22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að halda hér langa ræðu að þessu sinni. Höfuðatriði málsins eru þegar fullrædd. Auk þess hefir hæstv. forsrh. hrakið í ræðu sinni hér í dag öll þau andmæli, sem komið hafa fram gegn samningunum. — Hv. þm. Vestm. gerði grein fyrir sinni afstöðu til málsins með langri og ýtarlegri ræðu, og þó ég geti ekki verið honum sammála um margt, sem hann sagði, þá verð ég að viðurkenna, að ég get vel skilið afstöðu hans. Hv. þm. sér margt athugavert við samningana, en hinsvegar sér hann marga kosti við þá, og hann skilur vel okkar erfiðu aðstöðu að ýmsu leyti. Ef allir hv. þdm. hefðu þegar á frumstigi málsins tekið því með jafnmikilli dómgreind og skilningi og þessi hv. þm. hefir gert, þá hefðu umr. um það fallið í ákjósanlegri farveg en orðið hefir. Jafnvel þótt einstaka atriði í ræðu hans séu þess eðlis, að ég geti ekki aðhyllzt þau, þá tel ég þó, að ég geti vel við unað þá gagnrýni, sem hann hefir fram borið. Ég vil ekki lengja þessar umr. með því að fara nú að gera sérstaka grein fyrir einstökum atriðum, sem við erum ekki sammála um. Ég get um þennan ágreining, sem er okkar á milli, vísað til minnar frumræðu, sem ég flutti við 1. umr. þessa máls.

Ég vil svo víkja örfáum orðum að ræðu hv. þm. Ak. Hann sagði, að Norðmenn hefðu með þessum samningi öðlazt rétt til þess að selja í land 150—200 þús. tn., og þessi réttur væri sama og réttur til að salta í landi. Þetta er náttúrlega sama og að segja, að það að gera samninga af hendi Íslendinga við Norðmenn sé það sama og að sá samningur sé með öllu brotinn af hendi hins aðilans. Hv. þm., sem sjálfur er lögfræðingur og þessu kunnugur, veit, að í samningnum eru engin ákvæði, sem heimila Norðmönnum að salta eina einustu tunnu hér á landi. Þegar hv. þm. heldur þessu fram, þá liggur í því, að hinn aðilinn með aðstoð Íslendinga brjóti þennan samning í öllum höfuðatriðum. Hann gengur út frá því, að Íslendingar séu reiðubúnir til að selja sig til þess að vera böðlar á ísl. hagsmuni erlendri þjóð til framdráttar. Ég vil að ósekju ekki gera Íslendingum þessar getsakir, þó þeir menn kunni að vera til, sem eru þannig skapi farnir, að þeir vilja ljá sig til slíks óþrifaverks. Ég vil benda hv. þm. á það, að meginatriði þessa máls er það, hvort sem samningurinn verður felldur hér á Alþingi eða samþ., að íslenzkir böðlar hafa þessa aðstöðu til þess að berja á bræðrum sínum, ef þeir vilja samkv. heimildum fiskiveiðalöggjafarinnar, sem ég held því miður, eins og ég hefi áður tekið fram, að sé óbreytanleg. Norðmenn hafa þann rétt að selja í land 500—700 þús. tunnur af hverju veiðiskipi. Ef veiðiskipin eru 200, þá nemur þessi réttur 140 þús. tunnum, þó samningurinn verði ekki samþ. Munurinn er, ef samningurinn verður samþ., sá eini, að þessar 140 þús. tunnur hækka um 25 þús. tunnur, þegar mikið er í lagt. En nú er það svo, að þessi auknu réttindi öðlast þau skip ein, sem ekki hafa samband við móðurskipin og auk þess hafa samning um sölu á bræðslusíld við norskar síldarverksmiðjur yfir allt síldveiðitímabilið, „sæson kontrakt“ eins og það er kallað á norsku. Menn verða að hafa það hugfast, að þessi fríðindi til þess að hagnýta sér íslenzka þrælslund eru fyrir hendi, hvort sem samningurinn er gerður eða ekki í nægilega ríkum mæli til þess að rífa niður íslenzkt atvinnulíf. Þetta eru því ekki rök hjá hv. þm. heldur rakafals. Og þar