu verri aðstöðu til þess að stunda þessa veiði hér við land, þótt þessum lögum hafi aldrei verið stranglega framfylgt gagnvart þeim. En þeim hefir þó einkanlega verið linlega framfylgt síðan hinn svonefndi kjöttollssamningur var gerður við Norðmenn. Þetta hefir létt þeim mjög samkeppnina við okkur og þeir eru enn þann dag í dag okkar langskæðustu keppinautar. Það er oft tiltölulega létt að fara í kringum lögin, og ekki síður fiskiveiðalög heldur en önnur lög. Ég fullyrði ekki, að Norðmenn geri þetta, því ég hefi engar sannanir í höndunum fyrir því. En ég vil leyfa mér að benda á eina aðferð til þessa, sem tiltölulega er létt að nota. Þegar Norðmenn koma hingað til þess að fiska utan landhelgi, geta þeir flutt með sér meira af tunnum og salti en þeir geta haft í skipunum meðan þeir eru að fiska, því rúm þarf að vera á þilfari, til þess að unnt sé að verka síldina og koma henni fyrir í lestinni. Það getur því komið sér mjög vel að geta selt 500 til 600 tunnur ísl. manni í landi, selt þessum sama manni seinna síld í þessar sömu tunnur, og keypt svo af honum þessa sömu síld í sömu tunnum, þegar þeir leggja af stað heimleiðis. Þetta getur allt verið löglegt, en hér getur líka verið um leppmennsku að ræða af versta tæi, án þess að létt sé að sanna það. Þannig geta Norðmenn komið þessi fyrir og siglt svo með fullfermi beina leið til Svíþjóðar og selt síldina þar sér að skaðlausu ódýrara en við getum“.

Þetta getur allt saman verið löglegt, segir Björn Lindal, en líka getur verið um verstu leppmennsku að ræða, án þess hægt sé að færa sönnur á það. Það vita allir, að á þennan hátt fengu Norðmenn og Svíar menn hér til þess að leppa mikinn hluta af þeirri síld, sem héðan var flutt, og sumpart veidd af ísl. skipum, en að allmiklu leyti af norskum skipum. Nú eru einmitt með þeim samningi, sem hér liggur fyrir, opnaðar dyr til þess að reka leppmennsku á þennan hátt, ennþá breiðari og greiðfærari dyr heldur en nokkru sinni áður.

Aðstaða Norðmanna eftir samkomulaginu frá 1924 og það, hversu mjög þeir notuðu sér hana, leppmennskan o. fl. í því sambandi, var einmitt meginástæðan til þess, að lögin voru sett 1926, um sölu á síld til þess að afnema þessa séraðstöðu Norðmanna. Og þegar þau komu ekki til framkvæmda þá voru af sömu ástæðum á þinginu 1928 sett lögin um síldareinkasöluna, sem stóðu til 1931. En með einkasölunni voru tekin af Norðmönnum þau fríðindi, sem þeir höfðu samkv. samningunum frá 1924, rétturinn til að selja síld í land til söltunar. Þó að hæstv. forsrh. gæfi annað í skyn í ræðu sinni og teldi, að einkasalan hefði getað veitt þeim slíkt leyfi, þá er það vitanlegt, að stj. einkasölunnar hefði hvorki veitt þeim veiði- né söltunarleyfi. Enda viðurkenndu Norðmenn það með því að sækja ekki um slíkt. Þetta sýnir því, að þó að fríðindi Norðmanna samkv. samkomulaginu frá 1924 væru miklum mun minni en samningur þessi gerir ráð fyrir, þá voru þau síldarútgerð landsmanna til svo mikils tjóns, að gripið var til þess að gera ákvæðin um rétt Norðmanna til að selja síld í land til söltunar að engu og girða fyrir ágengni þeirra með l. um síldareinkasölu. Með afnámi síldareinkasölunnar var aftur opnað upp á gátt fyrir síldveiði Norðmanna hér við land; en nú verður sú dyragátt breikkuð um allan helming, ef þessi samningur verður samþ.

