15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Guðbrandur Ísberg:

Hæstv. forseti! Ég álít rétt að taka það fram nú þegar, að ég tala ekki hér í kvöld f. h. Sjálfstæðisflokksins, þó flokkurinn hafi eftir beiðni minni góðfúslega eftirlátið mér nokkuð af þeim ræðutíma, er hann hefir yfir að ráða.

Eins og hv. þm. G.-K. gat um í útvarpsumr. í gærkvöldi, er ég því mótfallinn, að samningurinn við Norðmenn, sá er nú liggur fyrir, verði samþ. Það, að ég er mjög óánægður með samninginn, samfara því, að ég er þm. þess kjördæmis, sem fríðindaákvæði samningsins til handa Norðmönnum snerta mest, gaf mér tilefni til að æskja þess, að mér gæfist kostur á að koma fáeinum orðum að í þessar útvarpsumr. frá sjónarmiði útgerðarmanna og sjómanna, og þá sérstaklega þeirra, er síldarútgerð stunda.

Í útvarpsumr. í gærkvöldi var efni samnings þess, er hér um ræðir, rakið allnákvæmlega. Fyrst af hv. þm. G.-K. og síðan af hv. 2. þm. Reykv., sem um leið benti á ýmsa galla samningsins. Ég mun því ekki eyða mínum takmarkaða ræðutíma í að rekja allt efni samningsins, heldur aðeins benda á þau atriði í sambandi við hann, er ég tel mestu máli skipta. Kemur þá einkum til álita: Í fyrsta lagi aðstaða vor Íslendinga til þess að ganga til samninga við Norðmenn. Í öðru lagi: hvaða fríðindi samningurinn veitir og í þriðja lagi: hverju við verðum að fórna fyrir þessi fríðindi.

Þennan samanburð er óhjákvæmilegt að gera. Og komi það þá í ljós, að fríðindin séu mjög miklu minni en fórnin, þá fullyrði ég, að engin skynsamleg rök mæli með því, að samningurinn verði samþ.

Þegar samningnum eða samkomulaginu frá 1924 var sagt upp af hendi Norðmanna á öndverðu síðasta þingi, og Norðmenn jafnframt ákváðu að hækka svo toll á íslenzku kjöti, að ógerlegt var með öllu að selja kjöt til Noregs, þá hefði vitanlega legið næst að fara eins að gagnvart Norðmönnum, og byrja t. d. með því að leggja hlutfallslega jafnhátt innflutningsgjald á nýsíld og gera Norðmönnum á þann hátt raunverulega ókleift að selja síld hér í land, hvort heldur var til bræðslu eða söltunar. Ég harma það, að vér Íslendingar skyldum eigi bera gæfu til að stíga þetta skref, og jafnvel lengra í sömu átt. Það hefði átt að nægja til að skapa fullan skilning bæði Norðmanna og Íslendinga á því, að þá var fengið hreint borð á milli þjóðanna, samningar engir, útilokunartollar hjá báðum, en réttmætt að leita samninga á ný, eins og hagsmunaviðhorf þjóðanna þá var, en hinsvegar ekki rétt að einblína eingöngu á samkomulagið vil Norðmenn frá 1924, sem fallið var úr gildi fyrir uppsögn, og sem var orðið okkur Íslendingum óhagstætt, að óbreyttri tollalöggjöf, þótt það í fyrstu kunni að hafa verið mjög vel viðunanlegt.

Innflutningstollur Norðmanna á ísl. saltkjöti er verndartollur og ekkert annað. Hvað lá þá nær en það að athuga, hvaða verndartollum við gætum beitt gagnvart þeim.

Hv. 2. þm. Reykv. benti réttilega á það í gærkvöldi, hve óvenjulega óhagstæðan verzlunarjöfnuð vil höfum gagnvart Norðmönnum. Hann benti á, að við hefðum flutt inn frá Noregi 1930, — en verzlunarskýrslurnar ná til þess árs og eigi lengra — vörur fyrir 7,7 millj. kr., en flutt þangað vörur fyrir 4,9 millj. Við þetta er þó það að athuga, að vörur þær, er við flytjum inn frá Noregi, kaupum við allar til eigin nota, og það er svo að segja eingöngu norsk framleiðsla. En þær vörur, sem við flytjum til Noregs, eru fyrst og fremst síldarmjöl og síldarlýsi, er Norðmenn hafa sjálfir framleitt hér og flytja heim til sín; auk þess nokkuð af lýsi, sem þeir selja út úr landinu aftur, væntanlega með ágóða. Annað er ekki hægt að telja, að þeir kaupi af okkur nema kjötið. Það er sú aleina vara, er Norðmenn kaupa af okkur til eigin nota. Nam sá útflutningur 1930 rúmum 2 millj. kr., en í ár mun hann hafa verið kominn niður í ca. 700 þús. kr.

