15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Frsm. (Bergur Jónsson):

Ræðutími minn er svo stuttur, að ég get ekki sagt nema lítið eitt af því, sem ég ætlaði.

Ég vil benda á, að eftir þeim rökum, sem fram eru komin, og þegar tekin er aðstaðan nú og 1924, þá er ekki hægt að segja með réttu, að þessi samningur sé óhagstæðari en samningurinn frá 1924. Það verður að athugast, að kjötframleiðslan hefir aukizt að miklum mun í Noregi, og að nú ríkir alstaðar í heiminum sem afleiðing kreppunnar tollaverndar- og innilokunarstefna. Allar þjóðir vilja nú búa að sínu og ekki kaupa afurðir, sem þær sjálfar geta framleitt, nema sem allra minnst. Ennfremur, að bændastj. er nú við völd í Noregi.

Þetta allt sýnir, að aðstaðan var eins erfið fyrir samningamenn okkar eins og verið gat. Og eins og sýnt hefir verið fram á með skýrum rökum, þá eru afbrigðin ekki það mikil, ef þau eru nokkur í veruleikanum, að hægt sé að segja, að breytt hafi verið til hins verra. Ég ætla aðallega að snúa mér að einni aðalspurningu í þessu máli, sem virðist verða að svara, hvort ekki sé of mikill ábyrgðarhluti fyrir Alþingi að fella þennan samning, eins og nú standa sakir. Ég hika ekki við að svara þeirri spurningu játandi. Ég hefi fengið þær upplýsingar hjá þeim mönnum, sem kunnugastir eru á þessu sviði, að kjötsöluréttur vor til Noregs samkv. samningnum sé 1½ til 2 millj. kr. virði þessi fyrstu tvö ár. Það eru meiri peningar en ísl. bændastétt má án vera. Þetta gildir svo að segja alstaðar á landinu, en ég vil taka það fram, að fyrir mitt kjördæmi hefi ég sérstaka ástæðu til þess að krefjast þess, að þessum kjörum sé ekki kastað burt með því að leggja út í tvísýnt tolla- og viðskiptastríð við Norðmenn, eins og hlýtur að verða afleiðingin, ef samningurinn verður felldur. Það stendur svo á í þessu héraði, eins og víðar á landinu, að það er ómögulegt fyrir bændur að selja kjöt á erlendan markað nema saltað. Þar eru ekki frystihús og verður ekki komið upp, vegna aðstöðunnar. Ef þess vegna væri kippt burt þessum möguleika eða hann settur í hættu, þá væri þar einhverjum allra bezta, og í sumum tilfellum eina tekjustofni bænda kippt burt. Það þýðir ekkert fyrir hv. 2. þm. Reykv. að benda þessum héruðum til kaupstaðanna. Markaðurinn er svo takmarkaður.

Þá sagði sami hv. þm., að ríkisstj. ætti að greiða bændum kjötið. Ég get sagt það fyrst og fremst, að ég veit það, að ísl. bændur hafa meiri sómatilfinningu en það, að þeir vildu þiggja úr ríkissjóði slíkt ölmusufé. Og þeir mundu ekki þakka okkur það, þingmönnunum, ef við gerðumst svo ábyrgðarlausir, að í stað þess að ganga inn á samninginn, sem eftir öllum aðstæðum er eðlilegur, þá færum við að auka byrðar ríkissj. með þeim greiðslum, sem þeir gætu fengið frá erlendum þjóðum sem verð fyrir sína framleiðslu. Og þó að hv. 2. þm. Reykv. segi, — vafalaust í agitations-tilgangi, — að þetta mundi ekki nema meiru fé en fer í ríkislögregluna, þá veit hann vel, að það nemur miklu meiru. (HV: Það, sem á að fara í ríkislögreglu). Nú, um ófyrirsjáanlega framtíð. En það verður líka mikið verðmagn kjöts sent til Noregs til 1937, en til þess tíma getur samningurinn gilt.

Ef eitthvað þykir sérlega varhugavert við þennan samning, þá ættu menn að athuga, að við höfum rétt til að segja honum upp með hæfilegum fyrirvara. En við getum notað tímann á meðan til þess að hagræða landbúnaðinum svo, að við þurfum ekki að vera upp á þennan markað komnir.

Ég vil taka undir með hv. þm. G.-K., að mér finnst það koma úr hörðustu átt, að jafnaðarmenn skuli nú berjast á móti þessum samningi með þeim aðalrökum, að verið sé að hleypa erlendum mönnum inn með atvinnurekstur, mennirnir, sem aftur og aftur hafa á þingi borið fram till. um það að hleypa erlendum skipum að landinu og erlendum atvinnurekendum. Á síðasta þingi bar hv. þm. Seyðf. fram einar þrjár slíkar till. fyrir sitt kjördæmi og Austurland. Sama má segja um formann flokksins. Hann hefir aftur og aftur sýnt, að hann telur sjálfsagt, þegar ísl. verkalýð vantar atvinnu og ísl. vinnuveitendur eru ekki þess um komnir að veita hana, að leita til erlendra manna um aukna atvinnu. Í þessu er ekkert samræmi hjá þessum hv. þm. eða þeirra flokksmönnum. Það kemur algerlega í bága við allt, sem þeir hafa áður sagt, ef þeir ætla áfram að berjast á móti kjöttollssamningnum á þessum grundvelli. Það geta þeir ekki gert, nema ganga yfir sínar gömlu skoðanir sem lík.