Ég hefi sýnt fram á, að það hefði mátt ætla, að betri samningsniðurstaða fengist nú en 1924. Með því að líta á verzlunarjöfnuðinn á milli þjóðanna, fæ ég ekki betur séð en að við hefðum átt að geta vænt okkur hagfelldari samnings en 1924, þar sem hagnaður Norðmanna af viðskiptum við okkur Íslendinga er margfaldur á við hagnað Íslendinga af viðskiptum við þá. Og hlutfallið hefir síðan 1924 stöðugt breytzt Norðmönnum í hag. Samningsboð okkar hefðu átt að vera hliðstæð boðum Norðmanna.

Norðmenn bjóða, að viss hluti af því kjöti, sem flutt er til Noregs frá Íslandi, skuli heyra undir það, sem þeir kalla lágtoll. Ég get nú ekki fallizt á, að sá tollur sé neitt sérstaklega lágur, þó að hv. þm. G.-K. þyki svo vera. Tollurinn er þó rösklega 30% af verði kjötsins, og þessi lágtollur er veittur aðeins af mjög litlu vörumagni, sem þó á að fara minnkandi ár frá ári.

Með hliðsjón af þessum samningsboðum Norðmanna finnst mér eðlilegt, að ísl. samningamennirnir hefðu sagt sem svo: Undanfarið ár hafið þið haft rétt til að selja hér í land fisk og síld samkv. samkomulaginu frá 1924. Nú sýnist okkur sanngjarnt, að þetta sé takmarkað og fari minnkandi ár frá ári tilsvarandi við takmarkanirnar og niðurfærsluna á kjötinnflutningi til Noregs. Af þessu sé svo greiddur „lágtollur“, tilsvarandi við „lágtollinn“ á ísl. kjötinu í Noregi. En sá tollur er sem næst norskar kr. 22.05 pr. tunnu á ákveðnu magni af saltkjöti. Samskonar lágtollur af einhverju tilsvarandi og minnkandi magni af hrásíld til söltunar og bræðslu, sem Norðmenn leggja hér á land, var sambærilegt grundvallarboð. Hefði sá lágtollur þá orðið um 30% af hrásíldarverðinu. Það hefðu orðið, miðað við verðlagið í fyrra, hér um bil 90 aur. af hverju síldarmáli til bræðslu, eða um 2 kr. af hverri hrásíldartunnu til söltunar. Þetta hefðu verið álíka sanngjörn tilboð frá beggja hálfu, ekki sízt þegar litið er til annara þeirra fríðinda, sem Norðmenn njóta hér við land. En í stað þess að svara tilboðum Norðmanna þannig á viðeigandi hátt, þá er það nú viðurkennt af samningamönnunum, að þeir hafa litið á málið fyrst og fremst út frá samkomulaginu frá 1924 og talið sig halda vel á málstað Íslendinga, svo framarlega, sem þeir stórspilltu ekki hlut þeirra frá því, sem gert var með því samkomulagi.

Þá skal ég víkja að þriðju afsökuninni, sem hv. þm. G.-K. færði fram fyrir samningsgerðinni. Hún er sú, að jafnvel þó ekki sé miðað við samkomulagið frá 1924, þá sé eigi hægt að banna Norðmönnum að selja í land 500—700 tunnur til söltunar af hverju skipi. Þennan rétt taldi hann Norðmenn hafa samkv. fiskveiðalögunum. Um þetta sagði hv. þm. G.-K. í ræðu sinni í gær: „Ég tel ólíklegt, að Íslendingum haldist það uppi að þrengja svo skilninginn á fiskveiðalöggjöfinni, að hægt sé að banna Norðmönnum að selja í land 500—700 tn. af skipi“. Þessu til sönnunar vísaði hann til bréfs frá fyrrv. atvmrh., Klemens Jónssyni, til norska aðalræðismannsins í Rvík. Ég hefi spurzt fyrir í stjórnarráðinu um þetta bréf frá Kl. J. til norska ræðismannsins og fengið af því svo hljóðandi afrit:

Stjórnarráð Íslands.

20. maí 1922.

„Í erindi, dags. 16. þ. m., hafið þér, herra aðalkonsúll, spurzt fyrir um það, hvort erlendum fiskiveiðaförum sé samkv. l. um rétt til fiskiveiða í landhelgi, sem samþ. voru á síðasta Alþingi, heimilt að selja afla sinn hér í landi, hvort heldur hann sé síld eða önnur tegund fiskjar.

Út af þessu skal yður hér með til vitundar gefið til leiðbeiningar, að erlendum fiskiveiðaförum mun ekki verða meinað að leita hafnar hér í landi til þess að selja ísl. ríkisborgurum afla sinn, ef ekki eru svo mikil brögð að slíkum söltun, að sölurnar sýni, að farið hafi stöð í íslenzkri höfn eða hafist þar við“.