sem slíkt rakafals hefir komið fram í blaðinu „Heimdalli“, þá er það því til mikillar minnkunar. Það verður að ræða þetta mál þannig, að það sé viðurkennt, hver séu réttindi Norðmanna, ef samningurinn verður ekki gerður, og svo, hver réttarauki fylgir samningnum. Það er tilgangslaust fyrir þá, sem vilja fella þennan samning, að ætla sér að gera það með því að strika yfir þá staðreynd, sem öllum er kunn, að Norðmenn hafa mestan hlutann af þeim réttindum, sem þeim með samningnum er tryggður. Það er því ekki réttmæli, að það sé „rothögg“ á íslenzkan sjávarútveg, þó samningurinn verði samþ. En hitt kann að vera rétt, að þau ákvæði í fiskiveiðalöggjöfinni, sem að mínu áliti eru óbreytanleg, séu svo veik um vernd Íslendinga, að í skjóli þess veikleika geti Norðmenn hagnýtt sér þau eftir alþjóðarrétti. Ef svo er, þá játa ég, að þær till., sem þessi hv. þm. hefir gert um skatta og tolla á innflutningsvöru á þessu sviði, geti komið til alvarlegrar umr. Eins er rétt, sem hv. þm. sagði, að kjötmarkaðurinn er alltaf að þrengjast. Það er ómótmælanlegt að sú staðreynd, sem átti þátt í því, að stj. og íslenzku samninganefndarmennirnir töldu, að þetta ákvæði um niðurskurð á kjötmagninu væri þess eðlis, að það væri ekki rétt að veita því svo fasta mótspyrnu, að samningarnir væru látnir stranda á því, og það vegna þess, að þó að samningarnir séu okkur óhagstæðir, þá er það jafnvíst, að það magn, sem við fáum að flytja til Noregs, er einasta lausnin, sem fyrir hendi er til þess að koma kjötinu á markað, og er ekki sjáanlegt, að hægt sé að veita þeirri þörf útrás á annan veg.

Hæstv. forsrh. gerði grein fyrir því, að það væri ekkert neyðarúrræði fyrir Íslendinga, þó verzlunar- og siglingasamningarnir væru látnir halda áfram að gilda, ef samningurinn verður gerður. Ég þarf engu við að bæta hina ýtarlegu greinargerð hæstv. forsrh. Ég vildi bara benda hv. þm. Ak. á það, þar sem hann talar um, að okkur sé svo mikil niðurlæging að þessum samningi, að við skulum láta bjóða okkur annað eins og þetta á því herrans ári 1933! að hér er ekki neitt, sem þarf að fjargviðrast út af. Það er engum misboðið. En það kann að mega segja, að Alþingi sé misboðið, þegar verið er að tefla fram slíkum rökum, sem hv. þm. hefir komið með, og eins yfirleitt með öllu því aðkasti, sem við samningamennirnir höfum orðið fyrir eftir að hafa innt af hendi okkar starf eftir beztu getu og beztu vitund. Ég hefi ekki þurft að kvarta undan þessum hv. þm., heldur beini ég þessu til hv. 2. þm. Reykv. og samherja hans. Þeir eru þeir einu hér í hv. d., sem hafa talað þannig um þetta mál, bæði gagnvart samningamönnunum og samningaþjóðinni, að ég álít, að af því geti stafað hin mestu vandræði. Ég geri ekki ráð fyrir, að margir muni fást til þess að standa í samningum við erlendar þjóðir, ef þeir eiga von á því, að öllu sé snúið upp á versta veg fyrir þeim og jafnvel núið því um nasir, að þeir hafi þegið mútur og þeim gerðar margar fleiri viðlíka getsakir, þó að bæði hv. 2. þm. Reykv. og aðrir viti, að þeir hafi gert það, sem bezt var hægt að gera eftir þeirri aðstöðu, sem fyrir já. En það má slíka segja, að það geri ekki mikið til, þó að engir fáist til að standa í slíkum samningagerðum fyrir þjóðarinnar hönd, ef eiðar og heit eru rofin af samningaþjóðinni, eins og hefir verið um það þagnarheit, sem hún gaf, því þá fæst enginn til að tala við okkur í framtíðinni.

