22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. Ak. leggur mikla áherzlu á það, hvað okkur sé óhagstætt að framlengja gömlu verzlunar- og siglingasamningana við Noreg, sem gilt hafa um áratugi. Ég vil nú segja hv. þm. það, að þeir samningar, sem nú gilda milli Norðmanna og Íslendinga, a. m. k. hinn almenni verzlunarsamningur, eru yfirleitt um svona rétt venjuleg verzlunarviðskipti, eins og þau gerast milli siðaðra þjóða í Evrópu. Í hinni hörðu viðskiptabaráttu, sem átt hefir sér stað á síðustu árum milli þjóða í Norðurálfunni, hefir slíkum samningum í mjög fáum tilfellum verið sagt upp. Við vitum um hið harða viðskiptastríð, sem verið hefir milli Svía og Þjóðverja, Dana og Þjóðverja og Hollendinga og Þjóðverja að undanförnu. T. d. hafa Þjóðverjar nú svo að segja lokað landi sínu fyrir dönskum landbúnaðarafurðum. Þrátt fyrir þetta hafa þessar þjóðir ennþá ekki sagt upp sínum gömlu verzlunarsamningum. Sama er að segja um Englendinga; þeir hafa ekki heldur enn sagt upp sínum „beztukjara“ samningum við aðrar þjóðir. Jafnvel þó til þess dragi, að við segðum upp þessum samningi, t. d. fyrir næstu áramót, til þess að hann gilti ekki nema eitt ár, þá höfum við í höndum öll þau meðul, sem þarf til þess að forðast svo kallaðan yfirgang Norðmanna hér. Ef við þá kæmumst að þeirri niðurstöðu, að heppilegast væri að taka ráð hv. þm. Ak., að tolla alla veiði, sem Norðmenn geta selt í land samkv. fiskiveiðalögunum, þá gætum við notað það til hins ýtrasta.

Fleira ætla ég ekki að benda á í þessu sambandi. En hitt, að hinn almenni verzlunarsamningur við Norðmenn gildir eitt ár eftir að honum er sagt upp, það setur okkur ekki stólinn fyrir dyrnar í neinu. Það gæti e. t. v. heldur orðið til þess að hindra okkur í að gera þær ráðstafanir, sem verða mundu okkur sjálfum til skaða. Hversvegna ættum við ekki að verzla við Norðmenn í þeim tilfellum þegar við fáum beztu kjör hjá þeim? Ég hygg, að þó fjandskapur yrði mikill milli þjóðanna, þá myndu jafnvel íslenzkir útgerðarmenn ekki síður en aðrir vilja kaupa af Norðmönnum þá hluti, sem þeir fá ódýrasta þaðan. Að halda slíkum viðskiptum áfram í sama horfi og verið hafa, yrði vitanlega niðurstaðan, þó samningar um kjöttollsívilnanir og veiðihlunnindi strönduðu. En að ætla sér að nota þá almennu verzlunarsamninga sem repressalia á Norðmenn, svo að þeir verði betri viðureignar í viðskiptum um kjöttollsmálið, er vitanlega meiningarlaust, því það mega allir vita, að ef Íslendingar og Norðmenn fara í hár saman út af þessum málum, þá verða Íslendingar að sjá sér farborða með annan markað fyrir það kjöt, er þeir hafa flutt til Noregs, og til samningsslita frá okkar hendi getur ekki komið, nema slíkir möguleikar séu fyrir hendi.

Um siglingasamninga milli landanna er það að segja, að þeir eru eins og þeir samningar, sem hér liggja fyrir, uppsegjanlegir með 6 mán. fyrirvara. Ég hygg því, að ekkert sé að óttast við þetta ákvæði um framlengingu verzlunar- og siglingasamninganna, og ef þessir samningar, sem hér liggja fyrir, verða samþ., þá mun ríkisstj. að sjálfsögðu afturkalla uppsögn hinna samninganna frá 6. júlí síðastl.

Þá ræddi hv. þm. Vestm. um, hvort ekki mundi vera rétt að gefa stj. nú þegar, jafnframt því sem samningarnir yrðu samþ., heimild til þess að segja þeim upp fyrir næstu áramót. Það væri óneitanlega alleinkennileg ráðstöfun, að gefa slíkt umboð, sérstaklega þegar á það er litið, að stj. þarf ekkert umboð til þess að segja upp samningum eins og þessum. Slík þál. væri því ekkert annað en áskorun um að segja upp samningunum þegar í haust, og ég fyrir mitt leyti vildi þá heldur ráða frá því að samþ. samningana með slíku fororði.