Hér er ekkert annað nefnt í bréfi ráðherrans til aðalkonsúlsins. En líklega hefir konsúllinn vitað um símskeyti frá bæjarfógetanum á Siglufirði til atvmrn. í Rvík, dags. 7. ágúst 1922, og svarið við því, sem ég skal lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta. Símskeytið frá bæjarfógetanum á Siglufirði er svohljóðandi: „Nú saltar erlent skip síld fyrir utan landhelgi, en selur nokkuð af veiðinni í land ósaltaða, hvað mikið má álíta það megi selja í mesta lagi stop má erlent skip, sem ætlar að salta í sig 800 tn. og selja erlendum skipum utan landhelgi meira en 800 tunnur, selja hingað í land allt að 1500 tunnur. Ég spyr um álit ráðuneytisins, af því að um þetta fer svo eftir álitum, en engar fastar reglur fyrir, hvað erlent skip megi selja mikið“. Bæjarfógetinn.

Þessu símskeyti svaraði ráðuneytið 9. ágúst á þessa leið:

„Hæfilegt virðist, að erlenda skipið, er um ræðir símskeyti yðar 7. ágúst, megi selja 500 til 700 tunnur síldar til íslenzkra ríkisborgara“.

Hv. þm. G.-K. lýsti þessu svo í ræðu sinni í gær eins og þetta væri ekki skilyrðisbundið, heldur væri hér um almenna, skilyrðislausa heimild að ræða. Í bréfinu til aðalræðismannsins er ekkert ákveðið magn tilgreint, sem heimilt sé að selja í land; þar eru aðeins viðhöfð almenn orðatiltæki. Og í skeytinu til bæjarfógetans er heimildin bundin við það, að skipið hafi selt a. m. k. yfir 1600 tunnur beint til útlanda, áður en þetta leyfi fæst til sölu í land. Þessu gleymdi hv. þm. G.-K. í frásögn sinni í gær, og verð ég að segja, að slíkur málflutningur er ekki góður. Auk þess verður á það að líta, að símskeyti ráðh. til bæjarfógetans á Siglufirði getur á engan hátt bundið hendur stjórnar eða Alþingis í þessu efni gagnvart Norðmönnum, og hygg ég, að engum hafi dottið það í hug, nema ef vera skyldi þessum hv. þm. — og þó varla einu sinni honum.

Ég hygg, að ég hafi nú sýnt fram á það, að skilningur hv. þm. á fiskveiðalöggjöfinni er mjög fjarri sanni, ekki sízt þegar tekið er tillit til þess, að svo að segja öll þau ákvæði fiskveiðalaganna frá 1922, sem ekki eru samsafn eldri laga, eru sniðin eftir samskonar ákvæðum í Finnmerkurlögum Norðmanna, svo að það ætti að vera erfitt fyrir Norðmenn að kvarta undan þeim.

Þá skal ég víkja að samanburði á samkomulaginu frá 1924 og þessum samningi og sýna fram á, að hann er miklum mun verri, svo miklu verri, að það er mjög ótrúlegt, að samningsmenn okkar hafi gert sér fulla grein fyrir, hvað þeir voru að gera. Ég þarf ekki að nefna nema fátt eitt, því að það hefir verið gert af öðrum, svo sem hv. 2. þm. Reykv., og jafnvel hv. þm. G.-K. líka.

Ég skal þá fyrst víkja að 1. gr. samningsins, enda þótt ég játi, að hún skipti ekki mjög miklu máli, en samt er hún greinilegt spor í áttina. Samkv. þessari gr. er báðum norsku síldarverksmiðjunum leyft að starfa hér áfram. Hefir þó önnur þeirra, verksmiðjan á Raufarhöfn, verið reist og rekin um fjölda ára í fullu laga- og heimildarleysi. En nú á hún að löggildast eins og síldarmálin í Krossanesi.