Því verður ekki neitað með rökum, að 7,7 millj. kr. innflutningur norskra vara gefur margvísleg tilefni til tollálagningar af okkar hálfu, ef við vildum svo við hafa. Má t. d. nefna jarðepli, sem við kaupum mikið af frá Norðmönnum. Væri sannarlega sæmra að kaupa þau frá Dönum, tollfrjáls þaðan, á meðan þörf er fyrir þá vöru og ísl. kjöt er að mestu eða öllu undanþegið tolli í Danmörku.

Auk hagnaðar af vörusölu hingað til lands fá Norðmenn, að kunnugra manna sögn, farmgjöld frá okkur árlega, er nema ca. á millj. kr. Og ég hefi fulla ástæðu til að ætla, að Norðmenn vilji ekki missa þau viðskipti, því þegar ísl. útgerðarmenn fyrir nokkru keyptu fiskflutningaskipið „Heklu“ ætluðu sum norsk blöð alveg að rifna af óhemjuskap yfir slíku tiltæki.

Loks má nefna þann verksmiðjurekstur, sem Norðmenn hingað til hafa haft hér á landi, og mun að ósekju mega líta svo á, að þar hafi Norðmenn einnig nokkurra hagsmuna að gæta, sem þeim stendur ekki á sama um.

Þegar ég tek tillit til þessara atriða allra, er ég nú hefi minnzt á, þá finnst mér alveg furðulegt — og óskiljanlegt, að við skyldum ekki geta fengið þau mjög svo takmörkuðu fríðindi, er í norska samningnum felast, fyrir mjög miklu minni fórn en þá, sem af okkur er krafizt.

Það var rakið hér í gærkvöldi allýtarlega, hver þau fríðindi væru, sem Norðmenn bjóða okkur, og þarf ég því eigi að fullyrða um það atriði. Hitt vil ég leyfa mér að benda á, að Norðmenn skuldbinda sig eigi til þess að kaupa eina einustu tunnu af kjöti frá okkur. Hinsvegar undanþiggja þeir með samningunum tiltekna, mjög takmarkaða, tunnutölu hámarkstolli. Á hinn bóginn er það vitað, að Norðmenn framleiða nú þegar nóg kjöt handa sjálfum sér, og þess vegna benda allar líkur í þá átt, að eigi verði einu sinni unnt að selja í Noregi þá tunnutölu, sem leyft er að flytja inn með lágmarkstolli. Í haust munu hafa verið fluttar til Noregs 6—7 þús. tunnur af saltkjöti. Og sölu þessa kjöts mun ekki lokið ennþá. En jafnvel þó norski saltkjötsmarkaðurinn hefði þolað meira í haust, er síur en svo líklegt, hvað þá heldur vist, að hann þoli 6—7 þús. tunnur næsta haust. Nú er það vitað, að fé var óvenju rýrt í haust sem leið og auk þess slátrað miklu færra fé en venjulega, vegna fjárfjölgunar í mörgum mestu sauðfjárhéruðum landsins. Góður heyafli og lágt verð á kjötinu freistaði manna til að fjölga fénu í von um, að eitthvað kynni úr að rætast. Hið sama skeði haustið áður. En þetta getur ekki gengið svo til lengdar. Næsta haust má búast við, að á markaðinn komi miklu meira af saltkjöti en unnt verður að selja — að óbreyttum freðkjötsmarkaðinum. En bætist það nú við, sem menn óttast mjög, að freðkjötsmarkaðurinn færist saman, allt að því um helming, þá er svo lítið unnið fyrir ísl. bændur með norsku samningunum, miðað við þörf þeirra, að ég tel ekki rétt að fórna síldarútveginum fyrir þau fríðindi. Það þarf þá hvort sem er að leita einhverra óvenjulegra úrræða til þess að gera kjötið að markaðsvöru, t. d. með því að reisa niðursuðuverksm. til þess að sjóða kjötið niður, eins og frændur vorir Danir nú gera, og flytja auk þess fé út lifandi, ef þess væri kostur.