Hv. þm. Vestm. spurði ennfremur stj., hvort hún mundi hafa forgöngu um uppsögn samninganna, ef þeir í framkvæmdinni reyndust verri en það ástand, er verið hefir. Þar til er því að svara, að afstaða stjórnarinnar til niðurstöðu samninganna mun vera lík og afstaða hv. þm. sjálfs. Stj. er það ljóst, að samningarnir hafa á sér galla, en hún telur kostina það meiri, að þeirra vegna beri að samþ. samningana. Ég get ekki betur skilið en að hv. þm. hafi sama álit á þeim. Hv. þm. talaði um, að í fiskiveiðalöggjöfinni væru ákvæði, sem ekki væru betra en ákvæði samningsins. Verð ég að taka það sem nokkra viðurkenningu til stjórnarinnar á afstöðu hennar til samninganna, þó ég hinsvegar búist ekki við, að hann beygi sig að öllu leyti fyrir kenningum stjórnarinnar í þessu efni.

Hv. þm. og stj. eru sammála um það, að samþ. samningana og halda þeim meðan við teljum þá okkur í hag. Aðstæðurnar geta breytzt á ýmsa lund, kjötmarkaðurinn getur breytzt og síldarmarkaðurinn sömuleiðis. Okkar möguleikar til þess að segja upp samningunum geta batnað, en afstaða Norðmanna versnað. Það, að stj. leggur samninga fyrir þingið, þýðir ekki, að hún sé að biðja það um jafnóhagganlega lagasetningu og 10 boðorð Móse, heldur það, að stj. og samninganefndin telur þessa samninga hagstæða fyrir Íslendinga eins og nú er ástatt um hagi þeirra. Ég vil endurtaka það, að ég get vel hugsað mér, að Íslendingum kunni að opnast leið til samninga við aðrar þjóðir, sem geri okkur fært að segja upp þessum samningum við Norðmenn, og það kannske fyrr en seinna, en þetta er því aðeins hugsanlegt, að mögulegt verði að fá jafngóðan markað fyrir saltkjötið í öðru landi en Noregi. Ef slíkir möguleikar skyldu opnast, og ef samningar tækjust við ríki, sem væri þess megnugt að kaupa af okkur mestar þær vörur, sem við höfum að selja, fyrir utan það, sem við seljum til Miðjarðarhafslandanna, þá mun ég ekki verða því fylgjandi að kaupa sama hlutinn á tveim stöðum. Ef svo færi, að þingið þá féllist á að gera gagnkvæma verzlunarsamninga og kaupa sömu vörur aðeins frá einu ríki gegn því, að það keypti af okkur þær vörur, sem við þurfum að selja, þá væri kominn möguleiki til þess að endurskoða samninga við Norðmenn. En þetta fer allt eftir þróun viðskiptanna í Evrópulöndunum á næstu árum.

Hv. þm. Ak. var ákaflega illa við það, að Norðmönnum þættu samningarnir „gunstugir“ sérstaklega í pólitískum og menningarlegum skilningi og vildi gefa í skyn, að Norðmenn teldu sig með samningnum öðlast möguleika til stjórnarfarslegra yfirráða hér, en þessi ummæli þýða ekki annað en það, að viðskipti milli þjóðanna verði bæði stjórnarfarslega og menningarlega séð „gunstug“ fyrir báðar þjóðirnar, það þýðir ekkert annað en góðan tón í viðskiptum þjóðanna. Annars var þetta skeyti, sem hv. þm. las, aðeins venjulegt hlaðaskeyti kryddað með sterkum lýsingarorðum, sem fræðimenn í þessum efnum mundu ekki vilja viðhafa, og ég held a. m. k., að réttara sé að lesa heldur samninginn sjálfan til þess að mynda sér skoðun um hann. Það er vitanlegt, að Norðmenn álíta samninginn það góðan fyrir sig, að hann sé betri en enginn. Íslendingar hafa yfirleitt, fyrir utan fáeinar undantekningar, hið sama að segja um samninginn fyrir sitt leyti. Það mun aldrei hægt að gera þá samninga milli ríkja, sem aðeins vektu óánægju í báðum löndum. Ef hv. þm. vill ekki gera sig ánægðan með aðra samninga en þá, sem blöð beggja aðilja tækju með gráti og gnístran tanna, þá fær hann aldrei þá samninga, sem hann getur sætt sig við. Þeirri viðureign, þar sem hvorir tveggja aðilja halda fast á sínum málstað og við höfum gagnvart Norðmönnum, nærtæk rök, má ekki snúa. við, eftir að samningar eru komnir á, á þann hátt, að við Íslendingar tökum öll rök, sem Norðmenn færa fram heima í sínu landi, til þess að sýna, að þeir hafi hag af samningunum. Norðmenn mega ekki heldur taka okkar rök fyrir því, að við höfum haft hag af samningunum. Þjóðirnar hvor fyrir sig mega ekki gera þá ályktun, að úr því hin þjóðin sé ánægð og bendi á hagnað sinn af samningunum, þá séu samningarnir vondir og því réttast að eiga ekki við þá, heldur að láta allt sundrast. Sannleikurinn er sá, að ef tónninn út af samningunum er góður hjá hvorri þjóð fyrir sig, þá er það einmitt sönnun fyrir því, að samningarnir séu góðir.