Hitt atriðið er miklu stórvægilegra, að þessum verksmiðjum á nú að leyfa að hækka um 50% þann hluta síldar, sem þær kaupa af norskum skipum, eða úr 40 upp í 60%. Það er viðurkennt í grg., að þetta dregur úr sölumöguleikum ísl. skipa, sem nemur ca. 20 þús. málum síldar. Hv. þm. G.-K. sagði, að það væri aðeins 60 þús. kr. virði, og þótti ekki mikils um það vert. Ég skal að vísu viðurkenna, að þetta er ekki nema lítill keppur af öllu því slátri, sem samningamennirnir hafa borið á borð fyrir Norðmenn. Því hitt er enn verra, að í stað þess, að áður urðu verksmiðjurnar að gera samninga við ákveðinn fjölda skipa, sem ríkisstj. veitir þeim leyfi til að semja við, mega þær nú, samkv. samningunum, semja við „eins mörg erlend fiskiskip eins og þær kynnu að óska, um kaup á nýrri síld til bræðslu“. Þetta getur nú ekki rýmra verið eða liðlegra gagnvart Norðmönnum. En þó er ekki allt hér með talið, því að það, sem yfir tekur, er, að samkv. 6. gr. veitir það eitt, að hafa gert samning um sölu á bræðslusíld, skipunum jafnframt rétt til að selja síld til söltunar í landi, upp í 1200 tunnur herpinótaskip og 700 tn. reknetaskip. Hvað leiðir af þessu? Með því að gera samninga — eða málamyndasamninga — við verksmiðjurnar um að selja þeim síld til bræðslu getur ótakmarkaður fjöldi skipa, eða allur skipafloti Norðmanna, sem veiðir hér við land og ekki fylgir móðurskipum, fengið fullan rétt til þess að selja í land, auk bræðslusíldar, 1200 tn. í salt, ef þau hafa snurpunót, en 700 tn.; ef þau hafa reknet. Norsku verksmiðjueigendurnir þurfa ekki annað en að semja um kaup á 100 eða jafnvel ekki nema 50 tn. af hverju skipi til þess að veita löndum sínum rétt til að selja 1200 tn. af síld í land til söltunar, ef þeim sýnist. Og ég tel engan vafa á, að norsku skipin noti sér þetta. Enginn Íslendingur né íslensk stjórnarvöld hafa neitt við því að segja. Hv. þm. G.-K. þóttist vilja sýna fram á það í ræðu sinni í gær, að þetta mundi ekki nema meiru en ca. 25 þús. tunna viðbót af öllum norska flotanum í hæsta lagi. Réttur Norðmanna til að selja bræðslusíld er aukinn um þriðjung, og næstum tvöfaldað magn saltsíldar, sem þeir mega selja hér. Ég fullyrði ekki, hvað þeir muni gera, heldur hver réttur þeirra er samkv. samningnum. Þetta skal ég sýna með tölum.

Sé gert ráð fyrir, að Norðmenn hafi um 200 veiðiskip hér við land og að 70 þeirra hafi reknet og selji hér 700 tunnur hvert, og 130 skip 1200 tunnur hvert, þá er það samtals 205 þús. tunnur. Eða ef 150 skip hefðu herpinót og seldu í land 1200 tn. hvert, samtals 180 þús. tn., og 50 skip legðu upp 700 tn. hvert, samtals 35 þús. tn., væru það samtals 215 þús. tn. Til samanburðar við þetta má minna á það, að mesta síldarsöltun hér á landi á einni vertíð hefir verið 250 þús. tn. Þar við bætist, að ég hygg, að nokkur ástæða sé til að ætla, að Norðmenn fjölgi mjög síldarskipum sínum hér við land, ef samningurinn verður samþ., af því þeir líta svo á, að afkomuhorfur þeirra batni þó stórlega. Þeir geta þá haft vel verkaða síld úr landi, til viðbótar miður verkaðri síld um borð í skipum. Jafnhliða fjölgun norsku veiðiskipanna og aukinni síldarsölu þeirra í landi verður ísl. skipum smám saman ofaukið. Gangurinn verður þessi :

1. Við það, að Norðmenn leggja meira af afla sínum á land, minnka sölumöguleikar fyrir ísl. veiðiskipin, þeim fækkar, sem síldveiðar stunda, og atvinnuleysi eykst hjá ísl. sjómönnum.

2. Skipum Norðmanna hér við land fjölgar vegna bættrar aðstöðu og aukinna möguleika til að selja aflann í land. Af fjölgun skipanna leiðir það, að meira verður saltað um borð en ella, en af því leiðir aftur, að þegar frá líður minnkar söltun í landi og þar með vinna verkafólks, sem síldarverkun stundar.

