15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Héðinn Valdimarsson:

Hv. þm. G.-K. vissi, að ég ætlaði ekki að taka aftur til máls, heldur ætlaði hv. þm. Seyðf. að tala. Þess vegna vék hann sér að mér.

Það er algerlega og vísvitandi ósatt hjá þm., að ég hafi sótzt eftir að setjast í norsku samninganefndina, og ég skora á þm. að sýna það á nokkurn hátt. Engin ósk hefir komið fram um það, hvorki hjá mér eða öðrum, en hitt er aftur víst, að enginn jafnaðarmaður hefði farið eins að ráði sínu, ef hann hefði verið í nefndinni, eins og þm. G.-K. Það er sannanlegt með vitnum, að fyrst þegar samningurinn var ræddur í utanríkismálan., þar sem ég var viðstaddur, þá var ég eini maðurinn, sem kom með gagnrýni á samninginn.

Út af birtingu samningsins vil ég lýsa yfir því, að ég ber enga ábyrgð á heitum Ólafs Thors. Ég svík ekki heit hans með því að birta samninginn vegna þess að heit hans geta aldrei bundið mig. Það, sem hann er hræddur við nú, er það, að svik hans sjálfs komist upp um síðir.

Þá vill hann taka það, sem hann hyggur sóma af samningnum, af Jóni Árnasyni. Ég held, að Jón Árnason hafi ekki gert þetta verk vel. En hitt er víst, að Ólafur Thors á engan þátt í því, sem er minnst vont í þessum samningi, kjöthlið samningsins. Það er von, að slík mál verði honum ofviða, sem ekki þekkir síld frá sauð. Það er slíkt um hann og nafna hans einn, sem var kallaður Óli norski og þótti rogginn með sig. Hann sagði: „Mig getur allt, bæði til sjós og lands“. En sá er munur á honum og Óla norska, sem var laginn á marga hluti, að þessi nýi Óli norski heldur, að hann geti allt, en kann ekki til neins.