Nú vil ég með nokkrum orðum taka til athugunar fórnarákvæði samningsins — hvaða fríðindi við eigum að veita Norðmönnum samkv. samningnum. Og í því sambandi vil ég taka fram, að í hreinu tollsamningamáli, sem hér liggur fyrir, tek ég að sjálfsögðu ekkert tillit til hinna uppsögðu samninga frá 1924. Ég geng fram hjá því, sem minna er um vert, en tek þau þrjú atriði til athugunar, sem ég tel verulegu máli skipta.

Samkv. 2. gr. er norsku verksmiðjunum heimilað að kaupa 60% af bræðslusíldarþörf sinni. Má gera ráð fyrir, að hér sé a. m. k. um 80 þús. mál síldar að ræða, og þrengist bræðslusíldarmarkaður innlendra manna að sama skapi. Í 6. gr. er Norðmönnum heimiluð sala síldar í land til söltunar, sem þeir, er til þekkja, vita, að vel getur numið 150—200 þús. tunnum, eða nálega eins miklu og við nú flytjum út af saltsíld. Þetta er að mörgu leyti óheppilegt og háskalegt. Í fyrsta lagi rýrir þetta nýsíldarsölumarkað innlendra manna, útgerðarmanna og sjómanna. Í annan stað má ganga út frá, eftir reynslu fyrri ára, að Norðmenn semji við innlenda menn, að salta síld fyrir þá á eigin nafni. Slíkt er eigi unnt að fyrirbyggja, en þetta veldur því aftur, að þýðingarlaust er fyrir ísl. útgerðarmenn að hafa samtök um söltunina, í því skyni að koma í veg fyrir offramleiðslu. Í þriðja lagi má telja víst, að Norðmenn leggi áherzlu á að fá síld sérverkaða í landi til útflutnings á þann markað, Þýzkalands og Póllandsmarkaðinn, sem Íslendingum er sárast um, að af þeim sé tekinn eða eyðilagður með undirboði.

Norðmenn geta eigi verkað þessa teg. síldar á hafi úti, svo nokkru nemi. Til þess þarf of mikla vinnu, og auk þess þarf mikla nákvæmni við ápökkun og vigt, sem næstum ómögulegt er að eiga við úti á rúmsjó, og loks þolir þessi teg. síldar illa geymslu. Sú verkunaraðferð, sem hér um ræðir, er aðeins 5—6 ára gömul hér á landi, eftir því sem kunnugir menn hafa tjáð mér. En hún hefir farið mjög í vöxt, og nú er svo komið, að Íslendingar geta gert sér góðar vonir um vaxandi sölu og vaxandi verð, því enn er skozk síld, sem seld er á sama markaði, seld því nær helmingi hærra verði. Rúmar 70 þús. tunnur voru seldar til Þýzkalands og Póllands síðastl. sumar. Hér er því um mjög mikið hagsmunamál að ræða fyrir íslenzka síldarútveginn, ekki sízt þegar þess er gætt, að sala síldar til Svíþjóðar, sem fram að þessu hefir verið aðalkaupandi okkar af saltsíld, hefir minnkað ár frá ári. Og búast má við, að Danir, vegna örðugleika þeirra, er þeir nú eiga við að búa, kaupi minna af síld á sumri komanda en verið hefir. Af öllu þessu er ljóst, að íslenzkum útgerðarmönnum og sjómönnum er það mikið hagsmunamál, að síldveiðunum hér á landi verði eigi búin bein banaráð., á þann hátt, sem samningurinn við Norðmenn heimilar, ef samþ. verður. Hve mikla hagsmuni eða líklega réttara hagsmunaspjöll hér er um að ræða, má marka nokkuð af því, að einn af þekktustu útgerðarmönnum þessa lands hefir sagt við mig, að hann vildi fyrir sitt leyti heldur en samþ. samninginn við Norðmenn, ganga inn á aukinn bráðabirgðaútflutningstoll á síld og gjald af bræðslusíld, er til samans mundi nema 200—300 þús. kr., miðað við meðalveiði, og er þó síldarútvegurinn sú atvinnugrein, er tiltölulega þyngstar tollálögur hefir að bera. Vil ég í þessu sambandi leyfa mér að benda hæstv. atvmrh. á, að orð þau, er hann lét falla hér í gærkvöldi um það, að bændur mundu fyrst vilja fá að sjá það fé, er útgerðarmenn teldu sig reiðubúna að láta af mörkum vegna nauðsynjar kjötframleiðenda, voru í fyllsta máta óviðeigandi og honum ósamboðin.

