15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Ólafur Thors:

Ég hefi eina mínútu til umráða, og vil nota hana til þess að láta í ljós þær óskir og þær vonir, að sjálfstæðismenn láti ekki blekkjast af þeim fagurgala, sem sócíalistar hafa haft í frammi í þessu máli. Ég vænti þess, að þeir geti aðhyllzt það, sem kom fram í ræðu minni og hæstv. forsrh., og að þeir hafi glöggan skilning á því, að ef nokkurntíma hefir verið þörf á því, að sjávarútvegsmenn hliðruðu til fyrir bændum, þá er sú þörf fyrir hendi nú. Og ég vænti þess, að þau rök, sem við formælendur samningsins höfum fært fram, vegi þyngra en glamuryrði sócíalista í málinu. Ég hefi gert mitt til að hrekja þau glamuryrði. Sama hefir hæstv. forsrh. gert og aðrir formælendur samningsins. Ég óska þess af heilum hug, að þeir, sem hafa hlýtt á mál okkar, fari eftir því ráði, sem hv. þm. Seyðf. gaf í lok ræðu sinnar, að menn meti meir rökin en staðhæfingar og glamuryrði í þessu máli. Ef menn gera það, þá kvíði ég engu um framgang þessa máls. Þá er ég viss um, að samningurinn nær samþykki Alþingis og hlýtur hylli kjósendanna í landinu.