Um ræðu hv. 2. þm. Reykv. vil ég fara örfáum orðum. Það er rétt, sem hann sagði, að það hefir alltaf verið nokkuð rætt í sambandi við slíka samninga, hver voru verzlunarviðskipti þjóðanna, þ. e. a. s. hverri þjóðinni verzlunarviðskiptin séu hagkvæmari. Ég ætla að verja nokkrum mín. til þess að minnast á það; af því að mér vannst ekki tími til þess í minni frumræðu, að við Íslendingar lögðum mikla áherzlu á þetta í samningagerðinni við Norðmenn, og sýndum þeim fram á, að ef þeir útilokuðu íslenzka kjötið á norska markaðinum, þá væru þeir með því að höggva á verzlunarviðskipti þjóðanna, án þess að Íslendingar gerðu nokkra ráðstöfun í þessu efni. Við lögðum fram verzlunarskýrslur Íslands um langt árabil og sýndum þeim, að verzlunarjöfnuðurinn færi batnandi fyrir Norðmenn, og bættum því við, að Norðmenn hefðu haft hag af skipagöngum, sem skipta meiru en hv. þm. hefir komið auga á, því að fragtin, sem við kaupum af Norðmönnum, nemur a. m. k. um 4 millj. kr. á ári. Við sýndum þeim fram á, að viðskipti Íslendinga og Norðmanna standa á tveimur stoðum. Önnur er sú, að ísl. kjötsalar þurfa að hafa umboðsmenn í Noregi. Þessir umboðsmenn hafa litlar tekjur af kjötsölunni og reyna því að auka sínar tekjur með því að selja norskar vörur til Íslands, og ísl. kjötsalar hafa eðlilega tilhneigingu til að hlynna að sínum norsku umboðsmönnum og hjálpa þeim til að selja vörur sínar hingað. Þetta er önnur stoðin, sem stendur undir ísl. og norskum viðskiptum. Hin stoðin hefir skapazt fyrir beinar skipagöngur milli Noregs og Íslands. Þessar beinu skipagöngur hafa aukið viðskipti milli landanna. En ef sú stoð, sem stendur milli kjötsala og umboðsmanna fúnar og fellur, þá er hin stoðin ekki ein nægileg til þess að rísa undir flutningsþörf þeirra skipa, sem annast þessi viðskipti. Og þá eru báðar stoðirnar fallnar. Við hömruðum því á því við Norðmenn, að ef þeir útilokuðu kjötið okkar af norska markaðinum, þá væru þeir að höggva á viðskipti, sem þeir hefðu sjálfir hagnað af. Þennan þátt málsins vil ég ekki rekja, því ég hefi gert það ýtarlega í minni frumræðu við 1. umr. En ég vil bara benda á það, að það er hæpið fyrir okkur Íslendinga að halda of fast fram þessari stefnu við þennan samning. Ef við sláum því föstu, að við eigum ekki að gera samning við neina þjóð, nema við fáum aukin fríðindi, þá er um þá stefnu að segja, að nái hún fyrir okkar frumkvæði eða annara, fótfestu hjá þeim viðskiptaþjóðum, sem við eigum mest undir, þá eru Íslendingar dauðadæmdir. Ef Spánverjar, Portúgalar og Ítalir tækju upp þessa stefnu, að spyrja um það, hvað við keyptum af þeim, þá værum við ekki vel settir. Hv. þm. er að beina athygli þessara þjóða inn á braut, sem leiðir til okkar bana í verzlunar- og atvinnulífi. Ég hefi ekki séð spánskar hagskýrslur yngri en frá 1929. Eftir þeim kaupa Íslendingar fyrir rúma 1 millj. kr., en við seljum þeim fyrir 31 millj. kr. Hvernig stæðum við, ef Spánverjar tækju upp verzlunarstefnu hv. 2. þm. Reykv.? Það er freistandi fyrir okkur að halda á þessari stefnu gagnvart Norðmönnum, þegar við erum að semja við þá, en við megum fara varlega í að hamra á því. Við verðum að sveigja frá þessari stefnu í öllu opinberu tali, því okkur er hún sjálfum hættulegust. Hv. þm. segir, að vernd okkar byggist á því, að Norðmenn noti ekki sín fríðindi í samningnum. Það er ekki rétt. Hún byggist á því, að Norðmenn misnoti ekki sinn rétt. Ef þeir misnota hann, þá reynir mest á íslenzk stjórnarvöld og löggæzlu. Og við höfum þá þann varnagla eins og margoft hefir verið tekið fram, að við getum sagt samningnum upp. En sú uppsögn er vottur um getuleysi, annarsvegar vottur um, að okkar fiskiveiðalöggjöf sé þess eðlis, að við sjáum ekki fært að þrengja ákvæði, sem fjalla um fríðindi erlendra manna hér á landi.