Og hvernig á að hafa eftirlit með skipum, sem hafa samninga um sölu á síld til bræðslu, að þeir samningar séu eigi aðeins gerðir til málamynda, til þess eins að fá aðstöðuna til að selja 1200 tn. síldar í land til söltunar? Og hvernig á að fyrirbyggja, að skip, sem hefir fengið að selja í land síld til söltunar, allt að 1200 tunnum, skreppi út fyrir landhelgislínuna og selji í móðurskip aftur? (ÓTh: Hvernig á að koma í veg fyrir, að lög og reglur séu brotnar?) Það á vitanlega að gera með því að leggja einhver viti við. En í samningnum eru engin viðurlög við því, ef Norðmenn seilast til að fara á snið við ákvæði samningsins. Og þá er komið aftur að því, sem Björn Lindal lýsti svo ömurlega á Alþingi 1926, leppmennskunni og fylgifiskum hennar. Hv. þm. G.-K. spurði í gær, hverjir keyptu síldina af erlendu skipunum. Það gera vitanlega lepparnir. Gangurinn verður þessi: Skip kemur upp með 2000 tómar tunnur, selur einhverjum málamyndakaupanda 1000 tunnur og síðan síld í þær, en saltar hitt um borð í skipinu. Seinna kaupir útgerðin aftur af þessum sama manni þessar 1000 tn., þegar skipið fer heimleiðis.

Ég efast ekki um, að hv. þm. G.-K. þekkir svo vel til síldarverzlunar, að hann skilur þetta mætavel.

En svo er eitt enn athugavert í sambandi við þessa 6. gr. samningsins; en það er, að ef Íslendingar torvelda söluheimild Norðmanna með sérstökum lagaákvæðum eða fyrirmælum yfirvalda, þá getur norska stj. hvenær sem er sagt upp kjöttollsívilnununum með aðeins þriggja mán. fyrirvara. Þannig ætla Norðmenn að sjá við þeim leka, að þeir verði ekki aftur útilokaðir eins og 1928, t. d. með nýjum einkasölulögum.

En fari svo, að ófögnuðurinn í síldarverzluninni komist á svipað stig og árið 1927, svo að jafnvel íhaldsmenn sjái ekki annað ráð en það, sem þá var gripið til, þá skilst mér, að slík lög myndu nú hafa í för með sér lokun kjötmarkaðsins í Noregi. Í sambandi við þetta vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. G.-K., hvað átt sé við með orðinu „torveldun“ í 6. gr. Er það torveldun, ef neitað er um erlendan gjaldeyri fyrir síld, sem einhver segist vilja kaupa af norsku skipi? Það væri gott að fá það skýrt nánar.

Afleiðingarnar af þessari samningsgerð eru nú þegar farnar að koma í ljós. Ísl. sjómenn og síldarútvegsmenn sjá voðann. Mótmæli gegn samningnum drífa að hvaðanæfa. Fullyrt er, að kryddsíld sé nú boðin til sölu í Svíþjóð fyrir kr. 13—13,50 tunnan, í stað þess, að í fyrra var verðið samkv. fyrirframsamningum kr. 16—6,50, miðað við innihald.

Í gær átti ég tal við útgerðarmann á Norðurlandi, sem gerði út 4 skip á síld í fyrra og keypti síld af 10 skipum öðrum, sem hann gerði samninga við. Hann kvaðst ekki mundu gera samninga við nokkurt skip fyrir næsta sumar og óvíst, hvort hann mundi þora að gera út sjálfur, og þessi sama saga heyrist úr fleiri stöðum.

Margir munu kannast við það, að undanfarin sumur hafa íslenzk síldveiðiskip legið við bryggjur á Siglufirði og í Krossanesi í tugatali dögum saman, allt upp í viku eða lengur, og beðið eftir afgreiðslu, þegar uppgripaveiði var úti fyrir. Síldin rotnar þá í kösum í skipunum, og allan þennan tíma, sem beðið er eftir afgreiðslu, gætu skipin aflað svo að skipti mörgum þúsundum mála.

Það er vitað, að fjöldi reknetabáta er hættur við síldveiðar vegna erfiðleika á sölu.