Þá er enn eftir ein grein samningsins, sem sannarlega er vert að minnast á, og það er 12. gr., sem snýr að landhelgisgæzlunni. Hv. 2. þm. Reykv. drap á það í gærkvöldi, hversu allar tilslakanir á þessu sviði væru hættulegar. Ég er honum sammála um það. Því hefir aftur á móti verið haldið fram af öðrum, að hér væri eigi um annað eða meira að tala en lögfestingu á því, sem áður hafi verið viðtekin venja. Ég er ekki alveg viss um, að þetta sé hárrétt. En þó svo væri, þá er ég nú samt þeirrar skoðunar, að nokkur munur sé jafnan á venju og beinu lagaákvæði. Óskráðar venjur, jafnvel þó haldnar séu sem lög, verður ekki bent á, á sama hátt og skráð lög. Ég vil leyfa mér að benda á nærliggjandi dæmi til skýringar. Það er föst venja hér á landi, a. m. k. í sveitum, að bjóða og veita gestum, sem að garði bera, einhverskonar beina, ef þeir vilja þiggja. Þetta þykir alveg sjálfsagt. En það þætti áreiðanlega ekki sjálfsagt að fara að lögfesta þennan rétt, gestum til handa. Þá væri eigi lengur um gestrisni að ræða, heldur uppfyllingu skyldukvaðar.

En það, sem sker úr um þetta efni, er þó það, að tilvera greinarinnar sjálfrar sýnir, að Norðmenn hafa ekki talið þetta atriði þýðingarlaust. Ákvæðið er áreiðanlega ekki komið þarna inn fyrir atbeina íslenzku nefndarmannanna. Ég hefi þvert á móti ástæðu til að ætla, að það sé komið inn, þrátt fyrir mótróður þeirra. Öll undanlátssemi á þessu sviði getur orðið stórhættuleg, jafnvel þó hún í sjálfu sér verði að teljast fremur smávægileg. Hér er samningurinn teygður af Norðmönnum inn á svið þjóðarréttarins. En á því sviði á engin eftirgjöf að líðast. Það vona ég, að allir Íslendingar séu a. m. k. sammála um.

Ég hefi nú bent á, að þau fríðindi, sem Norðmenn bjóða okkur með tollívilnun, eru engin lausn á vandræðum bændastéttarinnar íslenzku, er af kjötframleiðslunni stafa. Það skal fúslega játað, að þessi fríðindi eru nokkurs virði, en ég get ekki séð, að þau séu þess virði, sem krafizt er fyrir þau, og þess vegna mun ég greiða atkv. gegn samningnum. Sé þeim hafnað, er að vísu um leið lokið hinum óverulega og þverrandi markaði fyrir íslenzkt saltkjöt í Noregi. En þá getum við byrjað með því að loka á sama hátt fyrir allan flutning erlendrar veiði hér á landi. Næsta skrefið gæti svo eftir atvikum orðið það, að bægja Norðmönnum frá allri flutningastarfsemi hér við land. Og loks mætti orða að leggja toll á allar norskar vörur, um leið og heimild væri gefin að undanþiggja sömu vörur tolli frá þeim þjóðum, sem veittu okkur tollívilnanir í staðinn. Mundi þess þá tæplega langt að bíða, að Norðmenn byðu betri boð.

Hæstv. forsrh. tók það fram í útvarpsumr. í gærkvöldi, að við hefðum þegar notið góðs af tollívilnun Norðmanna. Þetta mun vera rétt. En ég vil þá jafnframt leyfa mér að benda honum á, að Norðmenn hafa líka notið góðs af því, að njóta hér fullra réttinda samkv. samningum frá 1924 síðastliðið sumar þrátt fyrir það, þó hann væri fallinn úr gildi. Fæ ég ekki betur séð en að þetta geti mætt hvað öðru, svo að við stöndum ekki í neinni óbættri skuld við Norðmenn.

Og loks þetta: Ég vil ekki að óreyndu trúa því, að þegar sé ákveðið, að samninginn skuli samþ. Ég vil þvert á móti vona, að hann verði ekki samþ. Og sú er trú mín, að þeir muni verða æ fleiri og fleiri, er sjá og viðurkenna, að með þessum samningi sé bæði frá hagsmunalegu og þjóðarréttarlegu sjónarmiði séð svo langt gengið, að slíkt megi ekki við una. Og það er annað, sem þjóðin mun fljótlega sjá og skilja, hafi hana skort skilning á því áður, og það er, að okkur ber nauðsyn og skylda til að standa vel á verði gagnvart frændum vorum, Norðmönnum.