22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki vera fjölorður um þetta mál. Ég vil til að byrja með benda á það, að það er ólík meðferð, sem þetta mál sætir hér og í Noregi. Þar hefir málið verið afgreitt á lokuðum þingfundum og við fáum tilkynningu um, að búið sé að afgreiða það, en við erum ennþá að deila um þetta stóra mál, ekki einungis á opinberum þingfundum, heldur geta svo að segja allir landsmenn heyrt það sem sagt er með og móti. Þetta ber e. t. v. vott um okkar frjálslynda stjórnarfar, en ég held samt, að þetta fyrirkomulag sé ekki svo heppilegt, að við megum framvegis hafa það til fyrirmyndar.

Ég held, að slíka megi benda á það í þessu sambandi, að það er dálítil hætta á að við lítum of mikið á það, að hér er við vingjarnlega frændþjóð að semja, og ber að gera sér grein fyrir því í þessu sambandi, það ætti að líta á málið án tillits til frændsemi, einungis með hagsmuni fyrir augum eins og væri verið að semja við einhverja fjarskylda þjóð. En ég vil ekki með þessu segja, að það hafi haft áhrif á samningamenn okkar, eða að þeir hefðu getað komizt lengra í samningunum, ef ekki hefði verið svona ástatt. Þó ber þetta allt fyrir augun þegar metin eru þau fríðindi, sem boðin eru, og það, sem á móti er látið. Ég held, að þetta sé stærra mál fyrir okkar þjóðfélag en mótsemjandann og þess vegna sé eðlilegt, að við athugum þetta nánar og meira, hvað hér er boðið, heldur en hinn samningsaðilinn, sem ekki hefir líkt því eins mikilla hagsmuna að gæta hlutfallslega og við.

Ég vil fyrst taka þá hlið samningsins, sem við að vonum höfum meiri áhuga á, þar sem það er okkar sóknarmál á hendur Norðmönnum, en það er salan á ísl. saltkjöti til Noregs. Ég vil þá fyrst spyrja: Hvaða líkur eru til þess, að við höldum áfram að hafa markað í Noregi? Ég lít svo á, að engin vissa sé fyrir því, að við höfum þar markað fyrir það magn, sem inn má flytja og tolllækkunin nær til. Það er athyglisvert, sem hv. þm. hefir glögglega bent á, hversu hraðlækkandi innflutningur til Noregs á ísl. kjöti hefir farið undanfarandi ár. Okkur ber skylda til að meta það gagn, sem í okkar hluta fellur vegna samninganna, eftir því, hvernig okkur tekst að hafa markað fyrir kjöt okkar í Noregi, og þá hitt ekki síður, með hvaða verði það selst. Ég er hræddur um, að eins og nú stendur sé ekki af miklu að láta hvað þetta snertir. Það er a. m. k. tilfinning mín. En þess ber þó að gæta, að ekki er nú hægt að benda á aðrar leiðir til að afla þess markaðar, sem samningurinn veitir. En ég legg áherzlu á það, að okkar hagsmuni af samningunum ber að meta eftir því, hversu mikið selst af kjöti í Noregi og með hvaða verði. Á þessu hvorttveggja ber að hafa vakandi auga. En þá er að líta á hina hliðina — fórnir okkar Íslendinga vegna samningsins.

Hv. þm. G.-K. segir, að það muni ekki mikið um þann mun, sem er á söluleyfi Norðmanna á síld hér á land eftir samningnum frá því, sem áður var, og að síldveiði Íslendinga þurfi ekki að minnka þess vegna. Mér er það nú ljóst, að á fleira verður að líta í þessu sambandi. Það eru fleiri þjóðir en Norðmenn, sem veiða síld hér við land og hafa heimild til að selja hana hér eftir fiskiveiðalöggjöfinni. Mér skilst, að það hafi ekki verið nægilega athugað, á hvern hátt aðrar þjóðir muni hagnýta sér þennan rétt á næstu árum. Er því ekki hægt að fyrirbyggja það, að um meira framboð verði að ræða en það, sem samningarnir gefa tilefni til. Og ég óttast það, að jafnvel þótt samningarnir verði vel framkvæmdir af Norðmanna hálfu, þá þurfum við þó að koma því svo fyrir, ef við ætlum að færa okkur í nyt þann markað, sem er til fyrir ísl. síld, að ísl. þjóðin geti meir setið að honum en nú er. Ég vil skjóta fram spurningu um það, hvernig fer, ef framboð á saltkjöti verður meira frá okkar hálfu á norskan markað en salan leyfir. Hefir nokkuð verið hugsað um fyrirkomulag á því? Ef framboðið verður meira en salan leyfir, þá þarf ráðstafanir af ríkisins hálfu, um skipulagningu á útflutningi kjötsins til Noregs. Þetta er atriði, sem ég tel, að líta beri á í upphafi og ráðstafa svo, að enginn þurfi undan að kvarta.

Þótt ég líti svo á, að samningur þessi sé ekki viðunanlegur nema til skamms tíma og ég sé við því búinn, að fella þurfi hann niður eða breyta honum innan skamms, þá verð ég þó að líta á hitt, að enginn möguleiki virðist vera á því, að hægt sé að selja þetta kjötmagn á annan hátt, og af þeim ástæðum sé nauðsynlegt, að hann sé samþ. Ég mun því greiða honum atkv., en þó í því skyni, að vel sé fylgzt með þessari reynslu, er fæst við framkvæmd hans. Og að Alþ. breyti honum eða felli hann niður, þegar hann er ekki lengur hagstæður landsmönnum.