Ekki er útgerðarmönnum þessara skipa og báta gert léttara fyrir með samningnum. Þvert á móti. Með ráðnum huga á að svipta þá sölumöguleikum, sjómennina atvinnu- og sjálfsbjargarmöguleikum.

Það vantar mikið til, að ég hafi talið upp alla þá galla, sem eru á samningnum. Ég hefi t. d. ekki nefnt það, að með honum er í raun réttri landhelgisgæzlan að engu gerð gagnvart Norðmönnum. En á það hafa aðrir bent, t. d. hv. 2. þm. Reykv. En af því, sem ég nú hefi sagt, tel ég sýnt, að það sé með öllu ógerlegt að samþ. þetta frv. um staðfestingu samningsins. Þinginu er skylt að fella það umsvifalaust. En þá er að athuga, hvað í húfi er fyrir okkur Íslendinga. Það saltkjötsmagn, sem leyfilegt yrði að flytja til Noregs af þessa árs framleiðslu samkv. samningnum, eru 11500 tunnur. E. t. v. yrði mikill hluti þess kjöts útilokaður frá markaði í Noregi, ef samningurinn yrði felldur. Hæstv. atvmrh. áætlaði verð þess samtals ca. 500 þús. kr. í ræðu sinni í gær. Er hægt að bæta bændum þetta upp á annan hátt og forða þeim frá því skakkafalli, sem af samningsslitum kynni að leiða? Ég tel, að það eigi að vera aðalstarf þingsins í sambandi við frv. það, sem nú er til umr., að finna ráð við því. Umr. og nefndarstörfin ættu að beinast að því fremur en samþykkt samningsins, því að hann er okkur sæmilegast að fella nú þegar. Bent hefir verið á ýmsar leiðir í þessu efni. Má í því sambandi minna á frv. hv. þm. Str. frá 1924, um að láta Norðmenn borga a. m. k. allverulegan hluta þess fjár, með því að hækka tolla á norskar vörur og skattleggja siglingar þeirra að og frá landinu. Ennfremur að skattleggja atvinnurekstur þeirra hér, svo sem síldarbræðslustöðvarnar. Yrði þó, ef tekjuvon ætti að vera af þessum ráðstöfunum, að sigla bil beggja, hafa tollana ekki svo háa, að þeir útilokuðu Norðmenn með öllu; en hinsvegar svo verulega, að landsmönnum væri í þeim mikil vernd.

Þá má og benda á frv. hv. þm. Ak., um að tolla fisk og síld, sem Norðmenn selja hér í land. Loks vil ég geta þess, að ég tel ekki, að útilokað sé, að sjávarútveginum íslenzka yrði gert í bili að leggja eitthvað af mörkum í þessu skyni. Hæstv. atvmrh. virtist að vísu í gær í ræðu sinni vilja gera gys að þeirri hugmynd, að sjávarútvegurinn væri þessa megnugur, og taldi efnahag og afkomu útgerðarmanna flestra benda í allt aðra átt. Ég tel óþarft af hæstv. ráðh. að gera gys að þessari hugmynd eða hlakka yfir örðugleikum sjávarútvegsins. Upphæð, sem litlu nemur fyrir sjávarútveginn, getur haft stórmikla þýðingu fyrir landbúnaðinn, vegna þess, að velta sjávarútvegsins er svo margföld á við veltu landbúnaðarins. Ég verð að játa, að ég er ekki við því búinn að gera nú grein fyrir ákveðnum tillögum um þetta efni. Tel það sjálfsagt verkefni fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar. Mætti það teljast hörmulegt úrræðaleysi, ef n. leggur sig fram og vill vinna að þessu, ef henni ekki tækist að benda á færar leiðir til þess að bæta bændum hallann í eitt ár.

Mér dettur ekki í hug, að til slíkra ráðstafana þyrfti að grípa nú fyrir meira en eitt ár, og tel jafnvel óvíst, að til þeirra mundi þurfa að grípa.

Norðmenn hafa hér svo mikilla hagsmuna að gæta, að mér þykir afarólíklegt, að þeir óski að taka upp tollstríð við okkur Íslendinga, þótt ég telji varlegra að vera við því búinn, að kjötsala til Noregs yrði heft eða gerð stórum erfiðari um eitt ár. Samkv. samningnum eigum við að hafa rétt til að flytja inn 11½ þús. tunnur til Noregs af þessa árs kjötframleiðslu, með þessum svokölluðu lágtollakjörum, 22 norskar kr. á tunnu. En ég hefi það fyrir satt, að útflutningur af fyrra árs framleiðslu hafi ekki orðið yfir ca. 7000 tunnur, og mun verðið hafa verið um 60 kr. fyrir innihaldið í tunnunni.

Mér telst því svo til, að ekki þyrfti nema um ½ millj. kr. til að bæta bændum skaðann, og tel, eins og áður segir, það meira úrræðaleysi en þinginu er sæmandi, ef ekki finnast leiðir til að leggja fram eitthvað nálægt þeirri upphæð. Álit heldur ekki ástæðu til að telja saltkjötið verðlaust með öllu, þótt það komist ekki undir þennan svokallaða lágtoll í Noregi.

Hv. þm. G.-K. vildi afsaka samningsmennina með því, að bændastjórn hefði farið með völdin í Noregi þegar samningarnir fóru fram. Hún hefði verið mótfallin öllum kjötinnflutningi, vegna sinna stuðningsmanna. Nú er þeim steini rutt úr vegi. Ný stjórn hefir tekið við völdum í Noregi undir forustu Mowinckels, og styðst hún einmitt við þær stéttir, sem mestan hagnað hafa af viðskiptum við okkur Íslendinga, siglingum og veiðiskap hér við land. Þessi nýja stjórn hlýtur því að taka ennþá meira tillit til hagsmuna þessara stétta og leggja kapp á, að ekki verði lokað fyrir sölu norskra vara, svo sem veiðarfæra, tunna, mótorvéla, áburðar o. fl. o. fl., hingað til lands.

Áburður hefir verið keyptur frá Noregi undanfarin ár fyrir hátt á þriðja hundrað þús. kr. árlega. Vafalaust gætum við fengið þessar vörur annarsstaðar frá, t. d. frá Englandi og Þýzkalandi, og tunnur og mótorvélar ættum við að geta smíðað sjálfir.

Nei, Norðmenn hafa sízt minni hagsmuna að gæta en við í sambandi við þessa samninga. Þvert á móti meiri, miklu meiri.

Að lokum vil ég svo færa til ummæli tveggja merkra manna um samninginn. Hinn fyrri er forsrh. Norðmanna, Mowinckel. Lætur hann svo um mælt, og eru orðin tilfærð samkv. þýðingu Morgunbl. 12. þ. m.: „Því verður eigi neitað, að af samkomulaginu leiðir talsverða fórn, einnig af hálfu Norðmanna“. — Þetta þýðir á venjulegu íslenzku máli, að aðalfórnin sé af Íslendinga hálfu, — að það séu fyrst og fremst Íslendingar, sem samkv. samningnum leggi fórnina fram. Þetta er og að minni hyggju alveg laukrétt.

Hinn maðurinn er Jón Árnason framkvæmdarstjóri S. Í. S., sá hinn sami, er ásamt Ólafi Thors starfaði af Íslendinga hálfu að samningagerðinni. Hann segir í „Tímanum“ 11. þ. m., að það sé hagsmunamál Íslendinga sjálfra að takmarka kjötinnflutning til Noregs, og „þess vegna áttu Íslendingar upptökin að því að bjóða Norðmönnum að takmarka sjálfir innflutninginn og láta hann fara minnkandi niður að tilteknu lágmarki. Þessi uppástunga fékk góðan róm í Noregi og var ein af meginástæðunum fyrir því, að samningar tókust“.

Þessi yfirlýsing sýnir ágætlega, með hverjum hug íslenzku samningamennirnir hafa unnið að samningsgerðinni. Mér er að vísu óskiljanlegt, að við hefðum þurft að kaupa það dýrt af Norðmönnum, bændastjórninni, að fá að takmarka kjötinnflutninginn til Noregs. Ég hélt, að okkur væri þetta í sjálfsvald sett. En samningamennirnir hafa sýnilega verið annarar skoðunar. Þeir hafa ekki horft í það að kaupa leyfi til að draga úr og takmarka innflutning og sölu á íslenzku saltkjöti til Noregs, með því að auka stórkostlega, næstum því ótakmarkað, það síldarmagn, er Norðmenn fái rétt til að selja hér í land. — Þarna virðist mér starfi samningamannanna rétt lýst, og það einmitt af þeim þeirra, sem sennilega hefir meira kveðið að. — Lýsingin er vel við hæfi.