Hv. þm. Vestm. minntist á hagstæðan og óhagstæðan verzlunarjöfnuð sem grundvöll fyrir verzlunarsamninga milli ríkja, og virtist hann byggja á þeirri reglu, að land, sem hefði óhagstæðan verzlunarjöfnuð gagnvart öðru landi, eins og við höfum gagnvart Norðmönnum, gæti fengið allar sínar óskir í viðskiptamálunum uppfylltar. En þó að verzlunarjöfnuður sé eitt af þeim stóru atriðum, sem máli skipta í slíkum samningum, þá hjálpar ekki að veifa því eina vopni. Hv. þm. er aðalkonsúll Þjóðverja á Íslandi. Honum er kunnugt um það, að þrátt fyrir það, þó við kaupum meira af Þjóðverjum heldur en þeir af okkur, þá hefir undanfarið jafnt og þétt verið hert á ýmsum hömlum á innflutningi íslenzkra vara til Þýzkalands, nú síðast svo á fiski og síld, að það stappar nærri, að telja verði sama sem bann við þeim vörum. Þar við bætist, að valutu þá, sem við höfum fengið þar fyrir okkar framleiðsluvörur, er við höfum selt, höfum við aðeins getað notað til kaupa á þýzkum vörum. Hv. þm., sem aðstoðað hefir stj. dyggilega í þessum samningum, hefir í sambandi við sína þátttöku komizt að þeirri dýrkeyptu reynslu, að óhagstæður verzlunarjöfnuður er ekki einhlítur til þess að fá hagkvæma samninga. Annað atriði, sem mikið er litið á, er það, hve mikill hundraðshluti það er af verzlun hvorrar þjóðar fyrir sig, sem felst í viðskiptum hlutaðeigandi samningsaðilja. Þetta er grundvallaratriði, sem alltaf verður Íslendingum í óhag. Þá er ennfremur á það litið, hvaða möguleika ein þjóð hefir til þess að sleppa á einu augnabliki markaði, sem hún hefir haft í öðru landi fyrir sínar vörur. Aðstaða okkar gagnvart Norðm. var að þessu leyti hin versta hvað kjötið snerti á þessu ári, og sýnilega verður hún einnig vond á næsta ári.

Okkur dugir það ekki gagnvart Norðmönnum, Þjóðverjum eða Englendingum að veifa verzlunarjöfnuðinum einum. Okkur þýðir ekkert að segja, þó við höfum óhagstæðan verzlunarjöfnuð við þessar þjóðir. Við gerum ekki samninga nema við fáum betri kjör en áður, því að slík afstaða frá okkar hendi leiddi aðeins til meiri dauða fyrir okkar verzlun, heldur verður að liðka ágreiningsmálin.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að þeir ágallar eru á samningnum, að Norðmönnum er heimiluð veiði í okkar landhelgi, en þetta er gömul saga, þessa heimild hafa þeir haft. En einmitt af því að þetta er gömul saga, þá er ekki rétt að vera að rifja hana upp nú, þegar stj. er nýbúin að gera samninga eftir eindreginni ósk Alþingis, og án nokkurrar aths. frá því, um að hin gömlu réttindi Norðmanna ættu að falla niður.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál að þessu sinni. Hygg, að langar umr. hér eftir hafi ekki mikið að segja. Megindrættir málsins eru þegar skýrir orðnir undir umr., og eftir að hv. n. hefir nú lagt fram einróma meðmæli sín með frv. þykir mér fyrirsjáanlegt, að frv. nái samþykki. Væri gott, ef hægt væri að hraða afgreiðslu málsins til hv. Ed.