Hv. þm. sagði, að það mætti marka undirtektir landsmanna á samningnum á því, að ég hefði farið á fund í landsmálafélaginu Verði til þess að ræða málið og ekki þorað að bera upp till. í málinu. Ég átti þess ekki kost, vegna þess að formaður félagsins tók það fram, þegar hann setti fundinn, að félagið óskaði ekki, að það kæmi fram till. í málinu, því að Sjálfstæðisfl. væri þar klofinn og það væri félaginu ekki til farsældar að bera upp neina till. Þetta voru hans orð og það var ekki á mínu valdi að breyta neinu um það.

Það er hálfhlægilegt þegar hv. þm. reiðir upp grein úr norsku blaði, þar sem Norðmenn tala um hin miklu fríðindi, sem þeir fái með samningnum. Það hlægir mig, að það skuli vera búið að hafa hlutverkaskipti í þessum leik, sem við lékum, Norðmenn og Íslendingar, þegar við sátum við samningaborðið. Þá reyndum við að sannfæra Norðmenn um það, hvað þeir fengju mikil fríðindi með þessum samningi, og þeir reyndu að sannfæra okkur um, að sá réttur væri miklu minni en ekki neitt. Formaður norsku samningamannanna, sem er þm. Aalesundkjördæmis, sagði það alltaf við okkur, að ef hann samþ. samningana, þá félli hann í sínu kjördæmi. Við vikum í engu frá því, sem við höfðum haldið fram. En nú, þegar búið er að gera samningana, skiptum við um hlutverk. Eins og við höfum haldið samningnum fram frá sjónarmiði Norðmanna, eins erum við nú farnir að halda honum fram frá sjónarmiði Íslendinga. Þetta má ekki taka sem rök til andmæla samningnum.

Hvað snertir fríhafnirnar, sem Norðmenn eru að tala um, þá læt ég mér nægja að vísa til samningsins. Norðmenn hafa ekki fengið nein aukin fríðindi á þeim höfnum, umfram þau, sem þeir hafa áður haft. Norðmenn hafa á hverri höfn allar ráðstafanir, sem þeir nú mega hafa og hafa jafnvel leyft sér mikið meira óátalið. Aðalfríðindin, sem þeir fá, eru þau, að þeir mega bæta veiðarfæri sín. Það hafa þeir mátt gera óátalið undanfarið og þegar þeir hafa beðið ísl. stjórnarvöld um leyfi til þess, þá hefir úrskurður jafnan fallið á einn veg, að þeim væri það heimilt. Maður getur bezt séð öfgarnar í þessu norska blaði, þar sem Norðmenn eru að tala um, að þeir hafi fengið Akureyri til umráða, eins og stendur í greininni. Þeir eiga þá væntanlega að verða kóngar á Akureyri. Ég er hræddur um, að þetta sé ekki nema staðlausir stafir. — Hv. þm. sagði, að í þessari grein væri talað rækilega um samninginn frá sjónarmiði Norðmanna. Hér er um tvö sjónarmið að ræða, íslenzkt og norskt, og hv. þm. hefir gerzt talsmaður norska sjónarmiðsins. Hann hefir sómann af því, ef honum þykir það sómi. — Hv. þm. segir í lok ræðu sinnar, að hann sé sannfærður um, að mótmæli hvaðanæfa af landinu séu þýðingarlaus, því þingið sé búið að taka sína afstöðu. Ef þetta er þýðingarlaust, hvernig stendur þá á því, að þessi hv. þm. er vakinn og sofinn í að láta sendisveina sína hlaupa hús úr húsi til að smala undirskriftum þeirra, sem mótmæla samningnum, og að allir, sem í þjónustu hans eru, vinna að sama verki? Af því að aðstaða hans er og verður til þess að nota málið til framdráttar sínum flokki, til pólitískra hagsmuna. Því þessi hv. þm. tekur jafnan flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni.