29.05.1933
Sameinað þing: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (1788)

183. mál, þjóðaratkvæði um aðflutningasbann á áfengum drykkjum

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það var eitt atriði í ræðu hv. þm. Borgf., sem ég vildi svara lítillega. Hann sagði, að við flm. hefðum viðurkennt, að við hefðum farið villir vegar með flutningi þessa máls. Ég neita því fyrir mína hönd að hafa farið hér með rangt mál. En það eru hér á Alþ. menn eins og hv. þm. Borgf., hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Str., sem ekki viðurkenna sannleikann. Þeir viðurkenna ekki þann sannleika, að drukkið sé ólöglegt vín í landinu. Þeir viðurkenna ekki þann sannleika, að bannið er orðin þjóðarskömm og því beri að afnema það — og það strax. Þetta vildi ég fá skjalfest.

Um hitt er ég hv. þm. Borgf. sammála, að ekki sé rétt, að þjóðaratkv. fari fram um leið og þingkosningar í júlí næstk. En það er ekki af sömu ástæðu sem hann. Það er ekki af því, að ég telji ekki málið nægilega reifað og athugað, heldur hitt, að málið fær eðlilegri og réttlátlegri afgreiðslu, ef atkvgr. fer fram sérstök, ella mundi bannhræsnin vaða uppi í sambandi við þingkosningar.

Að öðru leyti, hvort ekki væri rétt að fresta atkvgr. þar til stjskr. yrði endanlega samþ., þá segi ég fyrir mitt leyti, að ég gæti þess vegna fallizt á þessa till. að ég óttast ekki, að hinn nýi kjósendahópur mundi halda hlífiskildi yfir bannlögunum, því að hinir yngri menn eru yfirleitt opinskáir og hreinskilnir. Ég mundi þess vegna geta aðhyllzt þessa till., ef ég teldi, að það orkaði tvímælis, hvort bannlögin yrðu úr gildi numin eða ekki. En það þarf ekki til, ég veit, að þjóðin er á móti banni. En ég sé ekki ástæðu til að fresta atkvgr. til næsta árs; það hefði aðeins þau áhrif, að lengur yrði drukkið ólöglega í landinu, og því er réttast að láta atkvgr. fara fram á þessu ári.