15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti! Ég ætla mér ekki að fara að halda því fram, að þeir samningar, sem hér liggja fyrir, séu gallalausir. Ef við Íslendingar hefðum ráðið því einir, hvernig þeir voru, þá mundu þeir líta öðruvísi út, en þá væru þeir ekki „samningar“.

Ég ætla ekki heldur að fara á neinn hátt að bera blak af frændum vorum Norðmönnum gagnvart þeim ummælum, sem í garð þeirra hafa fallið á Alþingi og utan þings fyrir ásælni þeirra gagnvart okkur. Þetta er þeirra utanríkispólitík og kemur jafnt fram gagnvart okkur Íslendingum eins og öðrum, þó að þeir persónulega séu vinveittari okkur en nokkurri annari þjóð.

Þrátt fyrir þetta leyfi ég mér að halda því fram, að eins og sakir standa sé óverjandi að hafna þessum samningum nú eins og þeir liggja fyrir. Ég hefi haft tækifæri til að fylgjast ofurlítið með þessum samningum gegnum starfsemi mína í utanríkismálanefnd, og ég leyfi mér að fullyrða, að samningamennirnir af okkar hálfu hafa komizt eins langt og mögulegt var. Það hefir verið talað um það, að aðstaða okkar til samninga við Norðmenn hafi verið betri nú en 1924. Þetta er rétt að vissu leyti, að því leyti, að verzlunarjöfnuður okkar gagnvart Norðmönnum er okkur ennþá hagstæðari nú en hann var þá, en það eru fleiri atriði, sem koma til greina og miklu máli skipta. Fyrir 1924 þurftu Norðmenn kjötsins við, en nú eru þeir á góðum vegi með að fullnægja sjálfum sér hvað kjötframleiðsluna snertir og keppa eftir því. Það er alveg hárrétt, sem hv. þm. G.-K. hefir haldið fram, að eitt hið örðugasta í þessu efni var að þurfa að semja við fulltrúa norskrar bændastjórnar, því að ekkert land á Norðurlöndum hefir jafnötullega gengið fram í því að tryggja innlendum bændum allan þann markað, sem til er í landinu. Það er nú svo komið, að norskir bændur sitja að öllum þeim markaði, sem til er í Noregi. Síðan kjöttollssamningurinn frá 1924 var gerður hafa norskir bændur lagt það mikið kapp á að fallnægja öllum kjötmarkaði þar í landi, að þeir eru komnir það langt á þessari braut, að ekki vantar nema herzlumuninn, svo mikla pressu hafa þeir lagt á þetta.

Það er enginn vafi, að okkar samningamenn hafa átt við mikla erfiðleika að etja, því að aðstaðan er að því leyti verri nú en 1924, að þá þurftu Norðmenn kjötsins við, en nú ekki. Hitt er annað mál, að fáist leyfi til að flytja ísl. kjötið inn í landið, þá mun það verða keypt jöfnum höndum og oftlega tekið fram fyrir það norska.

Ég skal segja það, að undir venjulegum kringumstæðum hefði það ekki verið fjarri mínu skapi að taka harðari tökum á þessu máli og reyna kraftana við Norðmenn, og hefði ég viljað vinna það til, að nokkur stríðskostnaður hefði orðið; en ég er jafnákveðinn í að samþ. þessa samninga nú eins og þeir liggja fyrir.

Við skulum athuga ástandið, hvernig það er nú fyrir ísl. bændum. Eins og sumir hv. þm. hafa talað í þessu máli hér á Alþ. má ætla, að þeim sé það ekki vel ljóst. Fyrst og fremst ganga nú yfir þetta land eins og fleiri þær raunir, að ég þori að fullyrða, að ísl. bændur hafi aldrei átt jafnerfitt að halda sér föstum á torfunni; aldrei átt jafnerfitt með að verjast því að flosna upp vegna verðfalls á afurðum þeirra. Ef svo ofan á þessa baráttu bætist verzlunarstríð við Norðmenn og Englendinga, sem hefði það í för með sér, að aðalútflutningsvara bændanna yrði útilokuð þar að nokkru eða öllu leyti, þá ætti öllum sjáandi mönnum að vera ljóst, hvert alvörumál er hér á ferðinni.

