29.05.1933
Sameinað þing: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (1787)

183. mál, þjóðaratkvæði um aðflutningasbann á áfengum drykkjum

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. þessa máls tók fram, hefir tvisvar sinnum verið borið fram frv. á þingi um að afnema bannlögin, án þess fram færi þjóðaratkvæði áður. Þessi tilraun til að ganga á snið við að leita álits þjóðarinnar dagaði uppi á síðasta þingi, en nú var fjölmennt um þetta, þar sem 11 þm. gerðust flm. að frv. Þetta átti sýnilega að vera til þess að sýna þessari hv. d. í tvo heimana, ef hún yrði ekki fortakslaust með afnámi bannlaganna án þess að leita þjóðaratkvæðis, enda þótt bannlögunum væri komið á með þjóðaratkvæði.

Ég verð nú að segja, að ég er ánægður með, að þessir menn létu segjast við þær undirtektir, sem þetta mál fékk við umr., og féllu frá að halda því til streitu og hafa nú sætt sig við hina einu og sjálfsögðu leið í þessu máli, að leita þjóðaratkvæða, úr því slíkar till. sem þessar eru bornar fram á annað borð. Ég verð að fagna því, að þessir menn hafa nú látið sannfærast og viðurkennt með flutningi þessarar þáltill., að þeir hafi gengið í berhögg við rétt þjóðarinnar í þessu máli.

Ég skal ekki ræða málið almennt, enda gaf hv. frsm. ekki tilefni til þess. Reyndar taldi hann ástandið svo alvarlegt í þessu efni, að ekki væri við unandi. Ég skal viðurkenna, að það er allt annað og lakara en ég hefði kosið, en þá ber þess að gæta, hvað við tekur, ef bannið verður afnumið.

Í grg. frv. er gert ráð fyrir, að þjóðaratkvæði verði látið fram fara á þessu ári. Ég vil í því sambandi benda á, að fyrir þessu þingi liggur till. um að breyta stjskr., sem hefir fjölgun kjósenda í för með sér. En stjskr. verður sennilega ekki samþ. endanlega fyrr en á næsta ári. Þess vegna þætti mér í sjálfu sér eðlilegt, að atkvæðagreiðslunni yrði frestað þar til þeir menn, sem samkv. þessari stjskrbreyt. öðlast kosningarrétt, hefðu fengið réttinn til að kjósa. En þetta getur ekki samrímazt því ákvæði í þáltill., að atkvæðagreiðsla fari fram á þessu ári. Vil ég því skjóta því til hv. flm., hvort þeir geti ekki fallizt á til samkomulags, þar sem nú stendur nærri útfærslu á kosningarréttinum, að fresta atkvgr. þar til stjskrbreyt. verður endanlega samþ. Ef þeir geta þetta ekki, og gert verður ráð fyrir, að þjóðaratkvgr. fari fram á þessu ári, þá vil ég benda á, að ekki kemur til nokkurra mála að láta þessa atkvgr. fara fram samhliða væntanlegum þingkosningum í júlímánuði. Það væri allt of skammur tími fyrir báða aðila til þess að reifa málið fyrir þjóðinni. Þess vegna skýt ég máli mínu til hæstv. stj., ef þáltill. verður samþ., að hún fresti atkvgr. til haustsins, en láti hana ekki fara fram með svo skömmum fyrirvara eins og ef hún ætti að vera strax í júlí.

Annars vildi ég heyra undirtektir hv. frsm. um, hvort ekki væri eðlilegt, að þessum nýja kjósendahópi yrði gefið tækifæri til þess að láta álit sitt í ljós um þetta mál, þar sem ekki yrði á því lengri dráttur en fram á næsta ár.