Við vitum ekki hvernig fer um samninga Íslands við England, nú eftir Ottawasamþykktina. Við verðum að vona það bezta, enda þótt við vitum, að samningar hafa t. d. í bili strandað milli Dana og Englendinga. Ef við getum búizt við, að kyrrsettur verði meiri hl. þess kjöts, sem við höfum áður selt til Englands og að lokað verði fyrir markaðsmöguleika í Noregi, þá veit ég ekki, hvar hv. þm. ætla sér að koma fyrir kjöti því, er við framleiðum. Sumir hv. þm. hafa verið að tala um, að það þyrfti að bæta bændum upp það tjón, er þeir yrðu fyrir, ef sviptir yrðu kjötmarkaði í Noregi, sem verða myndi, ef samningarnir næðu ekki samþykki þingsins. En mér er ekki kunnugt um, að ástæður séu svo hjá íslenzkum atvinnurekendum, að þeir geti bætt á sig byrðum. Ég vildi a. m. k. fá tryggingu fyrir því, að þetta væri mögulegt, áður en ég gæti fallizt á, að samningum þessum yrði hafnað. Má vera, að það komi á daginn, að mögulegt sé og hagur fyrir íslenzku útgerðina að veita bændum þau fríðindi, sem tekin myndu af þeim með því að fella samninginn, en áður en það er sýnt, mótmæli ég því f. h. þeirra landsmanna, sem ég er hér fulltrúi fyrir, að honum sé vísað á bug.

Hv. þm. Ak. minntist á það, að vegna góðs heyskapar og lágs kjötverðs hafi íslenzkir bændur sett á meira af fénaði en undanfarið. Verður það til þess, að meira berst á kjötmarkaðinn næsta haust en verið hefir upp á síðkastið, því að bændur munu leggja allt kapp á að koma út vörum sínum. Verður því að halda öllum leiðum opnum fyrir bændum í þessu efni.

Þegar litið er til kjötliðsins í samningunum, verður að segja, að hann hafi tekizt vonum framar. Kjöttollurinn hefir verið lækkaður niður í þriðjung þess, sem var, og ég sé ekki annað en að íslenzkir bændur megi þar vel við una. Sumir hafa verið að fetta fingur út í það, að með samningunum er norski kjötmarkaðurinn takmarkaður ár frá ári um nokkurt skeið. En einmitt þetta atriði varð til þess, að svo hagkvæmir samningar náðust um kjöttollinn, sem raun varð á.

Þó hefir enn meira verið ráðizt á þann lið samningsins, er að síldveiðunum lýtur. En ég hefi nú ekki sannfærzt um, að þar sé svo mjög þokað frá því, sem verið hefir, að hægt sé að segja, að síldarútvegurinn sé verr kominn en áður. Það er ekki nema grýla, að mikið sé í húfi, þótt norskum síldveiðiskipum, sem hér hafa veiðileyfi, sé heimilað að selja til söltunar ofurlítið hækkaða tunnutölu frá því, sem áður var.

Þá hefir verið talað um það, að norskir síldveiðimenn og verksmiðjur myndu gera pro forma samninga, til þess að geta farið í kringum 1. Finnst mér það ekki eiga við hér í Alþingi, enda þótt menn séu Norðmönnum gramir, að gera ráð fyrir slíku. Ef Norðmönnum er hagur að þessum samningum, þá munu þeir ekki gera slíkt. Myndu þeir sjá, að þeir eyðilegðu með því aðstöðu sína til að halda samningunum óbreyttum til langframa, ef hafin væru af þeirra hálfu almenn og opinber samtök til að fara í kringum þá með svikum, því að þetta eru engir eilífðarsamningar, og er hægt að segja þeim upp með 6 mán. fyrirvara. Ef þessi hræðsla nokkurra hv. þm. reynist grundvölluð, þá er ekki annað en segja samningunum upp. Ef það sýndi sig, að kjötsalan til Noregs væri lítils virði, þá er líka hægurinn hjá að segja þeim upp. En meðan allt er í óvissu um ísl. kjötsölu, t. d. í Englandi, væri það fjörráð við íslenzkan landbúnað að ganga ekki að þessum kostum.

Það má vera, að á einhvern hátt sé gengið á hagsmuni síldarútvegsins með samningum þessum. En hagsmunir bænda eru þar tryggðir og bættir frá því, sem áður var. Og ef svo reyndist, að hér lenti saman hagsmunum bænda og hagsmunum síldarútvegsmanna, þá er ég ekki í nokkrum vafa um það, hverjum ber að víkja. Landbúnaðurinn stendur undir lífi helmings þjóðarinnar og hefir löngum fleytt henni drýgst. Svipað verður ekki sagt um síldarútveginn enn sem komið er, og dettur mér þó ekki í hug að gera lítið úr þeim auðæfum, sem síldarmiðin eru okkur Íslendingum, og veit ég þó að við eigum eftir að nota þau betur seinna. En fram að þessu hefir landbúnaðurinn þolað samanburð við síldarútveginn að því er til þess kemur, að halda uppi lífi og menningu þjóðarinnar. Mun ég því greiða atkv. með samningum þessum, á meðan bændum er ekki tryggður kjötmarkaður á annan hátt.